Johnny Cash - I see a darkness Næstur á dagskrá er pönkari kántrítónlistarinnar Johnny Cash. Hann hefur fengið viðurnefnið The Man in Black þar sem hann kom alltaf fram svartklæddur á meðan aðrar kántrístjörnur voru í búningum skreyttum gervidemöntum og kögri. Hann hefur þróað sína eigin tegund af kántrítónlist og haft áhrif á fjöldann allan af tónlistarmönnum úr öllum tónlistarstefnum.

Cash varð geysivinsæll upp úr 1955 og hélt á tímabili hátt í 300 tónleika á ári. Hann átti við eiturlyfjavandamál að stríða á fyrri hluta sjöunda áratugarins og komst oft í kast við lögin. Hann var t.d. handtekinn fyrir að smygla amfetamíni í gítartöskunni sinni og sektaður um háar fjárhæðir fyrir að hafa kveikt skógareld. Eftir að konan hans skildi við hann flutti hann til Nashville, tók sig saman í andlitinu, frelsaðist, giftist aftur og gaf út sína frægustu plötu Johnny Cash at Folsom Prison árð 1968 en hún var tekin upp á tónleikum sem hann hélt fyrir fanga í Folsom fangelsinu. Platan gekk svo vel að Cash endurtók leikinn og gaf næst út Johnny Cash at San Quentin. Á þessum plötum syngur hann sig beint inn í hjarta fanganna með lögum um fangelsi, glæpi, morð, missi, Guð og einmanaleika

Johnny Cash er nú á sjötugsaldri og berst við banvænan taugasjúkdóm en engu að síður er hann enn að gefa út plötur og er orðinn vinsæll hjá nýrri kynslóð tónlistarunnenda. Plöturnar sem hann gaf út hjá plötufyrirtækinu American árin 94, 96 og 2000 hafa vakið mikla athygli en þar flytur hann m.a. lög eftir Tom Waits, Nick Cave, Will Oldham, Beck, U2, Soundgarden ofl. í bland við sín eigin.

Ég ætla að spila lag af plötu hans American Recordings III sem kom út árið 2000. Cash bjóst við því að þessi plata yrði hans síðasta og hann samdi hana með það í huga. Maðurinn er þó enn á lífi læknum hans til mikillar furðu og dvelur nú í húsi sínu í Jamaica með konu sinni og semur lög. Lagið sem ég ætla að spila heitir I See a Darkness og er eftir hinn angurværa jaðar-sveitatónlistarmann Will Oldham og syngur hann með Cash í viðlaginu.

Lag 4 –3:38

Þetta voru Johnny Cash og Will Oldham að syngja I See A Darkness en Will Oldham hefur tvisvar komið hingað til lands og haldið tónleika nú síðast í nóvember 2001. Hann heillaði íslenska áhorfendur upp úr skónum á Gauki á Stöng með brostinni röddu sinni og einstökum lagasmíðum.