Oki Doki Kynnir: Rokk og Ró á Sódóma.

Fimmtudaginn 23.júlí munu þrjár af efnilegustu hljómsveitum landsins leiða saman hesta sína í syndabælinu Sódóma Reykjavík við Tryggvagötu. Þetta eru tæknirokksveitin Agent Fresco, síðrokkararnir í For a Minor Reflection og hin angurværa rökkurpoppsveit Rökkurró.

Ný-Stærðfræðiþungajazzpoppfönkrokksveitin Agent Fresco er líklega teknískasta hljómsveit íslensku neðanjarðarsenunnar. Í allt sumar hafa þeir unnið við það að spila jazz og bossanova útgáfur af lögunum sínum á götum Reykjavíkur. En þetta kvöld munu þeir hækka í mögnurunum og rokka af lífi og sál. Uppseld 5 stjörnu EP-plata, sigur í Músíktilraunum og stytta á Íslensku tónlistarverðlaununum bera þess vitni að Agent Fresco er ein magnaðasta rokksveit síðari ára á Íslandi.

Strákarnir í For a Minor Reflection hafa í nokkur ár verið gríðarlega iðnir við spilamennsku í Reykjavík og víðar, en undanfarið hefur árangur erfiðisins verið að koma í ljós. Tónlistin er síðrokk í anda hljómsveita eins og Explosions in the Sky og Mogwai, en hinn dramatíski og dáleiðandi gítarheimur FaMR gefur þessum sveitum ekkert eftir. Þrátt fyrir ungan aldur hljómsveitarmeðlima hafa þeir verið að vekja mikla athygli erlendis; frumraunin ,,Reistu þig við, sólin er komin á loft…” hefur hlotið frábæra dóma víðast hvar og hljómleikaferð þeirra með SigurRós gekk glimrandi vel.

Rökkurró blandar saman klassík, þjóðlagatónlist, póstrokki og rokki á einstaklega áferðarfallegan hátt, og kristallast stemmning tónlistarinnar líklega best í nafninu. Fyrsta breiðskífa sveitarinnar ,,Það kólnar í kvöld" hlaut þónokkra athygli hér heima og í Evrópu og var m.a. á nokkrum topplistum yfir bestu plötur ársins 2007. Sumarið hefur verið nýtt í að semja ný lög og því er líklegt að eitthvað af nýjum lögum muni fá að hljóma á tónleikunum.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og kostar aðeins 500 kr. inn.
www.Okidoki.is
www.myspace.com/agentfresco
www.myspace.com/foraminorreflection
www.myspace.com/rokkurro