Jæja, þá er ég komin heim, síðustu páskar í sumarbústaðnum okkar.
Síðustu 13 ár hefur fyrsta sumarbústaðarhelgin verið páskahelgin, en nú er ég að selja hann.
Mig langaði bara til að gefa smá dæmi um rómantík í faðmi fjölskyldunnar.
Það, að vera uppi í sveit, ekkert rafmagn, enginn sími, engin dyrabjalla. Það, að þurfa að sækja vatnið í lítinn læk sem rennur gegnum lóðina okkar, elda við gas, að vaka fram á nótt, spila kana og rommí við kertaljós og olíulampa. Fá sér heitt kakó fyrir svefninn, slökkva ljósin og sofna í niðamyrkri, heyra ekkert nema tifið í klukkunni og lækjarniðinn fyrir utan gluggann, vakna svo við skrabblið í fuglunum uppi á þaki………
Þetta er rómantík að mínu skapi, og ég á eftir að sakna hennar. Kannski get ég skapað eitthvað svona heima?
Kannski get ég talið mér trú um að krunkið í hröfnunum, sem eru óvenju margir í bænum í ár, sé líka rómó?
Allt er víst hægt ef viljinn er fyrir hendi…..