Plötugagnrýni: Sign - Vindar og Breytingar Sign er eitt af stærstu böndum landsins. Þrátt fyrir það hefur þeim alltaf tekist að haldast sem eins konar “underground” hljómsveit sem á afar dygga aðdáendur. Ég er stoltur að geta sagt að ég hef verið að hlusta á Sign síðan ég var um ellefu ára gamall og það geri ég enn. Því miður hef ég aðeins fengið tækifæri til að fara á eina tónleika með þeim og þar sem aðstaðan var slök var þetta nú meira eins og hljómsveitaræfing með áhorfendum. Samt sem áður var það geðveikt.
Virkilega vanmetin sveit. Takið endilega með í reikninginn meðalaldur meðlima þegar platan var gerð, og hafið sérstaklega í huga aldur söngvarans/gítarleikarans.

Platan Vindar og Breytingar kom út árið 2001 í kjölfar sigurs þeirra Sign manna á Músíktilraunum. Þar var Ragnar einnig valinn besti söngvarinn. Platan var tekin upp í Rabbeyroad, hljóðveri í eigu Rafns Jónssonar föður þeirra Ragnars og Egils.
Á henni er hljóðfæraleikur eftirfarandi:

Ragnar Zolberg Rafnsson - Gítar og söngur
Egill Rafnsson - Trommur
Hörður Stefánsson - Gítar
Sigurður Ágúst - Bassi
Baldvin Freyr - Gítar (Spilaði þó ekki með þeim á Músíktilraunum)


1. Fyrsta Skrefið - Instrumental lag, og er aðeins um mínúta að lengd. Eingöngu gítarar í þessu og er að mínu mati mjög eftirminnilegt. Sniðug pæling að láta plötuna byrja á þessu. 7/10

2. Halim - Eitt af bestu lögum plötunnar að mínu mati, afar eftirminnilegt. Flott riff sem er nokkurnveginn beinagrindin í öllu laginu með smá variations. Textinn er flottur og passar vel þó að hann skiljist sumstaðar ekki auðveldlega í framburðinum. Í miðju laginu er gítarsóló sem mér finnst persónulega mjög flott, það er líka eins og það sé smá píanó eða hljómborð hér og þar í laginu, kannski er það bara ég. 9/10

3. Haltu fyrir Augun - Það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég hlusta á þetta lag er orðið reiði..afskaplega aggressive lag, sérstaklega main gítarriffið. Söngurinn er tilfinningaþrunginn og aftur passar óvenjulegur textinn vel við. Í miðju laginu er kafli þar sem trommurnar ráða ríkjum í nokkra takta og clean gítarspil leiðir okkur inn í síðasta viðlagið sem er hvað öflugast 7/10

4. Háður þér - Lagið byrjar rólega og mér finnast bassinn og trommurnar fara flott með clean gítarplokkinu í versinu. Krafturinn vex svo á leiðinni í viðlagið sem er frekar rokkað, en dettur svo aftur niður í rólegra gítarspil fram að næsta viðlagi. Textinn er flottur og passar vel við. Gítarsólóið kemur flott inn í og endar lagið á flottan hátt. 8/10

5. Hey Ben - Kraftmikil byrjun, rólegra vers. Lagið er frekar svipað í gegn og persónulega finnst mér þetta ekkert ofboðslega skemmtilegt lag (líklega vegna þess hvað það er hálf einhæft). Reyndar gefur raddaður gítarleikur í endann svolitla vítamínsprautu fyrir síðasta viðlagið. 6/10

6. Svo Sárt (Draumurinn) - Byrjar á klippu úr öðru lagi af sömu plötu sem snúið hefur verið afturábak. Svo kemur inn flott gítarriff sem persónulega minnir mig einhverra hluta vegna á lag með Foo Fighters. Þunglegur textinn og röddin í Ragga passar vel við lagið. Reyndar er svolítil undirlína í textunum á þessari plötu. Trommurnar eru kraftmiklar og flottar í þessu lagi, eins og reyndar í þeim flestum. Flott röddun í söngnum þegar dregur að endanum. Eitt af betri lögunum að mínu mati, eftirminnilegt. 8/10

7. Zektarkennd - Rosalega flott byrjun þar sem öll hljóðfærin fylgja inn á eftir fallegu clean gítarspili. Rólegt versið fer vel með óvenju hugljúfum textanum. Viðlagið er mjög eftirminnilegt og sérstaklega “ó ó ó ó, ó ó ó ói ó” kaflinn (myndrænni lýsing var því miður ekki í boði). Þegar nær dregur að enda er aftur vikið að byrjunargítarspilinu áður en skellt er í lokaviðlag. Án efa eitt besta lag sem Sign hafa gert. 9/10

8. Vindar og Breytingar - Titillag plötunnar byrjar á kraftmikinn hátt og heldur því í gegn. Textinn er flottur og aggressívur söngurinn heldur honum vel í gegn. Í miðju lagsins er rólegri kafli sem sýnir mýkri hlið á laginu áður en kraftinum er aftur sparkað inn. 7/10

9. Mínar eigin tilfinningar (Lag Dauðans) - Byrjar á léttum trommum og clean gítarspili áður en kraftmikið “ALDREEEI” kemur inn í. Bassinn er sérstaklega góður í þessu lagi, og auðvelt er að sjá að lagið heitir ekki lag dauðans að ástæðulausu. Þunglyndis- og reiðilegur textinn er myndrænn og er tilfinninga borinn fram af herptum vörum hins reiða Ragnars sem bæði öskrar og growlar í laginu. Rödduð gítarlína er í gegnum lagið, nema í miðjukaflanum sem er nokkuð óreglulegur í takti til að leggja áherslu á orð söngvarans. Lagið endar á gítarlínunni á flottan hátt.8/10

10. Cassandra/Flóttamaður - Rödd Cassöndru ómar í litla stund áður en chorusaður gítar kemur inn í og trommur og bassi fylgja þar á eftir með tvískiptum söng. Viðlagið er kraftmeira og er það hljóðlúppan sem snúið er afturábak í laginu Svo Sárt. Textinn er mjög dapur og hryggur, orðin “fyrirgefðu mér fyrir að vera til” hafa staðið í huga mér síðan ég heyrði þetta lag fyrst fyrir ca 7 árum. Óáberandi gítarlínur eru í viðlaginu til að fylgja með og endar lagið á hryggum ópum söngvarans. 8/10

11. Í Gegnum Lyfin - Byrjar á ljúfri spiladósarmelódíu sem drukknar svo í þungum hljóðfæraleiknum. Söngurinn er mjög kraftmikill og kemur truflaður textinn einkar vel út í þessu lagi. Note a bené; skilda er að spila viðlagið á háu volume-i! Í seinna versinu eru aðeins trommurnar til staðar að haldast í hönd við truflaðan textann. Eftir að seinna viðlagið hefur rifið sér leið inn í lagið með rosalegum krafti birtast tvær gítarlínur sem haldast í hönd með flotta röddun fram að enda lagsins. Mæli með að lækka í voluminu ef þið eruð að hlusta á þetta með headphone áður en dómaraflautan rífur í ykkur ístaðið undir lokin. Geðtruflað lag af bestu gerð. 9/10

12. Gullskot í hjarta mínu - Óskaplega fallegt lag að mínu mati. Eins konar kassagítarballaða, en þó ekki á vælulegan hátt. Djúpir strengirnir og ómur af fjarlægu bergmáli fara vel með tilfinningaþrungnum söngnum. Orðin eru beinskeytt og hrygg, en ekki á sama hátt og í hinum lögunum, aggresívleikinn er ekki til staðar hér. Falleg söngröddun myndast eftir því sem lagið ágerist og fer því afar vel. 10/10


Að mínu mati er þetta frábær plata, hvernig sem á það er litið. Reyndar finnst mér svolítið vanta upp á hljóðgæði hér og þar, sérstaklega í gítarsándi. En ég hlusta ennþá mikið á hana sem og annað efni Sign.
Vona að einhver nenni að lesa þetta (takk fyrir) og vona að þetta sé ekki of slæmt. Svo er bara að vona að myndin fylgi.