Allir geta verið sammála um að plötuumslög (eða cover) skipta máli þegar plata er annars vegar, og getur hreinlega ráðið úrslitum um hvort maður kaupi plötuna. Umslagið er með öðrum orðum andlit plötunnar. Stundum má segja að ljótt plötuumslag sé jafnvel sama og vond plata, það er þó ekki algilt. Hins vegar mættu tónlistarmenn og þeir sem hanna slík umslög vanda oft betur til verka en oft er gert. Þetta hefur sem betur fer breyst til batnaðar á síðustu árum, þ.e. umslögin hafa í heild skánað.
Sumt verður ekki metið, t.a.m. eru margar plötur sem hreinlega verða að hafa ljótar myndir, hér er ég að tala um myndir af kórum, þjóðlegar landslagsmyndir o.s.frv. sem tilheyra tónlistinni. Ég er ekki með þessum orðum mínum að hallmæla slíkri tónlist. Sem betur fer er sú árátta hljómsveita að skella mynd af sér á framhlið umslagsins, orðið sjaldgæfari. Slíkar myndir eldast yfirleitt alltaf illa og er ég viss um að Pelican, Stjórnar, Greifa, Cosa Nostra, Pax Vobisar og Rikshaws meðlimir eru mér sammála. Hér er mín tillaga að lista yfir ljótustu plötuumslög Íslandssögunnar. Það verður að hafa samt í huga að nóg er úrvalið og það geta ekki allir komist á listann. Listinn er birtur í handahófskenndri röð. Synd að geta ekki sent myndir af þeim líka…

1. Faraldur - Faraldur. Hópur manna rottaði sig saman 1986 og tók rúnt um landið og gaf út plötu sem innihélt m.a. Lítil typpi lengjast mest. Í þessum hópi voru Eggert Þorleifs, Eiríkur Hauks, Sigurður Karls, Pálmi Gunnars og fleiri. Túrinn varð flopp og enginn þeirra hefur túrað um landið síðan. Umslagið var hvítt, og límmiði límdur á plötuna sem á stóð Faraldur. Síðan var gulu, rauðu og bláu lakki spreyjað yfir coverið, þrjár línur þvert yfir umslagið. Viðbjóður.

2. Bodies - Bodies. Eina plata Bodies meðlima sem varð til upp úr Utangarðsmönnum. Pollock bræður og Raufarhafnarbúarnir hönnuðu líklega sjálfir umslagið sem reyndar hæfir ágætlega tónlistinni, þungri og drungalegri en svart umslag með stöfunum Bodies (hvítir) þykir mér ljótt, sérstaklega þar sem stafirnir eru allt of stórir.

3. Kanada - Kanada. Kom út 2000, hannað af Agnari heitnum W. Agnarssyni??? en umslagið er klippimyndir af íslenskri náttúru, m.a. fossum á skærgulum grunni. Til hvers ?? Þjóðlegt??

4. Egó - Egó. Síðasta plata Egós. Svart umslag með gráum stöfum, og einhvers konar eitís tákn (nýrómantísk)sem hefðu hæft andlitum Richards Scobie og Þorvaldar Bjarna 1985.

5.Alfa Beta - Alfa Beta. Kom út '77 eða 8 ca. Grænt umslag en með álíka táknum og ofangreind Egó plata nema kannski meira í líkingu við Íslandsbankamerkið. Gústi Ríókall var í þessu bandi (pabbi Telmu Eurovision-fara).

6. Bergþóra Árnadóttir - Afturhvarf. Umslagið hefði verið betra ef því hefði verið sleppt. Bergþóra tússaði sjálfsmynd framan á umslagið og þar við sat. Svona skrípómynd eins og grunnskólastelpur rissa þegar þeim leiðist í stærðfræði.

7. Bifhjólasamtök lýðveldisins - Sniglar í söngolíu. Eins konar fígúrur er teiknaðar á hvítan grunn og er engum til sóma. Þessari plötu var eingöngu dreift og seld innan Sniglanna ef ég man rétt, en það réttlætir ekki ljótt plötuumslag. Ómar Ragnarsson syngur eitt lag á plötunni og er það með verstu lögum sem ég hef heyrt.

8. Rúnar Hart - (man ekki titilinn). Þetta slær öll met, Rúnar sem er myndlistamaður hannaði umslagið sjálfur sem er jafnvel verri en tónlistin. Þarna má segja að umslagið hæfi efninu. Myndir af honum ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum, eru bara ekki alveg að virka.

9. Gylfi og Gerður - Gleðilega jólahátíð með Gylfa og Gerði. Nærmynd af Gylfa Ægissyni og frúnni hans segja söguna og ég er ekki viss um að fólk treysti sér til að líta umslagið augum lengi í einu.

10. Jón Rafn - Ég syng fyrir þig. Uppstilling Jóns þar sem hann heldur á gítar í hvítum jakkafötum, minnir mig alltaf á skelfilega mynd af nýgiftum brúðhjónum í Mogganum þar sem brúðguminn hélt á gítar. Úff…

Þetta eru bara tíu plötur en plötur t.d. með Sniglabandinu (Til hvers þarf maður konur), Unun (Ótta), Lýð Ægissyni (allar plöturnar hans), Centaur (Blús djamm), Tún (safnplata úr Verzló), Engilbert Jensen (Skyggni ágætt), Buttercup (flestar), Björgvin Halldórssyni (Þó líði ár og öld (kom út 71))og fleiri gætu allt eins verið á listanum. Gamla konan (Sigríður eða eitthvað svona gamalt nafn, man ekki nafnið) sem gaf út níu plötur á síðasta ári gæti nánast einokað listann ef ég vildi, og Gylfi Ægisson gæti það líka. Hvað með ykkur, komið með fleiri ljót plötuumslög.