Núna þegar báðar hljómsveitirnar sem spruttu úr rústum hinnar frábæru hljómsveitar At The Drive-In, Sparta og The Mars Volta eru búnar að gefa út EP plötur, þá byrjar pælingin: hverjir eru betri?

Sparta gaf nýlega út EP plötuna Austere, sem inniheldur meðal annars lagið “Mye”, sem hefur heyrst þó nokkuð í útvarpi hér á landi og er hörkufínt lag. Sparta eru meira líkir ATDI heldur en Mars Volta, sem gáfu út diskinn Tremulant EP fyrir stuttu. Sparta heldur ennþá í hefðbundið rokk og ról, ATDI-stæl á meðan Mars Volta eru meira að gera tilraunir á sinni plötu.

Ef ég ætti að gera upp á milli þessara tveggja platna (sem ég var að hlusta á til hálffimm í nótt), þá myndi ég segja að The Mars Volta væru betri. Tremulant platan þeirra er vægast sagt stórkostleg. Mars Volta samanstendur af 2/5 ATDI (Cedric, söngur & Omar, bassi) + fjórir aðrir hljóðfæraleikarar. Svona hefði ATDI farið að hljóma hefðu þeir haldið áfram og leyft sér að þróast fullkomlega. Ekki misskilja mig, Sparta platan er einnig frábær og kannski betri fyrir þá sem eru meira fyrir hefðbundið rokk. Núna þegar þetta allt komið af stað var kannski ekki svo slæmt að ATDI hafi tekið sér “endanlega pásu”, (að sjálfsögðu var það slæmt!! ég meina…) því núna fær maður tvöfaldan skammt frá þessum snillingum. Von er á breiðskífu frá Sparta í ágúst en ég hef ekki séð neitt um útgáfu breiðskífu frá Mars Volta, sem ég er mun spenntari fyrir.