Nýlega hefur ógnvænleg þróun átt sér stað. Músik og Myndir er horfið, og Japis að því sem virðist líka. Það eina sem stendur eftir er Skífan.
Fyrir nokkrum árum var ástandið miklu betra. Þegar maður ætlaði að kaupa geisladiska var annaðhvort hægt að fara í Skífuna, Japis, MM eða stóru tónlistarverslunina í Kringlunni sem breytti sífellt um nafn (Virgin, Samtónlist o.fl.). Af þessu er aðeins Skífan eftir, og hún er líka minni en áður var. Verslunin hefur svosem stækkað, en í staðinn fyrir að bæta við geisladiskum hefur þetta breyst í nokkurskonar “Gallerí Skífan”, búðin er kannski flott en þar er aðeins hægt að fá það nýjasta og þar er mjög lítið úrval. Ég ætlaði um daginn að kaupa einhverjar Bítlaplötur en fann aðeins 4-5, sama sagan var með Nick Cave. Mér finnst oft líka bara gaman að ráfa milli tónlistarbúða og skoða ýmsa gullmola án þess að kaupa þá endilega, en það er eiginlega ekki lengur hægt, úrvalið er of lítið.
Að vísu eru til litlu óháðu búðirnar eins og Hljómalind og 12 tónar, en þar sem ég er með venjulegan tónlistarsmekk, hlusta á nýlegt og klassískt rokk og annað í bland, þá virka þær ekki fyrir mig.
Eins finnst mér verðið á geisladiskum vera komið algjörlega út í öfgar. Ég hef engan veginn efni á að borga 2600 kr. fyrir einn geisladisk. Ég held ég verði bara að láta mér nægja útvarp og mp3 í einhvern tíma. Því miður…
Að lokum koma svo spurningarnar:
Hvar kaupiði tónlistina ykkar?
Veit einhver hvar ég get keypt gamla vínyldiska?
Getur einhver bent mér á góðar tónlistarbúðir í Køben, ég er á leiðinni þangað í sumar.
Endilega tjáið ykkur!
sjoefn7