Pavement Hljómsveitin Pavement skipaði sér í hóp bestu sveita tíunda áratugarins og voru fremstir í flokki lo-fi rokksins.

Félagarnir Stephen Malkmus (söngur/gítar) og Scott ‘Spiral Stairs’ Kannberg (gítar) stofnuðu Pavement í Stocton, Californiu árið 1989 og voru ekki lengi að senda frá sér fyrstu smáskífuna, Slay Tracks, sem þeir gáfu sjálfir út það sama ár. Tónlistin var hávaðasamt, lúðalegt en þó tilraunakennt rokk undir áhrifum frá sveitum á borð við The Fall, Pixies og Sonic Youth. Fljótt gekk trommarinn Gary Young til liðs við hljómsveitina en hann var mun eldri en S.M. og Spiral og þótti hafa mjög svo sérstakan trommustíl auk þess sem hann vakti athygli fyrir ýmsar kúnstir sem hann lék á tónleikum. Þannig skipuð sendi sveitin frá sér fleiri smáskífur með frábærum melódíum og furðulegum textum.

Fyrsta stóra platan, hin frábæra Slanted And Enchanted, kom út hjá Matador Records árið 1992. Hljómsveitin sló samstundis í gegn á jaðarrokksenunni og urðu strax konungar lo-fi rokksins, enda tónlistin þeirra ágætis andsvar við hinu hræðilega grungi sem tröllreið öllu á þeim tíma. Platan toppaði fljótlega flesta indie-rokk lista bæði í Bandaríkjunum og Evrópu og seinna sama ár kom út ep-platan Watery-Domestic sem treysti þá félaga enn á velli.

Árið 1993 voru gömlu smáskífurnar allar gefnar út saman á Westing (By Musket And Sextant) en stuttu seinna hætti Gary í hljómsveitinni og var þá kominn tími á að fjölga liðsmönnum. Mark Ibold sem hafði spilað á bassa með hljómsveitinni á tónleikum og Bob Nastanovich sem hafði verið aukatrommari voru gerðir að fullgildum meðlimum, reyndar var Bob afspyrnulélegur trommari en var víst svo skemmtilegur að þeir gátu ekki hugsað sér að vera án hans. Trommarinn Steve West bættist einnig í hópinn og var hljómsveitin svo þannig skipuð þar eftir.

Næsta plata Crooked Rain, Crooked Rain frá árinu 1994 jók vinsældirnar enn meir og voru þær ekki lengur aðeins bundnar við indie-senuna og lög á borð við Cut Your Hair og Range Life nutu mikilla vinsælda. Hljómsveitin hafði nú bætt smá kántrýkryddi við hljóm sinn án þess þó að minnka rokkið, en það gætu hafa verið áhrif frá David Berman sem þeir Malkmus, Bob og Steve gerðu plötuna Starlite Walker með stuttu áður undir nafninu Silver Jews (David Berman hefur gefið þrjár aðrar Silver Jews plötur og spilaði Malkmus líka með honum á American Water).

Mörgum þótti af einhverjum ástæðum næsta afurð þeirra Wowee Zowee frá 1995 ekki standa undir væntingum, kannski vegna þess að hún er mun þyngri og lengri en Crooked Rain, Crooked Rain og lögin ef til vill ekki eins grípandi við fyrstu hlustun. Hins vegar telja margir harðir Pavement aðdáendur, og ég þar á meðal, Wowee Zowee vera bestu plötu hljómsveitarinnar enda er þar um stórkostlega hlustun að ræða um leið og maður kemst á bragðið.

Pavement átti þó greiða leið inn á vinsældalista aftur árið 1997 þegar Brighten The Corners kom út en hún hélt tvo af stærstu smellum sveitarinnar, Stereo og Shady Lane. Þótt platan innhaldi fullt af frábærum lögum var hún þó að nokkru eftirbátur fyrri platnanna því eitthvað vantaði upp á heildina og virtist sem ákveðin stöðnun hafi átt sér stað í þróun tónlistarinnar eða ef til vill var komin þreyta í mannskapinn eftir miklar annir við plötugerð og hljómleikaferðalög síðustu ár. Einnig var alveg ljóst að Stephen Malkmus réð nær öllu í sveitinni, enda samdi hann langflest lögin og virtist hafa ákvörðunarvald um hvað rataði á plöturnar.

Eftir smá frí hittust Pavementliðar aftur árið 1998 til að taka upp nýja plötu og höfðu þá þegar þurft að leiðrétta sögusagnir um að hljómsveitin væri hætt. Tóku þeir upp nýja plötu, Terror Twilight, sem innihélt einungis lög eftir Malkmus og kom hún út vorið 1999. Platan var ólík fyrri verkum sveitarinnar að því leiti að hún var mun rólegri og rokkið sem var aðall þeirra í byrjun var lítt áberandi, hinar skemmtilegur melódíur sem gerðu þá fræga voru hinsvegar til staðar og því ekki furða að lögin Carrot Rope, Major Leagus og Spit On A Stranger hafi notið vinsælda. Um svipað leyti og Terror Twilight kom út var ráðgert að Pavement kæmu til Íslands að spila á Lágmenningarhátíð Hljómalindar en eins og svo oft vill verða ákváðu þeir að hætta við stuttu áður og varð því aldrei af því að Íslendingar sæju þá á sviði (reyndar voru líka sögusagnir um það 1997 að þeir kæmu og ekki varð neitt úr því). Veturinn eftir kom síðan sú tilkynning frá herbúðum Pavement að hljómsveitin væri hætt og var því kannski meira til í sögusögnunum en meðlimir sveitarinnar vildu láta uppi.

Síðan þá hefur Stephen Malkmus gefið út eina sólóplötu með sama nafni og spilaði meðal annar hér á landi og mun hafa hafið tökur á næstu skífu, einnig hefur Scott Kannberg stofnað sveitina Preston School Of Industry og hafa víst gefið út plötu en ég hef ekki heyrt hana. Núna í haust mun svo Matador gefa út tvöfaldan DVD disk, Slow Century, sem mun innihalda öll mynbönd Pavement og fjölda af tónleikaupptökum og auk þess ætla Matador að endurútgefa Slanted And Enchanted í bættum gæðum og með helling af aukalögum.


Helstu plötur:

Slanted And Enchanted (1992) *****
Westing (By Musket And Sextant) (1993) ***1/2
Crooked Rain, Crooked Rain (1994) ****1/2
Wowee Zowee (1995) *****
Brighten The Corners (1997) ****
Terror Twilight (1999) ***1/2