Kæru Hugarar, nú verð ég að láta heyra í mér. Ég hef lesið margar greinar hér á Huga og hef tekið eftir ákveðnum rauðum þræði sem liggur þar í gegn. Fólk er stanslaust að kvarta yfir ‘grunnhyggnum’ stelpum og strákum, og að fleygja fram falleg orðum eins og ‘útlit skiptir ekki máli.’ Ég held að það sé ákveðinn misskilningur í gangi varðandi þessi hugtök. Í sambandi kynjanna er ekkert sem skiptir meira máli en útlitið.
Nú hætta nokkrir að lesa og byrja að skamma mig, en ég hvet ykkur öll til að lesa alla greinina…ég er með nokkra góða punkta;)

Þessi misskilningur byggist á því að ‘gott’ útlit er matað í okkur frá fjölmiðlum. Þetta er einhverskonar ævintýralegir líkamar sem er nánast ómögulegt að eiga sjálfur nema maður leggi allann sinn tíma í að rækta hann. Vissulega finnst mörgum þessir líkamar og þessi andlit fögur, en alls ekki öllum. Þegar maður segir að útlit skipti ekki máli, þá er verið að meina þetta ýkta útlit. Það hljóta allir að vera sammála því að maður gæti aldrei verið í kynferðislegu sambandi við aðra manneskju ef manni fyndist hún ótrúlega, ógeðslega ljót, er það ekki? Þegar maður hittir frábæra manneskju sem er kannski ekki ótrúlega falleg við fyrstu sýn, þá falla það sem voru kannski útlitslýti í manns augum í gleymsku, persónuleikinn gerir manneskjuna fallegri. En þá hefur akkurat útlit hennar breyst í þínum augum, manneskjan er fallegri. Eins gæti það öfuga gerst, manneskja sem er falleg til að byrja með verður ófríðari eftir því sem maður kynnist henni.

Tökum dæmi. Höfum strák sem er frekar eðlilegur að öllu leyti. Það sem honum finnst fallegt eru litlar, grannar stelpur, smágerðar og stelpulegar. Honum finnst ekki fallegt þegar stelpur eru í þyngri kantinum og gæti aldrei séð sig með þannig stelpu. Hann kynnist stelpu sem er mjög þung, en kemst að því að hún er alveg frábær, rosalega gaman að vera með og tala við, en hann getur engan veginn sigrast á sínum hvötum sem segja honum að honum finnst þungar stelpur ekki aðlaðandi. Þ.a.l. sættir hann sig við að stelpan verður aldrei meira en vinkona hans. Er þessi strákur grunnhygginn? Nei,nei og aftur nei. Hann hefur bara ákveðnar og sterkar skoðanir um hvað honum finnst fallegt og okkur ber að virða það. Alveg eins og þær mergðir af stelpum hér á Huga sem hafa lýst því yfir að þeim finnist ekkert varið í ‘tsjokkó, FM-hnakka, vöðvatröll’. Ef þessi strákur er grunnhygginn þá eru þessar stelpur alveg jafn sekar.

Einu alvöru ástarsamböndin þar sem útlit skiptir í rauninni ENGU máli samkvæmt skilgreiningu, eru platónisk ástarsambönd. En þau sambönd eru mjög sjaldgæf og þarfnast gífurlegan þroska.

Ég hvet ykkur til að ræða þetta mál af alvöru, ekki bara skamma mig og segja að ég sé bjáni. Segðiði frekar ‘þú ert bjáni því að…..’ og rökstyðjið mál ykkar :D