Incubus - Morning View Ný plata, Morning View, kemur út með Incubus í dag og í tilefni af því ætla ég aðeins að fjalla um hljómsveitina og nýju plötuna.

Incubus skipa þeir Brandon Boyd (söngur), Mike Einziger (gítar), Alex Katunich (bassi), Jose Pasillas (trommur) og Chris Kilmore (DJ). Brandon og Jose voru saman í grunnskóla og hittu síðan Mike í miðskóla og byrjuðu að spila saman, síðar bættist Alex í hópinn. Þeir félagar gáfu út plötuna “Fungus Amongus” árið 1995. Platan vakti töluverða athygli, meðal annars hjá DJ Lyfe sem gekk í hljómsveitina eftir að hafa hrifist af þeim á tónleikum. Þeir fengu plötusamning hjá Immortal Records og gáfu út EP plötuna “Enjoy Incubus” í janúar 1997. Þeir fóru á Evróputúr m.a. með Korn og tókst að vinna til sín marga aðdáendur, þeir gáfu síðan út plötuna S.C.I.E.N.C.E. í september 1997.

S.C.I.E.N.C.E. er alveg frábær plata, þeir sýndu á henni að þeir eru ótrúlega færir hljóðfæraleikarar og söngur Brandon Boyd á henni er óaðfinnanlegur. Platan er bæði mjög fönkuð og rokkuð, lög eins og New Skin, Redefine, Vitamin, A Certain Shade of Green og Nebula sýndu líka hversu góðir lagasmiðir þeir eru. Þessi plata er að mínu mati þeirra besta til þessa.

Í febrúar 1998 yfirgaf DJ Lyfe bandið og DJ Kilmore kom inn í staðinn. Þeir túruðu stíft og voru m.a. á Ozzfest þetta ár. Þeir komu síðan með nýja plötu í október 1999, “Make Yourself” hét gripurinn og hann kom Incubus endanlega á kortið. Pardon Me var fyrsta smáskífan og naut lagið mikilla vinsælda, Stellar fylgdi þar á eftir og var ekki síður vinsælt. Það varð hinsvegar algjör sprenging þegar þeir gáfu út ballöðuna Drive sem sló í gegn og sat á toppi vinsældalista beggja vegna atlantshafs. Þetta lag fékk mikla spilun bæði á rokk og popp útvarpsstöðum, fékk t.d. mikla spilun á FM957 hér á landi. Ég hef aldrei verið sérlega hrifinn af þessu lagi og ég tel að þetta sé frekar slæmt lag fyrir þá að slá í gegn með. Þá meina ég að það fólk sem að þekkti ekki til þeirra áður þekkir kannski bara þetta eina lag með þeim og vill heyra eitthvað svipað með þeim.

Sem leiðir mig að nýju plötunni, mig grunar að með þessari nýju plötu séu Incubus að reyna að ná til þessa fólks sem byrjaði að hlusta á þá vegna Drive, þeir sögðust ætla að gera þyngri og dekkri plötu en Make Yourself og vera nær því sem þeir voru að gera á S.C.I.E.N.C.E. en útkoman er ekkert í líkingu við það. Nýja platan er uppfull af góðum melódíum og hljóðfæraleik eins og hefur ávallt einkennt Incubus, en það er eitthvað sem vantar, krafturinn og fönkið sem var til staðar á S.C.I.E.N.C.E. er hvergi heyranlegt, ég gæfi mikið fyrir að fá að heyra bassasóló eins og í Redefine. Textarnir eru líka heldur væmnir fyrir minn smekk.

Tónlistin er að vísu ágæt, en þeir geta bara gert svo mikið betur, mér finnst eins þeir séu að útþynna tónlistina til þess að gera hana vænni fyrir þennan nýja aðdáendahóp sem þeir virðast vera að sækja í, þ.e. unglingsstúlkur, tek sem dæmi nýjasta tölublað tímaritsins Spin (spin.com), þar sem forsíðumyndin er af allri hljómsveitinni en greinin inní blaðinu fjallar eingöngu um það hvað Brandon er sætur! Það er eins og þeir séu viljandi að þróa ímynd sína í átt að boybandi.

Ekki misskilja mig þó, platan er sæmileg og vel þess virði að eiga, þeir sem byrjuðu að hlusta á Incubus útaf Drive verða örugglega mjög ánægðir með þessa plötu, ég bara bjóst við meiru af þessari frábæru hljómsveit. Ég vona bara að í framtíðinni fari þeir að spila þyngri og tilraunakenndari tónlist eins og þeir gerðu áður.

Bestu lögin á plötunni að mínu mati eru: Nice to know you, Circles, 11am, og Under my umbrella. Ef ég ætti að gefa plötunni einkunn, myndi ég gefa henni 6 af 10. Ef þið eigið enga plötu með Incubus, kaupið ykkur þá frekar S.C.I.E.N.C.E. heldur en Morning View.
jogi - smarter than the average bear