Indie popp Alveg eins og maður getur verið í skapi til að hlusta á tregafulla tónlist eða harðkjarna, kemur fyrir að það eina sem maður vill er áhyggjulaus popptónlist sem er auðveld hlustunar. Þar sem fjöldaframleidda popptónlistin er yfirleitt viðbjóður hef ég hingað til leitað á önnur mið. Á þeim miðum er mikið af tónlist sem heyrist ekki í útvarpi en er þó oftast mun innihaldsríkari og meira grípandi. Eins og ég sagði þá er maður stundum í skapi til á hlusta á þannig tónlist en engu að síður er fátt verra en að hlusta á hamingjutónlist þegar maður er leiður. Því skal taka öllum hlustunartillögum mínum með varúð.
Á Tiger Style útgáfunni er mikið af góðum hljómsveitum. Flestar eru þær hljóðlátar, hægar og þægilegar hlustunar. Fyrst má nefna The American Analog Set. Hún gaf nýlega út diskinn Know by heart sem mér skilst að hafi selst betur en heitar lummur í Hljómalind. The American Analog Set kemur frá Austin, Texas og notast aðeins við gömul analog hljóðfæri til að ná fram góðri stemmingu. Þeir tóku þessa plötu upp í heimahúsi og finnst mér hafa heppnast vel. Aðrar góðar hljómsveitir á Tyger Style eru t.d. The Album Leaf og Ida. Album Leaf er ósungið gítarplokk Jimmy Lavelle úr Tristeza, ef til vill ekki popp en samt hágæðatónlist, róleg og sefandi. Ida hefur orð á sér fyrir að vera “litla Low” þrátt fyrir að vera eldri og ef til vill fyrsta “slow core” sveitin. Hún féll hinsvegar fljótt í skuggann af Low, en með tveimur nýjustu plötum sínum hefur hún náð þónokkrum vinsældum í undirgróðrinum á Íslandi. Low er hinsvegar ein ástsælasta sveit tónlistarunnenda hér á landi. Hún hefur náð miklum vinsældum eftir að hafa spilað hér tvisvar og plöturnar hafa selst vel. Eldri plötur Low voru ef til vill hrárri og stundum sársaukafyllri en sú nýjasta, Things we lost in the fire. Á henni víkur öll tilraunastarfsemi fyrir ljúfum laglínum og hefðbundinni lagauppbygingu.
Ef menn fíla The American Analog Set vil ég benda þeim á The Kingsbury Manx sem kemur frá Chicago. Hún er um margt mjög svipuð sveit, spilar rólega tónlist en rokkar inn á milli. Þeir sækja ef til vill meira í gamlar hefðir, t.d. Pink Floyd, Simon & Garfunkel og bandaríska sveitatónlist. Þeir gáfu út frumburð sinn samnefndan sveitinni árið 2000 og hlaut hann góðar viðtökur.
Næst vil ég nefna Yo La Tengo. Þetta er ein langlífasta sveit indierokksins, nær aftur til að minnsta kosti 1988, ef ekki lengur. Þau hafa gefið út fleiri plötur en ég get talið, en sú nýjasta heitir And then nothing turned itself inside out. Hún er nánast gallalaus smíð, venst mjög vel. Yo La Tengo á sér tvær hliðar. Stundum er hún kæruleysisleg og hrá og á það til að semja löng hippaleg lög sem slaga upp í hálftíma að lengd. Ég verð að játa að ég kann ekkert allt of vel að meta þá hlið. Hins vegar er hún stundum róleg og sefjandi og þá er hún óviðjafnanleg.
Belle & Sebastian þekkja allir. Vilji menn enn léttari tónlist í svipuðum dúr mæli ég með Papas Fritas. Þau gáfu út diskinn Buildings and Grounds sem inniheldur allt sem góð poppskífa þarfnast. Góð söngkona, góður söngvari, grípandi laglínur og hressilegir taktar úr trommuheila. Aðrar lítt þekktar sveitir svipaðar Papas Fritas eru t.d. Satellites og Cousteau. Og svipuð Cousteau er enn önnur sveit sem kallast Morning Star. Hún hefur mjög sérstakan hljóm sem minnir e.t.v. nokkuð á 7. áratuginn. Ég mæli hiklaust með disk þeirra My place in the dust. En nú er ég kominn nokkuð út fyrir Indie popp skilgreininguna og mun bráðlega ljúka þessari grein.
Að lokum vil ég nefna nokkrar sveitir sem ég myndi lýsa sem rólegum eða hamingjusömum. Bed er franskt sólóverkefni sem gaf nýlega út samnefndan disk. Það væri ekki hægt að finna betra nafn fyrir tónlistina, þetta er fullkomin tónlist fyrir rúmið. Mjög rólegt gítarspil og raul. Tram er ekki síðri. Sparklehorse er tónlistarmaðurinn Mark Linkous, sem varð frægur eftir að hann lenti í alvarlegu slysi. Hann lá á spítala í marga mánuði og samdi lag til þakkar hjúkrunarkonunum á plötunni Good morning spider. Tónlist Sparklehorse er yfirleitt róleg og afslöppuð en á það þó til að vera dapurleg og hávær. Að lokum vil ég nefna Elk City og Swell sem eru er ekki alls ólíkar Sparklehorse.

Slóðir:
www.tigerstylerecords.com
www.matadorrecords.com
www.tugboatrecords.com
www.sparklehorse.com
www.belleandsebastian.co.uk