Margir vinir mínir og annað fólk sem ég hef heyrt í hefur þá skoðun að tveir síðustu diskar Radiohead, Kid A og Amnesiac hafi verið mikið flopp. Það virðist komið í tísku að segja Radiohead vera tilgerðarlega tónlistarmenn sem hafi ekki þorað fylgja vinsældum OK Computer og ákveðið að gerast “metnaðarfullir” og “krefjandi” listamenn. Þeir sem hafa þessa skoðun finnast þessir diskar eflaust vera yfirhæpaðir og leiðinlegir og vilja bara gamla góða Radiohead. Nema þeir sem fíluðu þá aldrei og finnst þeir jafn leiðinlegir og áður.
Mér finnst Kid A vera besti diskur Radiohead, en besta lag þeirra Like Spinning Plates. Knives Out og nýja útgáfan af Morning Bell eru einum of sykurhúðuð fyrir minn smekk. En að þessir diskar séu verri en OK Computer eða The Bends finnst mér rugl. OK Computer var góð, með fullt af vel smíðuðum lögum. Kid A er allt öðruvísi, hún er miklu geðveikislegri og ruglaðri. Þessi geðveiki var líka til staðar á OK Computer en í miklu minna mæli. Fyrst þegar ég fékk Kid A hlustaði ég mikið á hann en gaf honum síðan hvíld og hlustaði ekki á hann í marga mánuði. Núna er það að hlusta á hann aftur eins og að heimsækja gamlan vin, það er þægilegt og veitir öryggi. Kid A er eins og einræn, flókin og lokuð manneskja og það er unun að hlusta á hann. Diskoteque er eitt af fáum lögum sem fá mig til að hoppa útum allt eins og brjálæðingur þegar enginn sér til(parturinn sem byrjar á 5:32 í lagi 2 á disk númer 2 á lift yr skinny fists… með GYBE! hefur líka þessi áhrif. Godspeed er nefnilega helv. dansvæn hljómsveit ef maður pælir í því:)
Amnesiac er aðeins öðruvísi en Kid A. Ef Kid A er strákur þá er Amnesiac kærastan hans, aðeins bjartari og skemmtilegri en jafnframt örvæntingarfyllri. Mér finnst sum lög hafa verið slípuð einum of mikið til, t.d. fyrsta lag disksins sem mér finnst mikið betra live, spilað á gítar. Annars eru þarna góð lög, eins og Pull/Pulk Revolving Door, I might Be Wrong og Like Spinning Plates.
Þess vegna er mín skoðun sú að þrátt fyrir að Radiohead sé ein vinsælasta hljómsveit í heimi sé hún á stóran hátt vanmetin eða misskilin. Margir hlusta á hana til að vera kúl. Sumum finnst tónlistin leiðinleg. Ég virði alveg þá skoðun enda hefur fólk mismunandi smekk. En það verður að meta tónlist út frá forsendum þeirra sem bjuggu hana til. Að Radiohead hafi floppað finnst mér ekki rétt. Nú er bara spurning í hvaða átt þeir fara næst. Ég vona satt að segja að þeir fari ekki aftur í kassagítarballöðunar eins og True Love Waits af I Might Be Wrong. Þótt það lag sé ágætt finnst mér Radiohead vera að gera miklu betri hluti í tilraunakenndari lögum.