Komiði sæl.

Ég er að skrifa hér í fyrsta sinn og vona að ritstjóri síðunnar sjái aumur á mér og birti greinina. Þannig eru mál með vexti að ég er búinn að dvelja í sveit í soldin tíma, en ég kom hingað upphaflega til að losna frá bænum og fá smá slökun út í náttúrunni. Ég seldi bílinn minn, sagði upp íbúðinni og vinnunni og keypti mér nýtísku útivistartjald og aðrar grjæjur. Ég vil líka koma því að að ég er 26 ára.

Hvað um það, ég er búinn að vera í sveitinni í tvær vikur þegar það er byrjað að syngja fyrir utan tjaldið hjá mér. Mér bregður náttúrulega og þegar ég gægist út sé ég einhvern bláklæddan skjótast inn í þokuna. Okei, eftir nokkra daga taldi ég þetta bara hafa verið misheyrn og sýn.

Nokkru síðar, skömmu eftir að ég er búinn að vera í fjallgöngu byrjar þetta aftur. Ég vissi náttúrulega ekki alveg hvað var í gangi og þorði ekki einu sinni út ef ég skyldi vera sunginn inn í álfheima ;) — Eftir tvo tíma er ég búinn að fá mig fullsaddan og rýk út. Stendur þá álfurinn ekki nokkra metra frá tjaldinu. Hún var ótrúlega fögur, hárið rauðljóst og feyktist til í vindinum. Klædd í bláan kjól og gul nokia stígvél og hélt á vodka flösku. Hún þurrkaði sér með erminni og söng tvær línur úr rollingstónslagi sem ég man ekki hvað heitir.

Ég var svo ringlaður að ég sagði henni að hypja sig og ég mætti ekki við svona truflun þar sem ég væri að skrifa og reyna að finna sjálfan mig – en þá hallaði hún sér bara undir flatt og þambaði vínið.

Auðvitað kom það í ljós að hún var engin álfur, heldur stelpa (tuttugu og sjö) á næsta bæ. Afi átti bæinn hérna einu sinni en hann er dáinn. Pabbi hennar hefur tekið við bænum en hann var vinnumaður hjá afa í gamla daga.

Málið var bara að hún var á fylliríi og að syngja fyrir utan hjá mér var einhverskonar dægrastytting eða stríðni – enda er hún stríðin eins og pabbi sinn. (Ég vil einnig koma því að, að ég var þarna eitt sumar þegar ég var átta ára og þá kynntumst við aðeins.)

Eftir þetta fer hún að venja komur sínar til mín og tekur oft krakkann sinn með sér – eins árs stelpu. Við erum oft að spjalla og fer vel á með okkur og ekki fyrir svo löngu síðan sváfum við saman.

Ég er næstum alveg viss um að ég er orðinn ástfanginn af henni. Hún er svo ólík stelpunum sem ég hef kynnst. Hún er eitthvað svo náttúruleg. Stundum tekur hún upp á því að syngja og dansa ef við erum í göngutúr og hún syngur alveg ótrúlega fallega.

Málið er bara að hún vill ekki byrja með mér en er samt alveg til í að sofa hjá mér. Nó problem. En mig langar að við séum saman. Að hún komi með mér en hún vill ekki fara úr sveitinni – það komi ekki til greina. Hún sé búinn að prófa að búa annarstaðar. Ég hef það fyrir víst að hún var í London að reyna að koma sér í framfæri í söngnum. Pabbi hennar sagði mér í trúnaði að tilboðunum hefði rignt yfir hana. Og þegar hann sagði mér að lífið í London hefði ekki átt við hana átti ég bágt með að trúa því. Henni þykir nefnilega fínt að skemmta sér. Stundum drekkur hún nokkra daga í röð – en hefur reyndar dregið úr því eftir að við byrjuðum að umgangast hvort annað.

Ég hef boðist til að hjálpa henni að ná samningum hérna heima en ég þekki fólk í lítilli útgáfu. Talaði meira að segja við vin minn og hann bauðst til að hóa saman í band handa henni ef hún væri góð – sem hún er.

Ég veit bara ekki hvað ég á að gera. Ég er mjög hrifinn af henni og er alveg tilbúinn að gangast krakkanum í föður stað og mér hefur aldrei liðið svona gagnvart stelpu áður. Ég hef á tilfinningunni að ef við tökum saman muni allt falla í réttar skorður en líf mitt hefur verið svoldið brösugt upp á síðkastið.

Það er um ár síðan ég fór út úr sambandi og ég á tvö önnur börn. – sem ég hef kannski ekki synt sem skyldi og eftir að því sambandi lauk hef ég ekki náð nógu góðri tengingu við þær.

Hvað um það. Ég er viss um að ef við tökum saman muni allt framvegis verða gott. Málið er bara að ég veit ekki hvernig ég eigi að heilla hana. Þið vitið, svona náttúrustelpu eins og hana. Varla þýðir að gefa henni blóm – ég hef náttúrulega gert það.:)
Hvernig heillar maður svona stelpu.

Nú bið ég ykkur að hjálpa mér því það sem ég hef lesið hérna sýnir að hér er alvöru fólk.

Með kærri kveðju

SOL


p,s plís viltu birta þetta!!!
Save me.