Hvað er eiginlega í gangi með íslenska popptónlist í dag? Er íslenskur tónlistarmarkaður í alvöru búinn að selja sál sína í hendur playlistans á FM 95,7?

Ég var að horfa á popptíví um daginn, sem er svo sem ekki í frásögur færandi fyrir aðrar sakir en þær að topplistinn var að ganga. Það var þessi venjulegi pakki bara, lögin talin niður með ömurlegum tilraunum til sjónvarpsmennsku inn á milli til uppfyllingar.

Svo kom aðal stuðið. Eitt Heitt var kynnt, líklegt til vinsælda á listanum í náinni framtíð. Fígúran sem sá um kynninguna lofaði því að þetta lag skyldi sko örugglega vera komið á listann í næstu viku og brosti fegurðardrottningabrosinu sínu.

Lagið saug í stuttu máli feitastan. Ég efaðist hins vegar ekki um fullyrðingar stjórnandans að það myndi gera góða hluti á listanum. Það er nefnilega þannig að áhorfendur fíla það sem popptíví segja þeim að fíla. Sorgleg staðreynd í enn sorglegri raunveruleika playlistaútvarps og –sjónvarps.

Auðvitað hafa vinsældalistarnir alltaf virkað svona, ég veit svo sem allt um það, en það er eins og þessi tilhneiging sé orðin verulega meira áberandi en oft áður. Meira að segja snillingar eins og Tvíhöfði urðu á endanum að beygja sig undir ofurvald playlistakenningar Norðurljósa.

Ég man þá gömlu góðu daga að það var hægt að hringja í útvarpsstöðvar og biðja um óskalög. Útvarpsmaðurinn fór þá (eða sendi Igor, hinn kroppinbakta aðstoðarmann sinn) niður í plötugeymslur og leitaði að laginu. Þá voru kynnt og afkynnt lög sem spiluð voru í útvarpi. Nú er bara “Meiri tónlist, minna mas!!!” Fyrirgefðu en mér líkaði bara ágætlega við masið, það sagði mér hvað ég væri að hlusta á.

Í þá daga lögðu útvarpsstöðvar eins og X-ið og fleiri góðar metnað sinn í að ráða til starfa dagskrárgerðarmenn og –konur sem voru fær um að velja sjálf tónlistina sem spiluð var þó að innan ákveðins ramma væri. Í þá daga hafði Ómar hár.

Nei, það er reyndar ekki svo langt síðan. Það er umþaðbil jafnlangt síðan Norðurljós voru stofnuð. Það er svo einkennilegt að eina útvarpsstöðin sem enn heldur úti metnaðarfullum þáttum sem snúast um að spila góða tónlist (ekki bara vinsældalistann þá vinuna) er þessi eina ríkisrekna.

Fólk eins og hið konunglega rokkpar Óli Palli og Andrea á Rás2 er í útrýmingarhættu vegna þesss að Norðurljós þarf að selja fleiri plötur til að standa undir skuldum. Þetta fyrirtæki er með playlistamenningunni búið að drepa allan frumleika í íslensku útvarpi svo að það eina sem hlustandi er á núorðið er afríska heimstónlistin á BBC World!

Við skulum skoða aðeins útvarpsmarkaðinn á íslandi:

Ef maður kveikir á RadíóX að degi til (allir interesting þættir eru á óguðlegum tíma) þá er verið að spila nýjasta singulinn frá Linkin Park, Blink182 eða guðforðiokkur Redhotchillipeppers! (ég spyr nú bara hvernig getur rokkstöð með sjálfsvirðingu spilað Redhot, ég meina Californication, need I say more???)

Ef maður flettir yfir á Bylgjuna þá þarf maður að vera 45 ára húsmóðir, let’s face it. Eina stöðin sem spilar nýju plöturnar hans Bubba.

Svo við skiptum á Létt96,7: Úff. Þar er bókað verið að spila aðra af tveimur stærstu tónlistarhörmungum sögunnar: Elton John (annað hvert lag) eða Stevie Wonder (I just called fór út af vinsældalistum árið fyrir lurk). Inn á milli er skotið gömlum sorglegum Jackson Five lögum og BoneyM. Ef maður hlustar nógu lengi er hægt að hlusta á allan playhringinn nokkrum sinnum.

Ókei, FM95,7! Nú fær maður fyrst æluna í hálsinn: Ber, Í svörtum fötum, Á móti sól, Sóldögg og the mother of all musical disasters, Buttercup! Við getum summað þetta upp með einu orði: EldhúsparíFM95,7 Ojjjbara. Hvað er það sem fær fólk til að kaupa þessar plötur. Ef þetta endurunna sveitaballadjönk er það sem íslenskur ungdómur vill í dag þá pant ég gerast Norðmaður því að jafnvel norsk júróvisjónmússík er betri en útjaskaðar laglínur íslenskra túrahljómsveita.

Og textarnir. Ó, textarnir. Má ég þá heldur biðja um “Jag ser, Brandenburger Tor!!!” með Rune Bradset. Jafnvel Valgeiri Guðjónssyni finnast þetta asnalegir textar. Þetta fólk sem sér um textasmíðar í þessum böndum gæti lært ýmislegt af meisturum íslenska popptextans eins og t.d. Bigga í Maus, meistara Megasi, Nýdönsk, Rottweilerhundunum og jafnvel blöðruselnum honum Bubba (Það eru molar inn á milli hjá kallinum :-) Athugulir lesendur hafa tekið eftir því að handhafar íslensku tónlistarverðlaunana fyrir textasmíðar eins og KK og Andrea Gylfadóttir eru ekki á þessum lista!

Úr því ég er á annað borð farinn að minnast á Íslensku tónlistarverðlaunin vil ég bara segja að þau eru ekkert annað en misheppnuð tilraun til að láta almenning halda að íslenskt vinsældapopp sé alvöru tónlist. Sama fólkið er útnefnt ár eftir ár. Bjartasta vonin er þessi eina nýja hljómsveit sem meikaði það á árinu, gjarnan vinningshafar Mússíktilrauna. Textahöfundur ársins virðist vera sá sem samið hefur innihaldslausasta bullið sem selst hefur það árið. Söngvari ársins er Stefán Hilmarsson. Trommari ársins er annað hvort Matthías Hemstock eða Gulli Briem, þó að enginn viti í hvaða hljómsveit þeir eru. Söngkona ársins er Björk því að annað væri bara dónalegt. O.s.frv.o.s.frv………

Ég er að hugsa um að hætta núna og leyfa öðrum að komast að. Eflaust eiga einhverjir eftir að skamma mig fyrir þessa grein og mínar politicallyincorrect skoðanir en mér er eiginlega bara skítsama um það. Ég er fyrir löngu hættur að taka mark á bólugröfnum unglingum með hor og útúrsteyptu þjóðhátíðardjammpakki sem hefur aldrei heyrt um Bon Jovi og heldur að Án þín með Sverri Bergmann sé besta lag í heimi.

Góðar stundir.

Fyrir hönd áhugafólks um alvöru tónlist.
obsidian