The Flaming Lips Hljómsveitin The Flaming Lips var stofnuð árið 1983 í Oklahoma í Bandaríkjunum af dópsalanum Wayne Coyne, sem söng, bróðir hans, Mark Coyne á gítar og félagar þeirra, Michael Ivins á bassa og Richard English á trommur. Flaming Lips urðu að veruleika eftir að Wayne Coyne stal hljóðfærum í kirkju í nágrenninu og nafnið var fengið frá klámmynd sem þeir bræður áttu. Fyrsta giggið þeirra fór fram sama ár í klæðskiptingaklúbbi í Oklahoma City. Fyrsta stuttskífan, sem hét einfaldlega “The Flaming Lips” kom út árið 1984.
Mark Coyne yfirgaf fljótlega bandið til að stofna fjölskyldu og þá tók Wayne, bróðir hans algjörlega við völdum og byrjaði sjálfur að spila á gítar og semja allt þeirra efni. Sem tríó gáfu þeir út sína aðra plötu (sína fyrstu breiðskífu) árið 1986 og bar hún heitið “Hear It Is” og ári síðar kom platan “Oh My Gawd!!!…The Flaming Lips” út, en á henni fóru þeir fyrst að fikta við sækadelískt rokk. Efitr það fóru þeir á túr sem upphitunarband The Butthole Surfers og í New York kynntist Coyne tónleikahaldaranum Jonathan Donahue (sem var þá í Mercury Rev), sem varð út frá því tæknimaður þeirra (og setti Mercury Rev í bið).
Árið 1989 kom út þriðja breiðskífa þeirra, “Telepathic Surgery” en stuttu eftir að hún var fullkláruð hætti trommarinn English. Þeir réðu trommarann Nathan Roberts og Donahue varð fullgildur meðlimur undir dulnefninu “Dingus”. “Telepathic Surgery” var mun dekkri og drungalegri en þeirra fyrri verk.
Þeir Coyne, Ivins, Donahue og Roberts tóku síðan upp plötuna “In a Priest Driven Ambulance” sem kom út árið 1990. Donahue tók upp fyrstu plötu Mercury Rev, “Yerself Is Steam” á sama tíma. Eftir að hafa fengið samning við Warner kom platan “Hit to Death in the Future Head” út árið 1992. Eftir það yfirgaf Roberts bandið og Donahue hætti líka á svipuðum tíma til þess að einbeita sér að Mercury Rev.
Þeir Coyne og Ivins fengu þá trommarann Steven Drozd og gítarleikarann Ronald Jones til þess að fylla í skörðin og með þá innaborðs tóku þeir upp plötuna “Transmissions From the Satellite Heart” sem kom út 1993 og þeir túruðu með Lollapalooza-fyrirbærinu sama sumar. Þessi plata innihélt lagið “She Don't Use Jelly”, sem varð hrottalega vinsælt tæplega ári eftir að það kom upprunalega út. Allt í einu voru þeir komnir á vinsældarlista og þeir voru staðráðnir í því að nýta sér sem best sínar “15 mínútur”, þeir komu oft og mörgum sinnum fram á MTV og mæmuðu eftirminnilega smellinn sinn í sápuóperunni Beverly Hills 90210.
Árið 1995 kom síðan út platan “Clouds Taste Metallic”, sem fékk frábæra dóma meðal gagnrýnenda, en náði þó ekki að fylgja eftir vinsældum “Transmissions…” og því urðu þeir aftur bara “underground” vinsælir og voru stimplaðir sem “One-Hit Wonder” í poppheiminum.
Árið 1996 fór allt úrskeiðis hjá þeim. Gítarleikarinn Ronald Jones lagði upp í andlegan leiðangur og lét ekki sjá sig aftur og trommarinn Steve Drozd missti aðra hendina eftir að hafa verið bitinn af könguló. Á sama tíma lenti Ivins í “hit and run” bílslysi.
Þeir héldu áfram sem tríó og reyndu ekkert að leita að eftirmanni Jones og héldu í stúdíó til að taka upp plötu sem Coyne sagði vera; so different and exciting it will either make us millionaires or break us“. Platan fékk nafnið Zaireeka, sem kom út sem fjórir geisladiskar, þar sem einn innihélt söng, annar bassa, þriðji gítar og sá fjórði trommur, og til þess að heyra plötuna í sinni réttu mynd varð að spila alla fjóra diskana á nákvæmlega sama tíma í fjórum geislaspilurum (ég á þessa ”plötu“ og hef bara heyrt hana í allri sinni dýrð þrisvar sinnum!). Platan gerði þá hvorki að milljónamæringum (a.m.k. ekki ennþá!) né gerði út um þá.
Í maí árið 1999 kom síðan út meistaraverkið ”The Soft Bulletin“ og fékk vægast sagt frábærar viðtökur allra sem heyrðu og var valin plata ársins af mörgum tónlistamiðlum um allan heim. Tónleikarnir sem fylgdu plötunni eftir þóttu ekkert annað en stórkostlegir (ég sá þá tvisvar á þessum túr!) og komu þeir meðal annars til Íslands og spiluðu á Airwaves hátíðinni í Laugardalshöll í október 2000 og munu líklegast aldrei gleymast fyrir þeim sem á horfðu.
Og síðan í júlí á þessu ári kom út enn eitt meistaraverkið frá þeim, platan ”Yoshimi Battles the Pink Robots" og þykir hún ekkert síðri en Soft Bulletin. Núna eru þeir að fara á túr með Beck og ég myndi líklega selja ömmu mína til þess að sjá einn af þeim tónleikum, þar sem þeir eiga þann heiður í mínum huga að hafa haldið bestu tónleika sem ég hef á ævi minni séð (Roskilde 2000).