Þetta kemur rómantík ekki beint við, en þar sem ég held að flestir sem ég held þurfa að spá í þessu lesi þetta hérna, þá tek ég mér bessaleyfi og set þetta hingað inn. Og ég minni á að þó ég sé að tala um stefnumót í gegnum netið þá er ég alls ekki á móti að fólk notfæri sér netið í þeim tilgangi að kynnast fólki enda hef ég góða reynslu af því sjálf, hinsvegar er spurning hvort fólk megi ekki vera varkárara í þessum málum en hinsvegar er netið er alls ekki nein grýla eða eitt um að vera hættulegt, það er bara eitt af mörgu sem fólk þarf að varast.
—————————

Smá copy/paste af mbl.is
10.10.2003 | 12:37
“Sautján ára stúlku var nauðgað í Víðidal ofan Reykjavíkur í nótt. Fór hún þangað í bíl með manni en vegfarendur heyrðu neyðaróp stúlkunnar og gerðu lögreglu viðvart en þá var gerandinn á burt.
Sigurbjörn Víðir Eggertsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavíkur vildi að svo stöddu einungis staðfesta að mál þetta væri til rannsóknar er rætt var við hann í hádeginu.”

10.10.2003 | 16:15
„Það liggur fyrir játning og við teljum að málið sé upplýst,“ sagði Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík við Fréttavef Morgunblaðsins um nauðgunarmálið sem upp kom í borginni í nótt. Var gerandinn handtekinn á þriðja tímanum í dag.
Maðurinn er um tvítugt og segir Hörður allt benda til þess að hann hafi kynnst stúlkunni, sem er 17 ára, kynnst á spjallrásum á Netinu.
Lögreglu var tilkynnt um neyðaróp í Víðidal ofan Reykjavíkur um hálf fjögur sl. nótt. Þegar lögregla kom á vettvang fannst stúlkan ein og yfirgefin en nauðgarinn var á brott. Þekktust þau ekki og höfðu ekki hist fyrr en sl. nótt.”

—————————–

Ég set þessa frétt ekki inn til að ræða þennan voðaatburð neitt sérstaklega og bið fólk um að sem virðingarvott við þennan þolanda að ræða þetta tiltekna mál ekki, en hinsvegar langar mig að vita hvort það sé virkilega algengt að fólk hittist á svona fáförnum stöðum í fyrsta skipti. Um daginn las ég grein hérna á Huga frá stelpu sem fór á stefnumót með manni sem hún kynntist á netinu og á fyrsta stefnumóti hittust þau heima hjá honum. Eru íslenskar stelpur virkilega svona kærulausar að þær spá ekki meira í hlutina en þetta? Er ennþá “svona gerist ekki á Íslandi eða fyrir mig” moldarbúa hugsunin í gangi? Það sem gerðist í vikunni var ekki í fyrsta skipti sem svona gerist í tengslum við Internetið og örugglega ekki það síðasta, enda misjafnir sauðir sem leynast á netinu.

Í guðsbænum stelpur, ekki hitta menn í fyrsta skipti annarsstaðar en á kaffihúsum eða opinberum stöðum, látið alltaf vinkonu, foreldra eða einhvern sem þið treystið vita hvað stendur til og það er ekki vitlaust að biðja þá um að hringja þegar 30 mín eru búnar af stefnumótinu, þið hafið þá tækifæri til að komast í burtu ef ykkur lýst ekki á aðilan og eins er bara nauðsynlegt að hafa svona öryggisnet ef eitthvað klikkar.
Reynið að vera búin að spjalla lengi við aðilan áður en þið hittið hann og passið að gefa ekki of mikið upp um ykkur sjálf. Ég veit um fólk sem hefur þurft að láta loka hjá sér símanúmerum og fá sé leyninúmer eftir að það gaf upp of mikið af upplýsingum til manneskja sem kunna ekki með það að fara.

Við vitum aldrei hver er hinum megin á línunni þegar við erum að spjalla á netinu og sem betur fer er það venjulega sá sem hann eða hún segist vera, hinsvegar er aldrei of varlega farið og alltaf gott að pæla í að sá sem segist vera 12 ára stelpa eða strákur gæti verið 56 ára karlmaður og það kannst örugglega allir við svoleiðis dæmi.

Og að lokum munið að þó að sumar þessar öryggisráðleggingar hljómi kannski kjánalegar, þá hefði kannski ein af þeim getað komið í veg fyrir málið sem ég vitna í efst í greininni….spáið líka í því.

Kv. EstHe
Kv. EstHer