Yo La Tengo Hljómsveitina Yo La Tengo þekkja margir, enda hafa þau vakið mikla athygli fyrir síðustu plötur sínar. Hinsvegar vita margir ekki að sveitin hefur starfað í 18 ár og gefið út fjölmargar plötur.

Yo La Tengo var stofnuð árið 1984 í Hoboken, New Jersey af parinu Ira Kaplan (gítar/söngur) og Georgia Hubley (trommur/söngur) og byrjuðu þau að æfa tökulög í kjallaranum heima hjá sér og hófu síðan að semja eigin lög undir áhrifum frá sveitum á borð við Love, Kinks, Mission Of Burma, The Soft Boys og Velvet Underground.

Leitin að bassaleikara gekk þó ekki mjög vel fyrst um sinn en að lokum gekk Dave Rick til liðs við bandið og svo gítarleikarinn Dave Schramm. Þannig tók Yo La Tengo upp fyrstu smáskífuna sína, The River Of Water, árið 1985 en stuttu seinna tók Mike Lewis with bassanum sveitin tók við að hljóðrita fyrstu breiðskífuna sína sem próduseruð var af Clint Conley úr Mission Of Burma. Árið 1986 kom Ride The Tiger út og vakti ekki mikla athygli, lögin voru ekki ýkja merkileg í frekar áreynslulausum folk-rock stíl.

Stuttu eftir útgáfu Ride The Tiger hættu þeir Dave og Mike í sveitinni og Steve Wichnewski tók við bassanum Þegar vinnsla næstu plötu, New Wave Hot Dogs, hófst hafði hljómur sveitarinnar breyst töluvert og munaði það mestu um mikla framför í gítarleik Ira. Fyrir utan það að lögin voru nú mun betri en á fyrstu plötunni þá var Yo La Tengo orðin mun rokkaðri en fyrr og má jafnvel heyra áhrif frá Sonic Youth á plötunni. Árið 1989 kom svo President Yo La Tengo út þar sem hljómurinn var slípaður enn betur til, en á meðan að á upptökunum stóð urðu þau enn einu sinni bassaleikaralaus og spilaði þá pródúserinn þeirra, Gene Holder, með.

Yo La Tengo höfðu alltaf haft gaman að því að spila tökulög og þótt að alltaf hafi slík lög fengið að fljóta með á plötunum þeirra ákváðu þau að gera plötu sem hélt nærri því bara tökulög. Á Fakebook frá 1990 spilaði Gene með þeim á bassann og Dave Schramm á gítar, annars var platan að mestu órafmögnuð og einungis 5 lög af 16 voru eftir sveitina, hin lögin voru meðal annars eftir John Cale, Kinks, Daniel Johnston og Flying Burritos Brothers. Þótt að platan hljómi eins og afturhvarf til þjóðlagarokks hljóms RTT þá er hún stórskemmtileg (þegar ég fékk hana í jólagjöf hlustaði ég ekki á annað næstu dagana).

Árið 1991 gekk James McNew við liðs við hljómsveitina en hann hafði áður verið bassaleikari Christmas og er hann enn í Yo La Tengo. May I Sing With Me kom árið 1992 og var langbesta plata sveitarinnar frá upphafi, það var eins og í fyrsta skipti væru þau að hljóma nákvæmlega eins og þau vildu og lögin betri en nokkru sinni. Hljómsveitin var þó enn frekar lítið nafn í hinum stóra heimi tónlistarinnar (og er reyndar enn - þó minni þá) en fékk í kjölfar May I Sing With Me tækifæri að ná til fleirra fólks þegar hin frábæra Matador útgáfa bauð þeim samning.

Næsta skífa, Painful, frá 1993 fékk mun betri dreifingu og kynningu en fyrri plötur YLT og var sveitin loksins orðin að þekktu nafni í indie geiranum. Á Painful voru þau loksins búinn að finna hárrétta hljóminn og afraksturinn er stórkostlegur og skiptast lögin á að færa hlustandanum ljúfar melódíur og brakandi hávaða sem blandast saman í eina heild. Electr-O-Pura frá 1995 var enn meira feedback og bjagandi gítarar en platan náði þó ekki alveg sömu hæðum og Painful. Árið 1996 kom síðan tvöföld plata, Genius + Love = Yo La Tengo, sem var safn af óútgefnum og illfáanlegum lögum allt aftur til 1988. Lögin eru þó síst verri en þau sem rötuðu á plöturnar, í raun eru flest þeirra alveg frábær og því er platan ekkert hálfkák eins og oft vill verða með slíkar plötur heldur skipar hún sér í hóp þeirra bestu frá YLT.

Meistaraverk Yo La Tengo er þó án nokkurs vafa I Can Hear The Heart Beating As One frá 1997. Platan í alla staði stórkostleg og hvergi veikan punkt á henni að finna (enda besta plata allra tíma að mati greinarhöfundar). Platan seldist mun betur en fyrri plötur sveitarinnar og aflaði þeim fjölda nýrra aðdáenda, m.a. hér á Íslandi þar sem þau höfðu verið nánast óþekkt fyrr.

Árið 1998 kom út plata með upptökum sem Yo La Tengo hafði gert með Jad Fair (úr Half Japanese) á tveim dögum árin 1994 og 1996 og hafði að geyma tónlist sem sveitin spann undir furðulegum sögutextum sem Jad Fair sönglaði. Platan var ágæt til að fylla upp í biðina fyrir næstu plötu sem kom loks í ársbyrjun 2000. And Then Nothing Turned Itself Inside-Out stóð fyllilega undir þeim væntingum sem aðdáendur höfðu til hennar. Platan var mun rólegri en fyrri verk YLT og aðeins eitt rokklag var á henni (að mig minnir), en það kom langt í frá niður á gæðunum því segja má að hvert lag sé öðru betra og til að kóróna verkið kemur hið stórkostlega 18 mínútna lag Night Falls On Hoboken í lokin.

Vorið 2002 kom svo út hin frábæra instrumental plata The Sounds Of The Sounds Of Silence, en hún innihélt 8 lög sem Yo La Tengo samdi fyrir jafnmargar neðansjávar-heimildarmyndir eftir Jean Painlevé sem gengu saman undir nafninu The Sounds Of Science og voru þær sýndar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í San Francisco árið 2001 og spiluðu Yo La Tengo þar undir. Þótt þessi plata sé ekki opinberlega “nýja platan” frá Yo La Tengo þá er hún hreint út sagt stórkostleg og mæli ég eindregið með henni við alla þá sem hafa gaman af sveitinni. YLT gáfu þennan disk út sjálf í takmörkuðu upplagi en hann ætti enn að vera fáanlegur á heimasíðu þeirra, www.yolatengo.com. Annars þá mun vera ný plata í vinnslu frá þeim en ég veit ekki hvenær hún er væntaleg, en Matador mun gefa út nýja smáskífu með Yo La Tengo í nóvember þar sem þau spila lagið Nuclear War eftir Sun Ra í nokkrum útgáfum.


Helstu plötur:

Ride The Tiger (1986) **1/2
New Wave Hot Dogs (1987) ***
President Yo La Tengo (1989) ***
Fakebook (1990) ***1/2
May I Sing With Me (1992) ****
Painful (1993) *****
Electr-O-Pura (1995) ****1/2
Genius + Love = Yo La Tengo (1996) ****
I Can Hear The Heart Beating As One (1997) *****
Strange But True (1998) m/Jad Fair ***1/2
And Then Nothing Turned Itself Inside-Out (2000) *****
The Sounds Of The Sounds Of Science (2002) *****