Sparta /At the drive in Ég missti af Sparta tópnleikunum á Gauknum á laugardaginn (Icelandic Airwaves) en sú hljómsveit inniheldur víst þrjá meðlimi úr hinni sálugu At the drive-in (gítar og söngur, gítar, trommur). Á korknum segir polaroid að þetta hafi verið með bestu tónleikum sem hann hafi séð. Gaman væri að vita hvað öðrum sem voru þar fannst.

Talandi um At the drive in. Nú á einhver eftir að verða reiður en…I don't get it. Ég heyrði jú lagið One armed scissor þegar það var í spilun á X-inu og fannst það geðveikt. Svo fór ég að lesa greinar þar sem hlaðið var lofi á hljómsveitina og plötuna Relationship of command og farið var að tala um byltingu í rokki og ég veit ekki hvað. Ég sperri nú alltaf eyrun þegar ég heyri um byltingu í rokki (þó ég hefði átt að læra af því þegar ég hljóp til og keypti Glassjaw eftir að lesa fullyrðingu um slíkt í Undirtónum – afskaplega leiðinleg plata og ekkert nýtt í gangi) og fór í Japis til að versla gripinn en þá var hann uppseldur. Ég varð voðalega spennt, hélt ég væri að missa af einhverju stóru og að það hlyti að vera eitthvað varið í þetta. Þegar ég loks fékk diskinn varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Sama hvað ég rembdist við að reyna að finna snilldina, þá fann ég hana ekki. Að vísu voru nokkur góð lög þarna en platan í heild var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Eftir því sem ég hafði heyrt talað um hana bjóst ég við nýrri Nevermind, en það var langt frá því.

Ég virtist vera sú eina sem var á þessari skoðun. Áfram hélt hype-ið þar til tilkynnt var með dramatískum hætti skömmu síðar að hljómsveitin hefði lagt upp laupana. Ástæðan var sú að þeir sögðust vera algjörlega úrvinda eftir stanslausa spilamennsku, upptökur og framapot og þeir ætluðu að gefa sér góðan tíma til hvíldar og endurhæfingar. Gítarleikarinn Omar Rodriguez-Lopez sagði á heimasíðu sveitarinnar. „Við þráum bara að lifa eðlilegu lífi á ný og fá að ákveða sjálfir hvort okkur langar yfir höfuð að bardúsa í tónlist.“

Mér fannst þetta ógurlega fyndið að þessar prímadonnur skuli hafa komið með gömlu tugguna ,,við viljum ekkert vera frægir” og hætt þegar þeir voru varla byrjaðir, enda hélt ég að Relationship of command væri fyrsta plata þeirra og þeir væru ,,ný” hljómsveit. Ég frétti það síðan að þeir væru búnir að vera starfandi í sex ár og hefðu gefið út nokkuð af efni og að fyrsta platan þeirra hafi komið út 1998.

Ég vil endilega halda áfram að rembast við að finna snilldina í hljómsveitinni (ef hún er þá yfirhöfuð til staðar) og kannski getið þið hjálpað mér. Hefur einhver heyrt aðrar plötur með hljómsveitinni? Ef svo, hvernig eru þær og réttlæta þær það lof sem sveitin hefur fengið? Einnig væri fínt að vita hvort einhver hafi séð hljómsveitina live, hún átti víst að hafa verið geðveik á tónleikum. And that brings me to Sparta. Mér finnst líka fyndið að meirihluti hljómsveitarinnar hafi strax startað nýrri hljómsveit eftir allar yfirlýsingarnar um hvað þeir væru úrvinda og vissu ekki hvort þeir vildu vera í tónlist. Anyway, ef einhver var á þessum Sparta tónleikum, hvernig voru þeir og er Sparta alveg eins hljómsveit (og eins ,,góð”) og At the drive-in?