Eins og titillinn kannski gefur til kynna snúast þessi skrif mín um ákvarðanatöku og forgangsröðun. Mig langar að vekja upp smá umræðu og endilega kommentið. Greinin snýst í raun út á það hvort er mikilvægara ást eða vinátta.

Við höfum ástand. Þú er yfir þig ástfanginn af stelpu. Hún er ekki aðeins falleg heldur er hún einnig skemmtileg, góðhjörtuð og gáfuð. Hún hefur allt það til brunns að bera er þú óskar eftir í stelpu. Besti vinur þinn er til margra ára sem þú treystir fyrir öllu og hefur farið í gegnum súrt og sætt með er einnig yfir sig ástfanginn af stelpunni. Stelpunni líkar vel við ykkur báða og þið eruð að “berjast” um hana. Þú uppgötvar að þetta er orðið frekar alvarlegt og að samband ykkar vinanna er farið að stirðna. Nú stendur þú frammi fyrir stórri og mikilvægri ákvörðun sem getur breytt lífi varanlega. Fyrir þér eru einu möguleikarnir annars vegar að gefa stelpuna upp á bátinn og viðhalda vináttu þinni við þinn allra besta vin og hins vegar að fylgja eftir ást þinni á stelpunni með von í þér í hjarta að það rætist úr sambandinu og þið eigið eftir að lifa hamingjusöm saman.

Þessir möguleikar hafa báðir kosti og báðir galla. Ef þú velur fyrri möguleikann heldurðu áfram að byggja ofan á sterkt og mjög líklega langvarandi samband ykkar vinanna. Það gæti þó orðið erfitt að sleppa ástinni í lífi þínu og möguleika á sannri hamingju með stúlku drauma þinni. Einnig gæti vinur þinn endað uppi með stelpunni sem þú elskar og líklegt er að þú ættir erfitt með að höndla það. Ef þú velur á hinn bóginn stelpuna gæti verið að þú sért að stofna til langvarandi sambands með yndislegri manneskju og gætir jafnvel eignast fjölskyldu með henni. Þú tapar hins vegar vináttu besta vinar þíns með því að velja þennan möguleika. Vinar sem hefir staðið við hlið þér sama hvað á hefur gengið og aldrei haggast. Traustur klettur sem ólíklegt er að muni bregðast þér.

Valið stendur milli þeirra tveggja manneskja sem þér þykir hvað mest vænt um ásamt fjölskyldu þinni. Það er sama hvorn möguleikann þú velur, þú munt missa manneskju sem skiptir þig miklu máli. Hvort skiptir þig meira máli ævilöng vinátta eða tækifæri á lífinu sem þú hefur alltaf óskað þér? Nú spyr ég ykkur kæru hugarar, hvorn möguleikann af þessum tveimur mynduð þið velja? Nú spyr ég með það í huga að þið sjáið aðeins þessar tvær lausnir og engar aðrar. Engar málamiðlanir, hvorn kostinn veljið þið?