Ég ætla að skrifa hérna plötudóma um þrjár bestu plöturnar/diskana með nokkrum af uppáhaldshljómsveitunum mínum. Ég ætla að byrja á AC/DC og byrja á bestu plötunni þeirra að mínu mati. Það er hin tímalausa Back in Black sem kom út árið 1980. Bon Scott hinn dáði söngvari bandsins lést árið 1979 þegar hann dó úr kulda sofandi áfengissvefni í bíl í London. Það bjuggust margir við því að þeir myndu í kjölfarið hætta en það varð ekki raunin og þeir réðu lítið þekktan söngvara Brian Johnson frá Newcastle sem hafði verið í bandi sem hét Geordie. Aðrir í bandinu voru náttúrulega Young bræðurnir Angus og Malcolm, síðan Phil Rudd á trommur og Cliff Williams á bassa en svona hafði bandið verið um nokkurn tíma.

Þegar Bon Scott lést hafði bandið verið farið að slá í gegn í Bretlandi og víðast hvar í Evrópu en síðasta platan sem hann söng á var Highway to Hell sem verður fjallað um síðar. Back in Black var tekin upp á Bahamas vorið 1980. Það hvíldi nokkur leynd yfir þessu öllu saman því þeir í bandinu voru ekki alveg vissir um að þetta gengi allt upp. Að lokum voru tekin upp 10 lög sem var algengur fjöldi á tíma vinylplötunnar. Það er skemmst frá því að segja að platan sló gersamlega í gegn og hefur selst síðan í meira en 20 milljón eintökum. Hún fór víða í fyrsta sætið á vinsældarlistum og meðal annars stökk hún strax í efsta sæti í Bretlandi þegar hún kom út í ágúst 1980.

Hells Bells.
Bjallan hljómar og gítararnir koma sígandi inn með vaxandi krafti. Tromman slær undir þungan takt og lagið fer af stað með mögnuðum dulúðugum krafti. Það biðu margir eftir því að heyra fyrstu tónana í Johnson og þegar hann byrjaði að syngja var það eins og Andrés Önd risinn upp frá Helvíti. Afar sérstök og rifin rödd “Rolling thunder, pouring rain, I´m coming on like að hurricane” Textinn fjallar um kynlíf eins og reyndar flestir textar AC/DC. Snilldarlag 5/5

Shoot to thrill
Næsta lag var hraðara og rífandi krafturinn í því passar ótrúlega vel við sem næsta lag. Eitt af fjölmörgum “shoot” lögum þeirra. Í laginu kemur millikafli sem var svolítið nýr miðað við það sem þeir voru að gera á þessum tíma. Þarna heyrist vel hversu kraftmikill söngvari Johnson er og í raun miklu meir rokksöngvari en Bon Scott. 4/5

Honey, what do you do for money?
Nafnið segir allt um innihald textans. Grípandi lag þar sem keyrslunni er haldið áfram. 4/5

Giving the dog a bone
Krafturinn heldur áfram og hvergi gefið eftir. Þarna er lag í boogie takti þar sem gítararnir vinna vel saman. Enn kynferðislegur texti 4/5

Let me put my love into you
Rólegra lag þar sem gítarinn kemur inn með rólegt riff og síðan bætist rythmagítarinn við. Nafnið segir allt um textann. Johnson nýtur sín þarna vel en það verður samt ekki sagt að það fari honum vel að syngja rólegri lög. 5/5

Back in black.
Líklega annað frægasta lag plötunnar. Ótrúlega heillandi og grípandi riff. Lagið var samið til minningar um Bon Scott hressilegur texti samt sem fjallar um að ná sér á strik aftur eftir erfiðleika. Staðsetningin á laginu ber nokkurn keim af því að á þessum tíma þurfti að snúa plötum við og þetta var fyrsta lagið á hlið 2. Ef platan væri að koma út í dag þá yrði það sennilega lag nr. 2. Frábært lag sem heyrist oft 5/5.

You shook me all night long
Frægasta lag AC/DC og í raun það mest grípandi. Gítararnir byrja með grípandi riff sem gefa tóninn fyrir melódískt lag. Lagið var samið sérstaklega með það í huga að ná fótfestu á markaði í Bandaríkjunum en það tókst ótrúlega vel því það mistekst stundum þegar er verið að semja “hittara”. Lag sem er komið í bækur rokksögunnar. 5/5

Have a drink on me.
Annað lag þar sem var verið að minnast Bon Scott en hann var mikill drykkjuberserkur. Fjörugt lag en að mínu mati það lakasta á plötunni. Eiginlega bara til að fylla í eyðurnar. 3/5

Shake a leg.
Útúrsnúningur á þekktum frasa eins og mörg lög AC/DC. Break a leg (gangi þér vel). Fjörgut lag en ekki eitt af þeim bestu og ber einkenni þess að vera til uppfyllingar. 3/5

Rock n roll aint noise pollution.
Lokalagið er rólegra eins og til að undirstrika nafnið og boðskapinn sem því fylgir. Byrjar á trommu og rólegu riffi auk þess sem Johnson bablar eitthvað á milli þess sem hann fær sér smók. Ágætislag sem endar plötuna með góðum stæl. 4/5

Í heildina er þetta afar heilsteypt verk og vakti mikla athygli. Þegar þeir fóru að fylgja plötunni eftir þá byrjuðu þeir á tónleikum á litlum stað í Belgíu til að prófa Johnson. Viðstaddir voru einkum heimamenn ásamt nokkrum blaðamönnum sem komust á snoðir um þetta. En platan seldist og seldist og kom þeim á kortið í USA. Að minu mati ein af bestu rokkplötum sem hafa komið út. Hún hefur verið endurútgefin nokkrum sinnum en því miður hefur ekki verið gefið út neitt efni sem ekki hefur heyrst áður sem bendir til þess að það hafi verið notað á aðrar plötur eða hreinlega að þeir hafi ekki haft fleiri lög. 5/5