Global Battle of the Bands - Tækifæri fyrir íslenskar hljómsveitir! Sælir Hugarar!

Nú er að fara að hefjast hin árlega Global Battle of the Bands keppni, þar sem hljómsveitir geta barist sín á milli um að heilla þrjú stykki dómara, sem ætlað er að velja þá bestu til að flytja tónverk sín á alþjóðlegum grundvelli.

Keppnin hérna á Íslandi verður haldin í Hellinum, TÞM og verða keppniskvöldin 4 (15., 16., 22. og 23. nóv). Valin verður svo ein hljómsveit á hverju kvöldi og þær 4 hljómsveitir sem komast áfram munu svo spila á úrslitakvöldinu (24. nóv). Sigurhljómsveitin mun svo keppa fyrir hönd Íslands í London.

Við erum einnig að reyna að ganga frá samningsmálum varðandi verðlaun og getum vonandi boðið upp á slík á hverju keppniskvöldi. Það er þó því miður ekki alveg komið á hreint ennþá hvernig því verður háttað og engu lofað. :/ En snýst keppni ekki hvort eð er um að vera bara með og hafa gaman af, hmm?

Allir velkomnir! Þó er gerð krafa um það að hljómsveit teljist 2 eða fleiri meðlimir. Einyrkjar geta þó verið með, ef þeir finna sér einhvern til að spila með sér. (Það ætti því að segja sig sjálft að ekki er leyfilegt að spila tónlistina beint af t.d. tölvu, heldur þurfa öll hljóð að vera flutt af hljómsveitarmeðlimum sjálfum.)

Skráningin fer fram hér: http://www.gbob.com/isl/gb_bigbcal.asp

Þið veljið ykkur kvöldið sem hentar ykkur best, en athugið þó að aðeins geta 4 hljómsveitir skráð sig á hverju kvöldi. Skráningarkerfið hefur ekki þá greindarvísitölu sem þarf til þess að loka sjálfkrafa þeim kvöldum sem eru orðin full, þannig að ef svo óheppilega vill til að það verða fleiri en 4 bönd skráð á sama degi þá þarf að færa einhverja til. Við vonum að engir verði sárir eða fúlir sökum þessa, en við reynum þá að koma til móts við þá með afsökunarbeiðni eða öðru formi iðrunar.

Ég vil þó taka það fram áður en þið skráið ykkur að það kostar 20 evrur (ca. 1700 kall) á hvern meðlim að taka þátt og því þarf að gefa upp kreditkortanúmer á síðunni. Þetta gjald er ákveðið af skipuleggjendum GBOB og fer beint til þeirra. Við höfum því miður ekkert með það að segja. En ekki gleyma að það er til mikils að stefna að, enda verðlaunin fyrir sigurvegarann í London hvorki meira né minna en $100.000, sem er ca. kr. fuckoff-mikið, OG tónleikaferð um allan heim!

Nánari upplýsingar má finna á http://www.gbob.com og svo er svona handy spurt-og-svarað hérna: http://www.gbob.com/isl/gb_faq.asp

Eflaust munu vakna upp einhverjar spurningar hjá áhugasömum og geta þeir því beint þeim til hellirinn@tonaslod.is eða gbobisland@gmail.com.

Kær kveðja,
skipuleggjendur GBOB á Íslandi