Jæja!
Nú ætla ég að taka á þjóðfélagsvandamáli sem snertir okkur öll! Þetta er nokkuð sem er búið að vera naga mínu viðkvæmu sál í þónokkurn tíma og ég er orðinn þreyttur á þessu, og í stað þess að taka þessu eins og týpískur íslendingur þá ætla ég að tala máli mínu og láta þetta frá mér.

Það sem viðgengst á flestöllum útvarpsstöðvum og tónlistarsjónvarpstöðvum sem við íslendingar höfum aðgang að er fyrirbæri sem ég hef kosið að kalla Ofspilun, þetta hugtak lýsir sér þannig að lag sem þykir “heitt” og “líklegt til vinsælda” er tekið fyrir og spilað gjörsamlega út í gegn þangað til að það hefur ekki neina úrkosti aðra en að toppa vinsældalistann og verða þar með “hit-ari”.

Það sem fer sérstaklega í taugarnar á mér varðandi þetta eru lög sem að ég hef kannski heyrt nokkrum sinnum og líst alveg ágætlega á verða “heit”, þá vill oft til að maður fái fljótlega leið á þeim (það er að segja, ef lagið þolir ekki mikla spilun), en þótt svo að lagið verði þreytt þá virðist sem dagskrárgerðarmenn viðkomandi fjölmiðla geri sér ekki grein fyrir því að lagið er “úti” og er ekki lengur “heitt”, þeir halda áfram að spila það með þeim afleiðingum að það fer að rísa ofar á vinsældarlistum viðkomandi fjölmiðils, þetta vill oft gera það að verkum að þegar eitthvað lag er komið í toppsætið þá eru flestir orðnir svo gríðarlega þreyttir á því að þeir skipta um stöð þegar þeir heyra það.

Ef þetta eru fýsilegir eiginleikar fyrir lag sem vermir toppsætið, að fólk sé orðið þreytt á því og hreinlega skipti um stöð, þá er ég ekki alveg að skilja kerfið sem þessir “vinsældarlistar” vinna eftir.

Ég hef alveg ótal dæmi um lög sem hafa virkað alveg ágætlega á mig í byrjun, en lent í því að verða “nauðgað” og ekki höfðað jafn vel til mín eftir það. Það sem dagskrárgerðarmenn gætu kannski tileinkað sér væri að taka fyrir meiri fjölda laga í einu og dreifa þannig álaginu á fleiri lög. Þetta gæti gert það að verkum að fjölmiðlarnir gætu komið fleiri lögum að (Því oft verða hreinar gersemar útundan) og lögin myndu þreytast hægar eða jafnvel ekki neitt.

Ég veit það líka að eftirspurn eftir lögum er oft mikil þegar þau eru “heit”, en til hvers eru smáskífur? Til þess að gefa forsmekkinn af því sem á að koma! Það er kannski ráðlegra ef maður heyrir gott lag að kynna sér hljómsveitina betur og athuga hvort að diskurinn sem lagið er af höfði til manns OG VERSLA HANN ÞÁ.

Hættum að ofspila lög!

- Pixie

P.S. Ég veit að einhver á eftir að segja að ég “hlusti of mikið á útvarp” eða eitthvað þvíumlíkt. Ég hlusta ekki mikið á útvarp, bara svona í meðallagi samt sem áður finn ég fyrir þessu, Guð hjálpi þeim sem hlusta mikið á útvarp!

P.P.S. Mig langar líka að taka það fram að gagnvirkt útvarp líkt og muzik.is er nokkuð sem vinnur gegn þessari þróun, það er reyndar ekkert gífurlegt lagaval eins og er en stöðin er að vaxa… þetta lofar góðu!

P.P.P.S. Þessi grein er skrifuð með hálf-alvarlegum blæ, þannig að sparið stóru orðin á mig :)