Ef þið hafið þó það sé ekki nema pínu rómantískt hjarta og góðan húmor þá eigið þið eftir að elska þessa sögu ;)
Þetta er tekið úr bókinni Afródíta eftir Isabelle Allende, alveg YYYYYYndisleg bók. Og mér finnst þetta líka bara alveg ágætis tilbreyting frá öllum þessum greinum um feitt fólk sem hafa verið misgáfulegar…….
Njótið vel ;)




“Kólomba úti í náttúrunni.”

Og af því að við höfum verið að tala um grænmeti sveitasælunnar kemur upp í hugann sönn saga af vinkonu minni, sem ég get ekki sagt hvað heitir, því ef ég gerði það myndi hún drepa mig. Við skulum kalla hana Kólombu. Á því skeiði er sagan gerist var hún ung og rjóð í kinnum, bleik og freknótt á holdið, sem ekki var skorið við nögl, með sítt hár í þessum rauða lit sem Tiziano gerði vinsælan á tímum endurreisnarinnar og hægt er að fá nú til dags á krukkum. Það var ekki meira en svo að fíngerðir dísarfæturnir næðu að halda uppi digrum lærastólpunum, ólgandi mjöðmunum og, fullkomnum melónubrjóstunum, hálsinum með tveimur lostavekjandi undirhökum og bústnum valkyrjuörmunum. Eins og oft gerist hjá slíku fólki var hin þrýstna vinkona mín grænmetisæta (til að forðast kjötið troðfylla þessar manneskjur sig af kolvetni). Kólomba sótti tíma hjá listasögukennara í háskólanum sem gat ekki haft af henni augun og var yfir sig heillaður af mjólkurhvítu hörundinu, Feneyjarlegu hárinu, svellandi holdinu, úlnliðaböndunum sem gægðust undan ermunum og öðrum fitudældum sem hann ímyndaði sér í þjáningu svefnlausra nátta þegar hann lá í hjónarúminu við hlið eiginkonu sinnar, hávaxinnar og uppþornaðrar, en hún var ein af þeim fyrirmyndarkonum sem eru þannig vaxnar að fötin leggjast fallega yfir beinin (ég hata þær). Aumingja maðurinn helgaði alla sína visku málstað þessarar þráhyggju og talaði svo linnulaust um Ránið á sabínumeyjunum eftir Rubens, Kossinn eftir Rodin, Elskendurna eftir Picasso og Eftir baðið eftir Renoir, las upphátt svo marga kafla úr Elskhuga lafði Chatterley og lagði svo marga konfektkassa í kjöltu hennar að hún, kona hvað sem öðru leið, tók boði hans um hádegisverð úti í sveit. Er hægt að ímynda sér eitthvað saklausara ? Ó ! En kennarinn var ekki sú manngerð sem lætur svona tækifæri ónotað. Hann bjó til hernaðaráætlun sem sjálfur Macchíavelli hefði verið fullsæmdur af. Hann áleit sem svo að hún myndi aldrei samþykkja að fara með honum á hótel á fyrsta stefnumótinu og kannski fylgdi ekkert annað í kjölfarið : hann varð að spila úr spilum sínum með einni snilldarsókn. Hann átti bara Citroénbragga , einn af þessum bílum úr ámáluðu blikki sem Frakkar settu á markað fyrir millistéttina á sjöunda áratugnum, ökutæki sem leit út eins og bastarður af kökuboxi og hjólastól, þar sem einungis snákmenni geta elskast. Að fleka stúlku á stærð við Kólombu í bíl að þeirri stærð hefði verið óframkvæmanlegt. Málsverður úti í náttúrunni var í senn rómantísk og hagnýt lausn. Herstjórnarlist hans fólst í því að sækja fram þar sem nemandinn kæmi minnstum vörnum við: hann ákvað að höfða til matgræðgi hennar. Hann komst fyrir um það með kænskulegum brögðum og úthugsuðum spurningum hverjir væru eftirlætisréttir hennar og lét grænmetisát hennar ekki þvælast fyrir sér; hann troðfyllti gullfallega körfu af kynörvandi dásemdum: tveimur flöskum af rósavíni vel kældu, harðsoðnum eggjum, bændabrauði, sveppaböku, salati úr selleríi og lárperum, soðnum ætiþistlum, steiktum maís, ilmandi ávöxtum árstíðarinnar og sælgæti af öllu mögulegu tagi. Hann var líka viðbúinn því að þurfa að grípa til sérstakra ráðstafanna til að styrkja sóknina og kom með litla dós af beluga-styrjuhrognum sem hafði kostað hann hálfsmánaðarlaun, krukku með kastaníuhnetum í sýrópi og tvær maríjúana-jónur. Skipulega hugsandi - í Meyjarmerkinu - var hann og hafði einnig meðferðis kodda, ábreiðu, og skordýrafælu.
Kólomba beið hans á horninu á torginu Plaza de los Libertadores, í hvítu músselíni frá toppi til táar og með ítalskan stráhatt prýddan breiðum silkiborða. Úr fjarska líktist hún báti undir fullum seglum og líka þegar nær dró. Þegar kennarinn sá hana fann hann hvernig þyngsli áranna hurfu eins og óttinn við afleiðingarnar;ekkert var til í heiminum nema þetta unaðslega hold, umvafið músselíni, sem dúaði við hverja hreyfingu og kallaði fram í honum frumstæðan losta sem hann vissi ekki einu sinni sjálfur að hann ætti til. Þegar allt kom til alls var hann menntamaður, lærður maður, áhugamaður um listir, eiginmaður, fræðimaður. Um frygðarlosta hafði hann ekkert vitað fram að því. Kólomba tróð sér inn í brothættan og smáan braggann sem hallaðist hættulega mikið og eitt augnablik leit út fyrir að dekkin væru endanlega sokkin niður í malbikið, en eftir að hafa hikstað nokkra stund komst þetta eðla farartæki af stað og hélt í átt að úthverfum borgarinnar. Á leiðinni spjölluðu þau um listir og mat, meira þó um hið síðarnefnda en hið fyrrnefnda. Og þannig ræddu þau létt í skapi og ánægð með þessa fallegu hádegisstund uns þau komu loksins á staðinn sem kennarinn var búinn að velja, undurfallegt og gróðursælt engi skammt frá lítilli á þar sem grátvíðir óx við bakkana. Þetta var afvikinn staður og engin sjánleg vitni að ástarleikjum þeirra þegar frá voru taldir smáfuglarnir í greinum grátvíðisins og kýr sem sleit upp blóm í hægðum sínum í nokkurri fjarlægð. Kennarinn stökk út úr bílnum og Kólomba klöngraðist út með erfiðismunum. Meðan hann var önnum kafinn við að leggja ábreiðuna á jörðina, koma fyrir púðanum og taka matinn upp úr körfunni hafði nemandinn hans farið úr skónum og hoppaði létt en þó feimnislega á bakka árinnar. Það var töfrandi sýn.
Kennarinn flýtti sér að fá Kólombu til að setjast á teppið og halla sér upp að púðanum og raðaði svo lostæti körfunnar upp fyrir framan hana. Hann skenkti víninu til að hressa hana og tók utan af soðnu egginu sem hann lét hana bíta í og lék við tærnar á hennar digru fótum og þuldi :
Strákurinn smái keypti eggið smáa, strákurinn smái tók utan af egginu smáa og hann stráði á það salti; strákurinn smái sneri því við - og litli feiti grísinn át það !

Kólomba veltist um af hlátri og kennarinn færðist allur í aukana og tók nú til við að flysja ætiþistilinn og gaf henni eitt blað eftir annað uns hún hafði lokið við tvo og þá gaf hann henni sveppabökuna og síðan jarðarberin, fíkjurnar og vínberin um leið og hann gantaðist við hana með smákitlum hér og hvar og romsaði upp úr sér, sveittur af óþoli, ástríðufyllstu ljóðum Pablos Neruda. Kólombu var byrjar að svima af sólinni, víninu, ljóðunum og marijúana-jónunni sem hann hafði kveikt í um leið og þau voru búin með síðustu styrjuhrognin, en kýrin virti þau fyrir sér svipbrigðalaus og var nú nær þeim en áður. Þegar hér var komið við sögu birtust fyrstu maurarnir, sem kennarinn hafði beðið óþolinmóður eftir: þeir voru yfirvarpið sem hann þarfnaðist. Hann fullvissaði Kólombu um að á eftir maurunum kæmu óhjákvæmilega býflugur og moskítóflugur, en hún þyrfti ekkert að óttast, hann væri með skordýradælu í fljótandi formi. Hann vildi hins vegar ekki klína skordýraeitri á fallega kjólinn hennar… Hún myndi kannski eftir hinu fræga impressjónistamálverki Le Déjeuner sur I´Herbe? Þessum fræga málsverði í grasinu þar sem konurnar voru naktar en mennirnir í fötum ?Nei, Kólomba var engu nær, þannig að hann varð að lýsa því ítarlega fyrir henni og notaði tækifærið meðan hann talaði til að hneppa frá öllum tölunum á músselínkjólnum. Það er skemmst frá því að segja að áður en varði var Kólomba öllum sínum seglum svipt og sólin gældi við fljótandi hæðir hennar þrýstna kropps. Hún stakk kastaníuhnetunum upp í sig án þess að hafa áhyggjur af sýrópstaumnum sem rann af hökunni niður á brjóstin, en á þann taum horfði kennarinn snarringlaður og másandi uns hann gat ekki staðist þá sjón lengur og kastaði sér yfir þetta fjall af glampandi og ólgandi holdi, reiðubúinn að sleikja sýrópið og allt annað sem hann kæmi tungu yfir; hann reif af sér fötin eins og óður maður uns hann var berstrípaður. Kólomba engdist og veltist um af kitlunum og var að deyja úr hlátri - hún hafði aldrei sér nokkurt manngrey svo horað og loðið, með svo frakka gúrku undir naflanum - en hún færði ekki fæturna sundur, þvert á móti, hún stjakaði honum frá á daðurslegan máta en þar sem hún átti í hlut voru þetta sannkölluð fílaspörk. Um síðir tókst henni að losa sig úr klunnalegu faðmlagi listasögukennarans og hún tók á rás, stríðnisleg og hlæjandi, eins og þessar goðsagnakenndu verur skógarins sem alltaf hafa samfylgd af hinum hálfmennska skógarpúka. Og kennarinn var svo sannarlega líkur skógarpúka þar sem hann reyndi að ná henni.
Meðan þessu fór fram ákvað kýrin , sem reyndar var ekki kýr heldur tarfur, að nú væri nóg komið af fíflalátum á sínu engi og skokkaði í humátt á eftir elskendunum, sem þegar í ljós kom að þessi risavaxna skepna ætlaði að ráðast á þau, tóku á sprett eins og sálir haldnar djöflinum og leituðu hælis í nálægum skógi.
Það liðu margar klukkustundir áður en nautið fór nógu langt í burtu til að þetta ógæfusama engjaferðafólk, allsbert og skjálfandi, gæti snúið til baka. Áhrifin af maríjúana-jónunum, víninu, kitlunum og máltíðinni voru fyrir löngu roknar út í veður og vind. Kólomba var vitu sínu fjær og jós svívirðingum og hótunum yfir óttasleginn kennarann sem huldi með höndunum samanskroppið gúrkugreyið og reyndi án árangurs að róa hana með ljóðum eftir Ruben Darío. Þegar þau komu á staðinn þar sem þau höfðu áður setið sáu þau að það var búið að stela öllum fötunum og líka franska bragganum. Skammt frá grátvíðinum þar sem smáfuglarnir tístu lá ítalski stráhatturinn einn eftir ….
Isabel Allende