Um helgina fór ég á tónleika í háskólabíói með Simply Led. Simply Led er ein af fjölmörgum (eða svo hef ég heyrt) Led Zeppelin “tribute” hljómsveitum. Þessi hljómsveit samanstendur af 4 gaurum alveg eins og sú upprunalega og spila þeir eingöngu tónlist Led Zeppelin. Þeir komu til landsins á vegum götusmiðjunnar og rann allur ágóði til hennar.
Þar sem ég var ekki fæddur 1970 þegar alvöru Led Zeppelin komu hingað þá get ég ekki borið þessa tónleika saman, en ef þetta var bara eftirherma, djöfull hlýtur “the real thing” að hafa verið gott. Tónleikarnir hófust rétt upp úr 21:00 og voru ekki búnir fyrr en rúmlega kl:00:00 þannig maður var að fá alveg tvo og hálfan tíma af klassa tónlist. Þeir byrjuðu af krafti og tóku Immigrant Song og tóku síðan svo mikið að ég man ekki eftir því öllu. Þeir enduðu svo að sjálfsögðu á Stairway to Heaven, en voru síðan klappaðir upp og tóku Whole lotta love. (þvílíkur endir!!!) Þeir voru með öflugt hljóðkerfi og leggja mikið upp úr því að hafa sviðið og hljóðfæri sem líkust því sem var.
Það var allt í þessum tónleikum. Söngvarinn var að syngja svipað vel og Plant, gítarleikarinn var ekki alveg Page en hann komst nálægt því. Trommarinn var öflugur en það fór minnst fyrir bassa og orgelleikaranum sem spilaði líka á mandólín.
Maður fékk gæsahúð af fullt af því sem þeir spiluðu það var svo öflugt. Það voru að sjálfsögðu gítar og trommusóló, líka eitt sóló með orgelinu. En það magnaðasta var ábyggilega þegar gítarleikarinn spilaði og lamdi gítarinn með fiðluboganum. Og ekki má gleyma tvöfalda gítarnum, hann var líka þarna. Nóg var um gítarsóló og ég held að hann hafi verið með 3-4 gítara sem hann notaði.
Sem sagt þetta voru alveg súper tónleikar og ekki hægt að kvarta yfir neinu. Svona lífsreynsla fyrir 2000 kall er ekki neitt og ég óska bara skipuleggjendunum til hamingju. Það eina sem var kannski ekki alveg nógu gott var hve lítið þeir voru auglýstir og sást það á salnum, sem var einungis hálffullur. Ég veit reyndar ekki hvernig mæting var á Gauknum þegar þeir spiluðu þar á Sunnudeginum. Ég vona bara að sem flestir hafa farið.