Var að hugsa um daginn og veginn, datt í hug að skrifa litla hugleiðingu. Hversu mikið af manni sem einstaklingi er í raun og veru, hreint og beint maður sjálfur? Sumir myndu hlæja að þessari spurningu, setja upp hrokasvip og segja að hver væri sinnar gæfu smiður og frjáls í eigin athöfnum. Mér finnst það hæpið þar sem ég lýt alltaf á sjálfan mig sem togstreitu milli mín og samfélagsins. Félagsfræðingurinn David Reismann orðar þetta ágætlega þegar hann segir að samfélagið ali af sér einstaklinga sem eru því þóknanlegir. Finnst pínulítið eins og ég sé innrammaður í þessa hugmynd
Samfélagið með alla sína kosti og galla er ófært um að vinna gegn mannlegum þörfum. Mannlegar þarfir eru margar og misjafnar en ber þó helst að nefna ást og þörfina til að afla sér fæðu og skjóls, þar að segja öryggis. Ógæfufólk á þessum sviðum brýtur oft gegn samfélaginu með glæpum og öðru eins. Aðrir sjá í gegnum samfélagið og benda á ókosti þess, eru þeir stundum taldir geðveikir eða vanþakklátir, Björn Bjarnasson myndi kalla þá kommúnista.
Hvað sem öðru lýður þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu um sjálfan mig að ég þurfi einhversskonar viðurkenningu fyrir það sem ég er. Hvað finnst fólki um mig og hvernig öðlast ég viðurkenningu? Í leit að viðurkenningu kemur aftur upp þetta vandamál um hvora leiðina sé best að fara, samfélagsleiðina eða sína eigin leið. Hingað til hef ég alltaf farið mína eigin leið og verið elskaður fyrir vikið, jafnvel öfundaður. Þessi öfund kemur oftast frá fólki sem að mínu mati fer ekki sínar eigin leiðir og það sem böggar egóið mitt með það er að ég öfunda í raun og veru þetta sama fólk. Er til einhver millivegur? Nei, millivegir eru alltaf hálf ömurlegir, þá þarf maður að kyngja stolti örðu hverju og það vill maður helst ekki gera. Hef í raun og veru ekki hugmynd um hvað ég á gera, ég lifi lífi mínu útfrá einhverri goðsögn sem ég hef byggt upp í kringum sjálfan mig og ég er ekkert brjálæðislega stolltur af henni. Er í raun og veru örlítið þreyttur á þessu öllu saman svona 85% af deginum.
Kannski finnur maður svarið í ástinni. Það eru unaðsleg augnablik þegar einhver tekur sig til og brosir til manns. Það eru augnablikin sem gefa þessu öllu gildi, orðlaus staðfesting um einhversskonar aðdáun. Tala nú ekki um gott kynlíf. Ef einhver hefur lesið útópískar og dystópískar skáldsögur þá hefur hann væntanlega komist að því að öll samfélög, góð eða slæm geta aldrei unnið gegn þörf mannsins að elska. Samfélagið getur reynt og snúið ást uppí pervertisma eða sett furðulegar leikregglur en það getur aldrei almennilega fylgst með og fordæmt þessa helgustu sermóníu sem okkur hefur verið gefin til að tjá okkur og fullkomna.