Þið sem viljið það helst þungt.. og eruð dulítið lokaðir fyrir öðru… þið getið hætt að lesa hér.

Ég er alveg kolfallinn fyrir þessu bandi. Hljómsveitin kemur frá Albakörkí í Nýju-Mexíkó og hefur starfað um nokkurra ára bil. Þeir eru alveg svakalegt retró þessir strákar, spila þjóðlagaskotið sixties popp, hámelódískt og tilfinningaþrungið. Samt inn á milli fínir nýbylgjurokktaktar. Gáfu út plötuna “Oh, inverted world” í fyrra og er sú plata vægast sagt snilld. Var hún einnig í toppsætum á mörgum árslistum skríbenta enda ekkert skrítið. Er um að ræða fyrstu EP plötu sveitarinnar en langt í frá fyrstu útgáfu. Þarna er t.d. að finna eitthverja best sömdu “ballöðu” sem komið hefur út í áraraðir, lag sem heitir “New slang”. Tær fullkomnun þar á ferð! Minnir á Donovan og álíka fágað aumingjapopp sjöunda og áttunda áratugarins. Af samtímamönnum koma Belle and Sebastian aðeins upp í hugann við samanburð. Þetta er retrópopp með dýpt sjáiði til.. og fantagóðum alvöru textum. Ekki helvítis einsatkvæðis-sniðugheita sullið sem ég er búinn að fá ógeð á. Síðan bregða þeir sér stundum hressilega í Kinks og örlí Beatles-gírinn í lögum eins og “Know your onion”. Algjört eðal! Alveg eins og klippt út úr 1964. Pródúseringin er líka gamaldags og nokk skítug.

Þið sem eruð kolfallinn fyrir öllu Americana/bílskúrs-retrósenunni (White Stripes, Black Rebel Motorcycle Club, Strokes, Hives o.s.frv.) tékkið á þessu. The Shins eru miklu mýkri en áðurnefnd bönd og eru undir alltallt öðrum áhrifum en flest áðurnefnd bönd, en þetta er tónlist sem lifir. Sjaldheyrð, hlýleg glaðværð.