Menn hafa oft greint á um hvað myndlist sé, hvernig hún skuli framsett, á hvaða forsemdum, hver sé listamaður og hversvegna.
Hinsvegar þegar að kemur að rómantík er enginn í vafa.
Það sem fæstir vita er að í raun eru myndlist og rómantík náskyld fyrirbæri.
Rómantík er tilfinning, augnablik, staður, stund og jafnvel dagsetning.
En það er myndlistin líka.
Auk þess eru bæði myndlistin og rómantíkin nátengd okkar innri náttúru, okkar innri veru (manni/konu/goði/gyðju).
Orðabækur skilgreina rómantík meðal annars sem tilfinningatengsl milli einstaklinga, en slíkt getur myndlistin einnig verið, hvað er listamaðurinn að gera annað en að “miðla” tilfinningum til annara einstaklinga? Eins og flestir viti bornir menn skilgreini ég list sem tjáningu á tilfinningum til annarra manneskja, sem í raun eru tilfinningatengsl milli þess sem að bjó til verkið, og hins vegar sjáandans, þannig að í raun má segja að þarna í galleríinu, á þessari stund, þessu augnabliki og þessari dagsetningu, á listamaðurinn í funheitu ástarsambandi við þann sem að skoðar verkið, líkt og önnur sambönd getur það verið stutt, langt, heitt, ástlaust, og allt þar á milli, og líkt og í “rómantísku” sambandi hefur annar aðilinn ekki alla stjórnina á sambandinu og útkomu þess, heldur dreifist stjórnin og tilfinningarnar jafnt milli listamannsins og áhorfandans, líkt og milli tveggja elskenda, straumarnir eru hins vegar óumdeilanlegir.
Í raun þarf aðeins einn aðila til að skapa rómantík, líkt og þegar að elskhuginn dreifir kertum um garðinn og opnar vínflösku og kemur með því ástinni sinni að óvörum, getur listamaðurinn skapað hið óvænta augnablik með ást sinni á áhorfandanum, þó svo að auðvitað geti rómantíkin að sjálfsögðu falist í svokölluðum “voyeurisma”, sem dæmi má taka konan sem að horfir á verkamanninn sem að er að negla spítu í húsinu andspænis henni, sem að veit ekki að fylgst er með honum, hins vegar getur konan verið að upplifa innilegt og rómantískt augnablik á meðan hún fylgist með honum. Á sama hátt getur augnablikið verið rómantískt fyrir áhorfandann sem að horfir á málverk sem að kemur beint frá sálinni.
Auk alls þessa eru bæði rómantíkin og myndlistin nátengd náttúrunni á marga vegu sem að ég ætla ekki að fara nánar út í hérna vegna þess að ég tel að sú tengsl liggi í augum uppi fyrir lesendur þessarar greinar.
Ljóðlistin hins vegar, getur ekki á nokkurn hátt verið rómantísk, því að engin leið er að tjá raunverulegar tilfinningar með ljóðum, hvað þá textum (þó að tónlistin sjálf geti óneitanlega verið rómantísk), því að orð eru einungis orð og aldrei næst að koma oðrum yfir óbeislanlegar tilfinningar.