Sevendust / Animosity - Ein af betri plötum ársins Nú í gær var gefin út (a.m.k. í Bandaríkjunum) platan Animosity með hljómsveitinni Sevendust sem kemur frá Atlanta í Bandaríkjunum. Sveitin er leidd af bolanum Lajon Witherspoon, sem söng snilldarsmellinn Angel's Son á minningarplötunni um Lynn Strait.
Sevendust hefur áður gefið út tvær plötur, Sevendust árið 1997 og Home árið 1999.
Nýja platan Animosity hefur nú þegar gefið af sér singul í útvarp en það er lagið Praise sem á sennilega eftir að gera góða hluti á öldum ljósvakans enda um ansi gott lag að ræða.
Animosity er þétt skipuð rokki í harðari kantinum og ekki skemmir fyrir að Lajon Witherspoon er frábær söngvari og á meðan hann gæðir sum lög harðnaglafílingi úr köldu stáli þá getur hann einnig sett inn tilfinningaþrungna ástríðu í söng sinn í léttari lögum.
Á plötunni standa upp úr lögin Tits on a Boar, Praise, Crucified, Follow og Live Again. Þess má einnig geta að lokalag plötunnar er þeirra eigin útsetning á Angel's Son sem gefur upphaflegu útgáfunni ekkert eftir.
Animosity er með heilsteyptari og hreinlega skemmtilegri plötum ársins en þó eru þeir ekki að brjóta upp formið á sama hátt og System of a Down gerðu á Toxicity sem er án efa besta plata ársins. En Sevendust eru þó ekki ófrumlegir og pirrandi eins og hljómsveitir á borð við Linkin Park og Papa Roach. Sevendust hafa sál og það kemur þeim langa leið og eru þeir ekki langt á eftir SOAD í vali á rokkplötu ársins.
9/10