Það var sumarið 2001 að Einar og Gunni voru beðnir að spila í afmæli hjá tveimur stelpum, (þeim Andreu og Gunnhildi) og var þá Steini, annar gítarleikari kallaður til og Bjarki nokkur Dude, sem hafði um árabil verið grænmetisrokkari, með hljómsveitum eins og Closedown, 187, Kurva, Subhumans og fleirum. Einar og Gunni höfðu áður verið í hljómsveitunum Frozen Embryoz og KAOZ og var Steini einnig í þeirri síðarnefndu. Stefnan var tekin á að spila hresst og gott rokk og fengum við aðstöðu til æfinga í kjúklingabúinu á Fögrubrekku (en afmælið var einmitt haldið þar). Kallaðist hópurinn “Dansiballhljómsveitin Lúffa”. Var það mál manna að vel hefði tekist til og umræður um framhald á þessum félagsskap voru á lofti.
En það var hins vegar ekki fyrr en um haustið að eitthvað fór að gerast. Tónlistarkeppnin var á næsta leyti og nú var mál að vera með, við höfðum að vísu allir tekið þátt áður en ekki saman. Einar og Gunni fóru á stúfanna og var Bjarki Dude til í slaginn, en hann var reyndar í annarri hljómsveit (meira að segja í tveimur en hann hætti í annarri þeirra), en þar sem að gítarleikarinn og bassaleikarinninn í þeirri hljómsveit hættu og gengu í aðra hljómsveit, komu Einar og Gunni í staðinn fyrir þá. Einnig var þar til staðar píanósjéníið Hallur (sem einnig var áður í Subhumans með Bjarka) og úr þessum mannskap var komin fínasta hljómsveit, sem var skráð í keppnina undir nafninu Belti, (Einar og Bjarki voru líka í stuðgrúbbunni Betwixt). Nú fórum við af stað og það var æft vel fyrir keppnina, en það var skilyrði að spila þrjú lög en að minnsta kosti eitt frumsamið lag, og jú það gerðum við, lag sem Hallur kom með og textinn var fenginn að láni frá stórskáldinu Hörpu Hlín (en hún var með Einari og Gunna í bæði Frozen Embryoz og KAOZ). Svo kom keppnin og allt gekk vel. En eitthvað var dómnefndin ekki með á nótunum því hljómsveitin náði ekki í topp þrjú efstu sætin, þótt svo að Einar hafi verið valinn besti gítarleikarinn og Hallur besti hljómborðsleikarinn. En þrátt fyrir þennan dómaraskandal gáfumst við ekki upp og héldum ótrauðir (asnalegt orð) áfram.
Stífar og framúrskarandi æfingar voru framundan, því til stóð að við myndum spila á Geysi, Kakóbar 23. nóvember 2001, ásamt Innvortis og Hemúlnum (en Harpa textahöfundur var einmitt í því bandi). Því fórum við að æfa á fullu, og ákváðum að taka upp efni sem við vorum að spila, því við þurftum að senda Geysi tvö lög sem svona hljóðdæmi. Þá var haldið í mikla för að Geitabergi (en þar býr systir hans Gunna) og tómt íbúðarhús lagt undir sig eina helgi. Lagið “Sama hvað” var tekið upp þó með herkjum á græjur sem að Hallur átti. En þá kom smá babb í bátinn, frumsömdu lögin voru ekki fleiri og því voru góð ráð dýr, en Hallur átti sitt hvað í pokahorninu og kom með lag, sem við þurftum að betrum bæta og semja texta við og þess háttar. Gunni snaraði saman texta á ensku og lagið small saman á met tíma. Og þá var komið skítsæmilegt demo. Svo þegar styttast fór í þessa heljarmiklu tónleika þá hafði Addi (Hemúllinn) saman við Geysi, en þá var búið að breyta eða allt svo búið að bóka aðra þetta kvöld, og var það hljómsveitin Lúna sem hafði verið bókuð, Þar sem að nýr umsjónarmaður hafði tekið við var eitthvað samskiptaleysi þar á milli þeirra, og þá hafði Bibbi í Curver bókað Lúnu og við látin standa útí kuldanum, þótt svo að tónleikarnir hefðu verið auglýstir í nóvemberblaði Undirtóna (sem var by the way 50. tölublað Undirtóna!). Sem sagt nokkrum dögum fyrir fengum við þessar fréttir og við vorum svikin.
En hljómsveitin hélt áfram æfingum þrátt fyrir mikinn mótbyr og svik og pretti. Lögunum fjölgaði stöðugt og örfá spilirí hér og þar (aðallega þar…) stappaði stálinu í okkur. Fyrir rest voru lögin orðin 8 og tími til kominn að festa þau á stafrænt form. Því var haldið í stúdíó í Hafnarfirði/Garðabæ (einhversstaðar á mörkunum) og fékk það strax nafnið Stúdíó Bjórland. Við ákváðum að taka eins mikið upp á við gátum á 20 tímum. Svo á endanum urðu 6 lög tilbúin, sem við töldum vera alveg þokkalegt, vel af sér vikið á ekki lengri tíma. Gripurinn fékk nafnið Venjulegur dagur. Nýtt nafn var ákveðið á hljómsveitina og varð Whool (vúl) fyrir valinu.
Eftir þennann frjósama tíma varð fjölgun í bandinu, annar gítarleikari bættist við hópinn, Bjarki Þór Jónsson og er hann bróðir Halls, og hafði hann verið áður í hljómsveitum á borð við Spartakus, Creatures of the Night, Ármóði Skegg, Vítamín og Subhumans (með Bjarka Dude og Halli).
Næsta verkefni voru Múskíktilraunir í Tónabæ, og spiluðum við þar, 14. febrúar, fyrir fullu húsi, en það er skemmst frá því að segja að við komumst ekki áfram þrátt fyrir gífurleg fagnaðarlæti, en það voru Búdrýgindi sem komust áfram…
Ákveðið var að æfa fleiri lög og bæta þeim við á diskinn, sem yrðu tekin upp í byrjun sumars og betrum bæta hin lögin. Þá værum við komnir með 10 laga metsöluplötu, ekki amalegt það…

Bjarki Þór Aðalsteinsson – trommur
Bjarki Þór Jónsson - gítar
Einar Þröstur Reynisson – gítar
Gunnar Ágúst Ásgeirsson - söngur og bassi
Hallur Heiðar Jónsson – hljómborð