Skífan hefur hækkað verð á geisladiskum í 2600 kall!
Ég vona að sem flestir hætti alfarið að versla við þetta óþverrakompaní!

Þessi frétt er tekin af www.ruv.is

06.12.2001 | 18:17

SKÍFAN BRAUT SAMKEPPNISLÖG


Samkeppnisráð hefur komist að þeirri niðurstöðu að í samningi Skífunnar og Aðfanga um einkakaupasamning á hljómdiskum hafi Skífan brotið alvarlega á samkeppnislögum. Með samningnum hafi fyrirtækið misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Samkeppnisráð hefur gert Skífunni að greiða 25 miljóna króna sekt í ríkissjóð vegna þessa brots.

Skífan og Hagkaup, fyrir hönd Aðfanga, gerðu með sér samning í vor sem fól í sér að Aðföng keyptu nær alla geisladiska til endursölu í verslunum Baugs hjá Skífunni. Samningurinn útilokaði nánast að fullu önnur heildsölu-og dreifingarfyrirtæki á hljómdiskum en Skífuna frá því að koma geisladiskum í sölu í verslunum Baugs fram á árið 2003. Japis og Félag íslenskra hljómlistarmanna sendu samkeppnisyfirvöldum erindi vegna þeirra samkeppnishindrana sem samningur Skífunnar og Aðfanga felur í sér.

Skífan hefur yfir 70% hlutdeild á markaðnum fyrir heildsölu og dreifingu á hljómdiskum og sterka stöðu í smásölu á hljómdiskum. Það styrkir einnig stöðu Skífunnar að fyrirtækið er í eigu Norðurljósa en það félag á og rekur margar sjónvarps- og útvarpsstöðvar. Skífan lagði á það áherslu við gerð samningsins við Aðföng að hann væri einkakaupasamningur og Skífan sæi um að velja nær allt efni til sölu í verslunum Baugs. Með því að veita tiltekinn afslátt knúði Skífan fram samninginn. Gögn málsins bera það einnig með sér að samningurinn hafi verið gerður til að útiloka Japis og aðra keppinauta frá markaðnum og þannig styrkja eða viðhalda markaðsráðandi stöðu Skífunnar.

Samkeppnisráð telur að Skífan hafi misnotað markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins með samningnum sem teljist vera alvarlegt brot á samkeppnislögum. Í þessu máli telur Samkeppnisráð nauðsynlegt að beita sektum til að tryggja að Skífan láti af lögbrotum í framtíðinni og telur samkeppnisráð hæfilegt að sekta fyrirtækið um 25 miljónir króna.