Þegar þetta er skrifað er ég tiltölulega nýkomin af tónleikum The Strokes á Broadway. Í stuttu máli skemmti ég mér prýðilega þótt þetta hafi kannski ekki verið með merkari tónleikum sem ég hef séð.

Mér fannst ég hins vegar þurfa að kryfja aðeins fyrirbærið The Strokes svona eftir að hafa fengið þá beint í æð. Hvað er svona merkilegt við The Strokes? Eru þetta nýjir rokksnillingar? Í stuttu máli: nei. Er þetta gott band? Ef það er gott að búa til hráa rokkslagara sem smella saman og búa yfir prýðismelódíu þá eru þeir svo sannarlega góðir!

Strokes er vissulega ekkert merkilegra en mörg bönd. Bara nýlega hafa The White Stripes og The Hives verið að vekja athygli og ég held að bæði þau bönd séu betri en The Strokes. Aftur á móti eru þessi tvö bönd harðari, enn hrárri og ekki jafn útvarpsvæn og The Strokes.

Það er einmitt lykillinn. Undanfarið hefur rokkútvarpi verið mikið til tröllriðið af því sem ég vil kalla vælukjóarokki. Ég ætla ekki að segja að þetta sé alslæmt en á heildina litið finnst mér lítið til koma. Þemað sem á að selja í dag virðast vera unglingar með líkamsgötun, tattú, íklædd tískufötum sem foreldrum er illa við, að framleiða tónlist uppfulla af reiði yfir því að foreldrarnir/samfélagið/einhver hlusti ekki á þá/beri ekki virðingu fyrir þeim/séu slæmir foreldrar og svo framvegis. Í rauninni bara harðari útgáfa af af píkupoppi og boybands nema með gítara og DJ/scratcher.

Skoðun mín er að þetta sé slæm stöðnun og eins og alltaf þegar popptónlist og rokkið hefur staðnað hefur komið bylting. Við sáum það þegar að pönkið skaut upp kollinum innan um diskótímabilið og súpergrúppurokkrisaeðlur. Við sáum það þegar að Nirvana og grunge-bylgjan hristi rækilega upp í rokkheimi sem gekk um í spandexbuxum. Ég ætla ekki að fara að bera Nirvana og The Strokes saman nema að því leyti að þeir þjóna sama tilgangi. Byltingin gæti verið að koma aftur og kannski eru það The Strokes sem verða holdgervingar hennar þótt þeir séu ekki upphafið eða rjóminn af henni. Bjargvættir rokksins, spyr ég eins og í ágætri grein á Audiogalaxy? Kannski ekki, enda til fullt af góðu rokki í dag. Þeir eru þó vonandi spark í rassinn á þeim yfirgengilega commercialisma sem hefur ríkt nýverið í rokkheiminum. Í staðin fyrir væl um að njóta ekki virðingar eða ástúðar spretta þeir fram á sviðið ölvaðir og reykjandi, klæddir í það sem virðist vera 30 ára gömul föt foreldra þeirra og segja að þeim sé bara skítsama: Take it or leave it! Rokkið er komið aftur og núna hefur það attitude.