Hæhæ! Mig langar að segja ykkur litla sögu úr lífi mínu þó ég viti ekki beint hvort hún tengist rómantík á mikinn hátt. Og þó, eitthvað allavega.


Þannig er mál með vexti að fyrr á þessu ári byrjaði vinkona mín að tala við strák á MSN, sem hún hitti fyrst á MSN Chat rooms. Strákur þessi á heima í útlöndum og er af útlendu bergi brotinn. En hann talar þessa fínu ensku og þau töluðu helling saman fyrstu dagana. En brátt fjaraði þetta spjall þeirra út og þau töluðu bara annað slagið saman. Þá byrjaði ég að tala rosalega mikið við hann, eitthvað sem gerðist alveg óvart. Þetta varð þannig að við töluðum saman dag og nótt og ég hætti stundum við að fara til vinkonu minnar til þess að tala við hann. Hann fór að sýna mér frekar mikinn áhuga og ég hafði þónokkurn áhuga á honum, en þorði eiginlega ekki að viðurkenna það því mér fannst eins og vinkona mín “ætti strákinn”. Þannig að bálskotin ýtti ég honum eiginlega frá mér, af ótta við að ég myndi særa vinkonu mína eitthvað mikið.
Ég sagði honum aldrei hreint út að ég hefði ekki áhuga á honum, heldur talaði ég bara sífellt um hversu frábær þessi vinkona mín væri og lét hann hafa áhuga á henni aftur. Og þegar hann fór að sýna þessari vinkonu minni svona mikinn áhuga þegar þau töluðust saman þá fór hún að falla enn meira fyrir honum. Ég hataði þetta ferli en fannst þetta samt það eina rétta.
Núna er svo komið að þau viðurkenna alveg að þau eru súperhrifin af hvort öðru, og þau kveðjast aldrei nema tjá ást sína í nokkrum orðum. Foreldrar vinkonu minnar vita alveg af þessu, og í raun öll ættin. Svo langt er þetta gengið. Vinkona mín hefur ekki hugmynd um að ég sé hrifin af stráknum og ætla ég ekkert að segja henni það. Við segjum hvor annarri allt og hún hefur viðurkennt fyrir mér að hún var rosalega öfundsjúk á tímabili þegar ég var alltaf að tala við hann, því hún var svo hrifinn af honum og hún hélt að hann væri bara hrifinn af mér. Hann hefur sagt henni að hann var fyrst hrifinn af mér. Hún er að fara að hitta hann, held að hún ætli út til hans í boði hans fjölskyldu og er það bara frábært. Ég er alls ekki öfundsjúk út í hana, en samt svolítið fúl yfir því að hún hafi aldrei fattað að ég væri svona hrifin og aldrei dottið í hug að spurja mig eða neitt. Henni er alveg sama um það. Það er mér að þakka að þau eru að fara að hittast, ég þurfti að fórna þessari hrifningu minni..sem ágerist með hverju samtali sem ég á við þennan strák.
Samt sem áður vona ég að þau munu hittast og eiga góðar stundir saman. Því að ef ég get ekki fengið hann þá er hún besti kosturinn fyrir hann.


Vildi bara aðeins hreinsa hugann því mér líður ekkert alltof vel yfir þessu þessa dagana. Ef einhver eru með góð ráð, komment eða hvað sem er þá er þeim velkomið að tala.

Takk fyrir..