Hæ!

Mig langar til að segja ykkur frá svolitlu sem henti mig fyrir nokkrum dögum. Ég var í strætó á leiðinni í bæ, með raftónlist eftir sjálfan mig í eyrunum, horfði út um gluggann á bílana á Miklubrautinni. Allt í einu heyrði ég söng. Þetta voru barnsraddir og mér fannst ég kannast eitthvað við þær. Ég tók af mér heyrnartólin og áttaði mig; þetta var byrjunin á seinasta lag Lift yr. skinny fists like antennas to heaven. Þið vitið, lagið þar sem þær syngja “monami”(hvernig sem maður stafar það), en það merkir víst “vinur minn” á frönsku. Þessi tónlist kom úr útvarpstæki bílstjórans. Stelpurnar hættu að syngja og klukkuspilið tók við. Bílstjórinn hækkaði í tækinu. “Þessi maður er snillingur” hugsaði ég. Strengirnir og gítarómið byrjaði og ég var kominn með gæsahúð dauðans. Það stefndi í eina af mögnuðustu tónlistarupplifunum mínum til þessa. Ég veit ekki af hverju, en að heyra Godspeed you black emperor spilað hátt í útvarpinu í strætó á Miklubrautinni var magnaðara en sjálfir tónleikarnir. Kraftmikli og magnaði kaflinn sem byrjar á 5. mínútu var alveg að renna upp, ég sat og trúði ekki mínum eigin eyrum. En hvað gerðist svo? Helvítis bílstjórinn skipti um útvarpsstöð og byrjaði að hlusta á Bylgjuna eða Sögu!!! Mig langaði að standa upp og lemja hann. En svona er lífið, maður breytir ekki tónlistarsmekk annarra.
En eftir þetta byrjaði ég að pæla í því hvað getur beytt skynjun okkar á tónlist. Kannski er stundum áhrifameira að hlusta á tónlist í botni á litlu útvarpstæki en risastórum græjum. Og persónulega finnst mér tónlist yfirleitt mun áhrifameiri þegar ég hlusta á hana undir berum himni heldur en heima í stofu.
Jæja, meira var það ekki. Bless bless.