Ég er í ástarsambandi með manni sem ég elska út af lífinu, og það er gagnkvæmt. Hinsvegar erum við bæði skaphundar og eigum það til að gjósa eldi og brennisteini yfir hvort annað þegar við rífumst. Fyrir hálfu ári síðan gekk eitt þessara rifrilda of langt eftir of mörg vínglös og við fórum að stympast. Ég tek það skýrt fram að ég var EKKI barin, en stympingarnar leiddu nú samt til þess að það stórsá á mér (en ekkert á honum) og ég handarbrotnaði. Okkur brá báðum alveg gífurlega við þennan atburð. Þegar víman rann af okkur varð okkur ljóst að við höfðum gengið allt of langt og fórum saman á slysó. Þar laug ég til um hvað hafði gerst. Kærastinn minn hefur aldrei verið ofbeldismaður, hvorki fyrr né síðar, enda myndi ég umsvifalaust fara frá manni sem mér þætti mér stafa ógn af. Hann fékk algert áfall yfir því sem gerðist, fannst hann ekki þekkja sjálfan sig lengur og grét yfir þessu. Ég fór eiginlega bara í afneitun og dæmið snerist nánast við þar sem ÉG var í því að hugga HANN. Þetta var allt mjög óraunverulegt og skrýtið. Innst inni náði ég aldrei að vinna almennilega úr þessu eða fyrirgefa honum það sem gerðist. Ég sagði bara öllum að ég hefði dottið og meitt mig og lífið hélt áfram . Nú er málið hinsvegar orðið þannig að ég fæ reglulega brjálæðisköst út í kærastann minn fyrir engar sakir. Ég veit í hjarta mér að þetta stafar af þessu atviki fyrir hálfu ári síðan, og að ég bý ennþá yfir mikilli reiði yfir því sem gerðist. Ég veit að hann ætlaði sér ekki að meiða mig, en staðreyndin er samt sú að ég slasaðist og ég á erfitt með að fyrirgefa það. Mér finnst eins og þessar tilfinningar mínar séu að stía okkur í sundur og valda tjóni í sambandinu okkar, en ég veit ekki hvað ég á að gera. Mig langar að “forgive and forget” og halda áfram að elska þennan mann óhindrað. Mér finnst bara eins og þetta mál sé að rotna innan í mér og ég veit ekki hvernig ég á að hreinsa þetta út. Við erum búin að ræða þetta fram og aftur og hann er búinn að biðja mig óendanlegrar fyrirgefningar. Hinsvegar finn ég daglega til í hendinni (þetta tekur víst ár að gróa almennilega) og bý yfir reiði sem er að eyðileggja ástarsamband sem ég myndi vilja að entist út ævina. Hvernig kemst maður yfir svonalagað? Er hægt að fá útrás á einhvern hátt? Mig langar svo að fyrirgefa þetta og halda lífinu áfram, en það er hægara sagt en gert. Einhver ráð?

Ástfangin og bálreið