Sælt veri fólkið. Ég vill byrja á því að þakka ykkur fyrir að smella að minnsta kosti á þetta.
Ég á í vandamáli, og þætti afar vænt um ef einhver gæti veitt mér ráðleggingar eða álit. Hins vegar er líklega best að ég útskýri sjálfan mig aðeins fyrst.
Ég er 22 ára gamall, gagnkynhneigður Akureyrskur karlmaður, og ég hef alltaf átt erfitt með mannleg samskipti. Hver hefur sinn djöful að draga og þetta er bara minn. Ég er alveg fær um að tala við fólk á eðlilegan hátt, en þegar kemur að því að lesa í það sem er ekki sagt, þessar duldu “milli línannan” merkingar sem allir aðrir virðast kunna sjálfkrafa á lendi ég í vandræðum. Ég hef reyndar skánað nokkuð í þessu eftir því sem ég hef þroskast, en er samt ekki eins fær og fólk flest virðist vera. Ég hef aldrei verið mikið innan um fólk félagslega, þar sem flest áhugamál mín eru ótengd mannlegu félagslífi. Ég hef aldrei stundað skemmtistaði eða aðra þá staði þar sem fólk virðist koma saman til að hittast, og verð því að játa að margt af mannlífinu er mér alls ókunnugt.
Og til hvers er ég að segja þetta? Það er ósköp einfalt: Ég er sem segir 22 ára og hef aldrei verið í sambandi við stelpu. Aldrei.
Síðan ég byrjaði í framhaldsskóla hef ég aðallega verið í því að takast á við mín vandamál, svo sem þunglyndi og erfiðleika í námi, auk þess að hafa áhyggjur af því hvernig ég muni vinna fyrir mér í framtíðinni. Með einu skrefi í einu hefur mér tekist að yfirstíga vandamál mín: Þunglyndið er á bak og burt, ég er stúdent, og er byrjaður í vinnu sem ég er ánægður með. Reyndar bara hálf vinna til að byrja með, en ég er að vonast til með að fá fulla áður en of langt um líður. Íbúð sem ég hef beðið lengi eftir á víst að losna með vorinu, og í stuttu máli virðist líf mitt bara ganga ansi vel.
Fyrir utan það að eftir því sem takmörk mín hafa náðst hefur mér gefist meiri tími til að hugsa um það sem ég hef ekki. Síðust þrjú ár eða svo hefur hægt og rólega aukist sú tilfinning mín að stórt gat sé í lífi mínu. Og núna í þessa tvo síðustu mánuði síðan ég fékk nýju vinnuna hefur þessi tilfinning tekið kipp.
Svona er staðan sem sagt. Ég finn það núna að ég þarf að stíga tánni í þessa hlið mannlífsins, en veit hreinlega ekki hvernig ég á að fara að því þar sem ég hef enga leið til að umgangast stelpur á mínum aldri dagsdaglega, og veit ekki hvernig ég ætti að fara að jafnvel þó ég gerði það. Málið er að eins og ég er gæti ég átt erfitt með að skynja hvort einhver hefur áhuga á mér eða ekki, og hvenær væri best að bakka og hverær að halda áfram.
Ég er ekki bara að tala um kynlíf. Mig vantar náinn félagsskap. Mig langar að geta deilt lífi mínu og tilfinningum með einhverri sem er tilbúin að gera það sama við mig. Mig langar að kynnast ástarlífinu.
Þó svo ég sé augljóslega óreyndur held ég að ég komi ekki tómhentur að borðinu. Ég tel mig geta litið á sjálfan mig og mína hegðun og sagt án nokkurs drambs að ég sé vel innrættur einstaklingur. Ég hef alltaf gert mitt besta til að virða og stíga gætilega í kringum tilfinningar fólks. Ég legg mikið upp úr því að vera strangheiðarlegur. Ég er kannski ekkert módel en er ekki ljótur heldur og er tágrannur og lyfti til að koma mér í form. Loks eru engir stælar í mér og ég þykist ekki vera annar en ég er. Ef ég myndi segja eitthvað við stelpu sem ég væri hrifinn af myndi ég meina það, og yfirhöfuð koma fram af fyllstu virðingu.
Hvað finnst ykkur dömur? Er ég eitthvað sem stelpa gæti verið til í að kynnast nánar? Hafið þið einhver ráð um hvernig ég ætti að bera mig að við að fylla upp í líf mitt?

Ég er að setja þetta allt saman fram í fullri einlægni og vonast til að fá einlæg svör.