Þetta er ritgerð sem ég skrifaði fyrir skólann um þá Cedric Bixler-Zavala og Omar Rodríguez-López sem eru voru aðal mennirnir í At the Drive-in og eru núna í The Mars Volta. Ég veit að þetta er langt en ég mæli eindregið með þessari lesningu og hljómsveitunum.

Gítarleikarinn Omar Rodríguez-López, fæddur 1975, og söngvarinn Cedric Bixler-Zavala, fæddur 1974, eru merkilegt tvíeyki. Þeir eru af latneskum uppruna en ólust upp í El Paso, Texas sem er mjög nálægt landamærum Mexíkó. Þeir kynntust 15 ára og voru saman í bílskúrshljómsveit sem spilaði harðkjarna- rokk en stofnuðu seinna aðra harðkjarna-rokkhljómsveit sem hét At the Drive-in og varð mjög fræg. Seinna stofnuðu þeir síðan hina framsæknu og skynörvandi tilrauna-rokkhljómsveit, The Mars Volta sem er ennþá starfandi.
At the Drive-in
Árið 1992 fór Omar á puttanum um sveitina í kring um El Paso og fór að neyta ópíum í miklum mæli. Á meðan var Cedric ennþá í El Paso og stofnaði hljómsveitina At the Drive-in ásamt vini þeirra, gítarleikaranum Jim Ward. Að lokum fékk Cedric Omar til að koma aftur til El Paso og ganga til liðs við hljómsveitina. Fyrsta hljóðversupptaka hljómsveitarinnar var smáskífan Hell Paso en á henni spilaði Omar á bassa.
Acrobatic Tenement og In/Casino/Out
Fyrsta breiðskífan þeirra, Acrobatic Tenement, kom út 1996, þar sem Omar spilaði enn á bassann. Á þessum tíma var hljómsveitin aðallega þekkt fyrir kraftmikinn flutning á tónleikum og fannst þeim eins og þeir næðu ekki þeirri orku inn á plöturnar. Því var ákveðið að næsta plata yrði lifandi hljóðvers plata þar sem öll hljómsveitin spilaði saman í hljóðverinu. Ekki hver og einn tekinn upp fyrir sig. Þetta skilaði sér á þessari næstu plötu, In/Casino/Out, sem kom út 1996 og náði betri árangri en sú fyrri. Einnig getur hafa skipt máli að þarna var Omar loksins farinn að spila á gítar. Það heyrist best á því að nú var meiri áhersla lögð á góða laglínu og flottan gítar í stað grófa pönk-stílsins á fyrri plötunni og lögin urðu fyrir vikið mun hljómfegurri og fágaðari.
Relationship of Command og endalok hljómsveitarinnar
Árið 2000 kom út platan Relationship of Command sem flestir eru sammála um að sé besta plata hljómsveitarinnar og kom það því flestum á óvart þegar Omar og Cedric hættu í hljómsveitinni þannig að hún leystist upp minna en hálfu ári eftir að platan kom út. Aftur á móti, þegar saga hljómsveitarinnar er skoðuð í samhengi við þetta, er nokkuð vit í þessu því það sést að Omar og Cedric eru ekki á sömu braut og hljómsveitin. Fyrst er hægt að líta á atvik sem gerðist á tónleikum hljómsveitarinnar stuttu eftir útgáfu síðustu plötunnar. Þá hafði Cedric fordæmt það að fólk væri of æst og ofbeldisfullt á tónleikum í staðinn fyrir að dansa og njóta tónlistarinnar og á endanum fór hann af sviðinu eftir einungis 15 mínútur og endaði þannig tónleikana. Það stakk í stúf við fyrri stefnu hljómsveitarinnar sem var einfaldlega að spila brjálað rokk með öllu tilheyrandi. Einnig er hægt að skoða breytinguna eftir að Omar fór að spila á gítar. Þá hafði hann mun meiri áhrif á tónlistina og útkoman varð dálitið önnur en á fyrstu plötunni.
Gítarleikarinn Jim Ward hefur þó sagt að hann sé ánægður með slitin því hann stofnaði hljómsveitina þegar hann var 17 ára og fannst alltaf eins og hann hafi verið 17 ára á meðan hann var í henni. Þetta var því rökrétt útkoma. Omar og Cedric hafa einnig sagt að þeim hafi fundist harðkjarnastefnan há sér þannig að þeir gátu ekki gert það sem þeir vildu innan hennar. Cedric hefur svo seinna tekið ábyrgðina á því að hljómsveitin hætti. Hann vildi að næsta plata yrði í anda Piper at the Gates of Dawn með Pink Floyd en hinir vildu halda áfram í harðkjarna-rokkinu. Athyglisvert er að skoða að á Relationship of Command er einmitt ábreiða af laginu Take Up Thy Stethoscope and Walk af Piper at the Gates of Dawn.
Tónlistin
Tónlist hljómsveitarinnar er mjög orkurík og reið. Þetta er harðkjarna-rokk/lista-pönk með latneskum salsa stíl. Textarnir eru súrrealískir með mjög breiðum orðaforða og eru merkingar þeirra oft duldar. Þeir hafa verið sagðir pólitískir og þá sérstaklega vinstri sinnaðir. Þeir deila á samfélagið með duldum hætti eins og t.d. lagið Picket Fence Cartel sem fjallar um að pabbar vilji að börnin sín verði eins og þeir sjálfir og Cedric veltir því fyrir sér hvenær sú hringrás stoppi, sbr. “Daddy taught well at the end of his belt”.
The Mars Volta
Á meðan Omar og Cedric voru í At the Drive-in þróaðist hliðarverkefni sem hét De Facto. Það var hljómsveit sem spilaði svokallað instrumental dub-reggí þar sem Cedric spilaði á trommur og gáfu þeir út 3 breiðskífur. Þegar At the Drive-in hætti þróaðist De Facto síðan út í The Mars Volta.
Á 7. áratugnum hafði djassinn og rokkið blandast saman í sýrutrippi þegar tilrauna-rokkarar eins og Pink Floyd og Rush þrýstu á takmörk rokksins. Nú voru komnir menn sem voru tilbúnir að fara í ennþá meiri tilraunastarfsemi með þessa tónlistarstefnu.
De-loused in the Comatorium
Árið 2003 kom út platan De-loused in the Comatorium sem seldist í 500.000 eintökum þrátt fyrir takmarkaða markaðssetningu og var seinna raðað númer 55 á lista Guitar World tímaritsins yfir 100 bestu gítarplötur allra tíma. Þessi plata fjallar um vin þeirra, Julio Venegas sem reyndi að fyrirfara sér með morfíni og rottueitri og lenti í dái. Þeir ímynda sér að á meðan hann er í dáinu ferðist hann um furðulegan hugarheim sinn og sjái sýnir um heiminn þar sem hann upplifir alls konar skrímsli og aðra skrýtna hluti. Þegar hann vaknaði, viku seinna, hoppaði hann niður af brú og tókst, í það skiptið, ætlunarverkið.
Á plötunni eru tíu lög sem sameinast í eina heild og segja þessa sögu með mjög duldum hætti og flóknu orðalagi. Seinna var síðan gefin út stutt bók sem segir söguna betur. Næst síðasta lagið á plötunni heitir Televators og lýsir því þegar hann hoppar fram af brúnni, sbr. “Just as he hit the ground” og “One day this chalk outline will circle this city, was he robbed of the asphalt that cushioned his face”.
Þótt Cedric hafi sagt að hann vildi að næsta platan sín yrði í anda Piper at the Gates of Dawn er ekki hægt að finna margt líkt með þessum tveim plötum. De-loused in the Comatorium er magnþrungin plata sem byggir upp spennuna með nokkurra mínutna sýrðum og djössuðum gítarspunum sem springa svo þegar stefið byrjar aftur. Tónlistina er hægt að flokka sem tilraunarokk með djass ívafi og latneskum áhrifum og er hún mjög djúpt hugsuð með skrýtnum tímasetningum. Það er erfitt að líkja plötunni við aðrar en þó er hægt að líkja sýrðu gítarsólóunum við Pink Floyd. Það er því kannski ekki tilviljun að það var Storm Thorgerson sem hannaði plötuumslagið, en hann hannaði plötuumslögin fyrir Pink Floyd.
Omar og Cedric höfðu alla tíð verið mikið í dópi en þegar þeir voru á tónleikaferðalagi eftir De-loused in the Comatorium dó Jeremy Ward, sem hafði verið vinur þeirra og hljóðmaður á plötunni, af of stórum skammti af eiturlyfjum. Þetta olli því að þeir hættu að nota dóp og halda því fram í dag að þeir hafi ekki gert það síðan.
Frances the Mute
Þrátt fyrir að þeir væru nú hættir að neyta eiturlyfja varð næsta plata þeirra, Frances the Mute, ennþá framsæknari en sú fyrri. Nú voru nokkurra mínútna kaflar þar sem nánast engin laglína var í gangi og textarnir ýmist á spænsku eða ensku. Á þessari plötu eru nokkur af bestu lögum hljómsveitarinnar og oft nokkurra mínútna hljóðfæramillikaflar þar sem nánast engin laglína er og jafnvel ekkert nema bakgrunnshljóð eins og fuglasöngur. Platan er mjög djúp og krefst þess að hlustað sé oft á hana og þá helst alla í einu setti. Þetta olli mjög misjöfnun skoðunum gagnrýnenda. Á meðan Rolling Stone sagði tónlistina jafn tignarlega og Led Zeppelin, sögðu aðrir þá vera einsleita skítahrúgu af hugflæðirembingi. Platan hefur þó selst í 465.000 eintökum sem er ekki mikið minna en De-loused in the Comatorium.
Platan fjallar um mann sem er að leita að líffræðilegum foreldrum sínum og er byggð á dagbók sem Jeremy Ward heitinn hafði fundið í bíl nokkrum og tengst sterkum böndum. Hljómsveitin hefur sagt að platan fjalli um leit hans að sannri merkingu þess að eiga fjölskyldu. Platan er þó alls ekki væmin heldur drungaleg og myrk og eru textarnir illskiljanlegir eins og áður. Platan er 75 mínútur og á henni eru fimm lög en aðeins eitt þeirra er styttra en tíu mínútur. Löngu lögunum er síðan skipt niður í undirparta eins og til dæmis lagið 2112 með Rush. Á þessari plötu má áfram greina latnesku áhrifin frá uppruna þeirra þar sem lög eins og L’Via L’Viaque eru á spænsku og í miðju laginu kemur einnig rólegur kafli með miklum salsa fíling. Nú er tónlistin líka orðin hægari og meira skynörvandi og draugaleg á köflum en ekki eins rokkuð og fyrri platan.
Fyrst Jeremy Ward, upptökustjórinn á De-loused, var nú látinn, tók Omar að sér það hlutverk. Hann notaði aðferð sem Miles Davis og fleiri djassarar höfðu notað til að ná fram því besta í hverjum hljóðfæraleikara. Hann lét þá spila kaflana sína án þess að heyra í hinum hljóðfærunum þannig að hver partur varð sjálfstæður og tóku því upp við taktmæli.
Amputechture
Næst kom út platan Amputechture sem var fyrsta platan þar sem lögin tengdust ekki öll í eina sögu og þeir gátu því leyft sér að skrifa um almennari málefni eins og trú, einkabrandara, atburði o.fl. Á þessari plötu virðast þeir hafa skemmt sér betur en við hinar sem voru báðar tengdar vinum þeirra sem höfðu dáið. Nú er tónlistin orðin hressari en hefur samt þennan sérstaka The Mars Volta blæ sem fáum hefur tekist að herma eftir. Ennþá koma latnesku áhrifin fram, meðal annars í laginu Asilos Magdalena sem er sungið á spænsku við órafmagnað spænskt gítarplokk. Á þessari plötu samdi Omar alla tónlistina á meðan Cedric samdi alla textana og í hulstrinu stendur að þessi diskur innihaldi lög sem voru samin af Omar og Cedric en sé flutt af The Mars Volta hópnum.
Cedric sagði í viðtali um plötuna að hún deildi á trú og meðal annars það að fólk væri hrætt við Guð en elskaði hann ekki. Hann sagði síðan að trú væri ástæðan fyrir því að svona mikill ágreiningur væri í heiminum og honum fyndist óþarfi að trúa á þennan bláeygða, hvíthærða guð.
The Bedlam in Goliath
Einn dag var Omar í lítilli, gamalli búð í Jerúsalem og keypti fornt borð fyrir andaglas. Hann gaf Cedric það og þeir prufuðu það síðan á tónleikaferðalagi. Þá kynntust þeir andanum Goliath og varð það reglulegur atburður að fara í andaglas. Andinn fer síðan að segja þeim sögur um tælingar, svik, sársauka og að lokum morð. Þeir nota þessar sögur og ýmis skrýtin orð frá andanum í lög sem þeir eru að semja fyrir næstu plötu, en síðan fer allt að ganga á afturfótunum. Fóturinn á Cedric verður alvarlega slappur, áður heilbrigður hljóðmaður þeirra fær taugaáfall, upptökur týnast og vatn flæðir inn í hljóðverið hans Cedric þannig að lokum grófu þeir borðið. Þá fóru hlutirnar loks að ganga upp og með herkjum náðu þeir að klára plötuna og var nafnið The Bedlam in Goliath (ísl: Gauragangurinn í Golíat) svo sannarlega við hæfi. Textarnir voru svo byggðir á þessum sögum frá andanum og sögum af þeim að tala við hann.
Tónlistin á plötunni er auglýsingavænni, rokkaðari og höfðar til breiðari hlustendahóps en þær fyrri. Til dæmis er ekkert lag á henni sem er lengra en tíu mínútur og er minna af löngum milliköflum. Platan inniheldur þó öll fyrri einkenni hljómsveitarinnar: Kraft, spunakafla og einstaka rödd Cedrics sem er nokkurs konar blanda af Robert Plant, Geddy Lee og Björk.
Áhrifavaldar og umræða
At the Drive-in voru frumkvöðlar og ein áhrifamesta hljómsveit í harðkjarnarokkinu og hafa margir reynt að feta í fótspor þeirra. The Mars Volta eru einnig án efa miklir frumkvöðlar og hafa komið framsækna rokkinu inn í 21. öldina. Þeir héldu áfram að reyna á takmörkin og hafa algjörlega skapað sinn eigin stíl. Þeir sögðu til dæmis “af hverju að hljóma mannlega ef þú getur hljómað ómannlega”. Hægt er þó að líkja þeim við gömlu framsæknu hljómsveitirnar frá sjöunda og áttunda áratugunum eins og Pink Floyd, Rush og Yes og einnig er hægt að heyra greinileg áhrif frá King Crimson. En áhrifin eru ekki einungis þaðan. Þeir hafa alltaf haldið vel í uppruna sinn og segja að latnesk tónlist, salsa og mexíkóskar þjóðsögur hafi verið miklir áhrifavaldar.
Félagarnir tveir hafa farið í gegnum ýmislegt á lífsleiðinni og þar á meðal þurft að þola nokkur dauðsföll í kring um sig og það hefur haft greinileg áhrif á tónlistina. Lagið Napoleon Solo með At the Drive-in er samið um tvær stelpur sem Cedric var með í hljómsveit og dóu í bílslysi. Síðan eru það vinir þeirra Julio Venegas og Jeremy Ward sem þeir tileinkuðu plötu, hvorum fyrir sig. Dóp var einnig mikilvægur þáttur í að víkka hugann en það kom þó í ljós seinna, þegar þeir hættu því, að þeir gátu haldið áfram að skapa tónlist án þeirra.
Sviðsframkoman hjá félögunum hefur alltaf verið brjáluð og Cedric hendir hljóðnemanum út um allt og stundum eru allt að 40 mínútna spunakaflar í miðjum lögum á tónleikum þar sem Omar fær að njóta sín. Þetta hefur verið einn stærsti þátturinn í velgengni hljómsveitarinnar.
Þó að The Mars Volta sé af sumum talin ein besta framsækna rokkhljómsveit 21. aldarinnar er sumum sem finnst þeir einmitt “einsleit skítahrúga af hugflæðirembingi” og hrikalega ofmetnir. Þetta sé bara rembingsleg tilraun til að vera öðruvísi. Það er auðvitað hluti af því að gera öðruvísi tónlist að einhverjum líki alls ekki við hana en Omar og Cedric hafa aldrei látið áhrif almennings á sig fá. Þeir semja tónlist óháð því hvað öðrum finnst.