Spánýtt eitís! Mótsögn? Ekki endilega, því þessi fantagóða bandaríska hljómsveit, Les Savy Fav, er að búa til fantagott rokk sem er í stíl níunda áratugarins í amerísku háskólarokki. Þeir eru með því hressilegra sem ég hef heyrt lengi. Fugazi meets Big Country? Það finnst mér á köflum, en það er ógurlegt Fugazi í þeim. Þeir höndla þó áhrifin stórvel á plötunni “Go Forth” sem ég mæli með fyrir alla nýbylgjurokkara sem nenna ekki alltaf að hlusta á yfirgengilegt þunglyndi. Les Savy Fav er samt ekki ný hljómsveit, eiga minnst tvær aðrar plötur að baki en þessi nýjasta er virkilega að vekja athygli á þeim. “Go Forth” var valin besta plata ársins í hinum prýðilega þætti Karate á X-inu og var númer 4 í Sýrðum Rjóma á Rás 2. Ég er fullkomlega sammála þeim útvarpsmönnum. Farið og kynnið ykkur Les Savy Fav, kaupið “Go Forth” (ég fékk hana í Hljómalind) og blastið “Bloom on Demand”. Mmmmm.