Hullabaloo Soundtrack Hullabaloo
Tvöfalda geislaplatan Hullabaloo kom út árið 2002 í Bretlandi, og inniheldur 10 B-Sides lög, ásamt 11 lögum af tónleikum sem höfðu verið teknir upp í Le Zenith í París árið 2001. DVD diskur með tónleikunum fylgdi í kjölfarið, einnig undir nafninu Hullabaloo. DVD diskurinn inniheldur alla tónleikana sem Muse spiluðu til að fylgja á eftir Origin of Symmetry, sem kom út sama ár og þegar tónleikarnir voru teknir upp. John Leckie framleiddi einnig þessa plötu, en hann stýrði upptökum og framleiddi fyrri plötur Muse, Showbiz og Origin of Symmetry.


Ég hef alltaf talið Hullabaloo með, sem þriðju breiðskífu Muse. Þess vegna segi ég alltaf að Muse hafi gefið út 5 plötur, þegar einhver spyr mig. Flestir eru hinsvegar ósammála þessu, og telja þessa plötu ekki með sem breiðskífu.
Hullabaloo var síðasta platan sem ég fékk með Muse, þegar Black Holes and Revelations var ekki komin út. Ég fann hana aldrei í geisladiskabúðum á Íslandi þó að ég hafi leitað og leitað. Að lokum fékk ég hana frá útlöndum, og þá loksins fór ég að sjá hana í búðum hérlendis. Pirrandi. Þegar ég hlustaði á hana fyrst fannst mér hún ekkert sérstök, og hún datt beint niður í næstneðsta sæti yfir bestu plötur Muse (þá var ég ekki búinn að læra að meta Origin of Symmetry).

Eftir nokkrar hlustanir fann ég tvö lög sem komust tvímælalaust inná topp 10 yfir uppáhalds Muse lögin mín, annað lagið er jafnvel besta lag sem ég hef heyrt með Muse. Eftir þetta fékk ég meira álit á plötunni, og fór að hlusta á hana með opnum huga. Mér hefur samt alltaf fundist hún vera versta plata Muse eftir að ég uppgötvaði að Origin of Symmetry var frábær, og sú skoðun stendur!

Hvað varðar tónleikahliðina, þá hef ég aldrei fílað að hlusta á tónleikaupptökur, miklu skemmtilegra að vera bara á staðnum sjálfur. Upptökur af tónleikum hljóma alltaf eins og ókláruð lög í mínum eyrum. Þó eru einstök tilvik þar sem að tónleikaútgáfur af lögum eru jafnvel betri en venjulegar. Allir Pulse tónleikarnir eru t.d. dæmi um það. Nokkur lög af þessum tónleikum eru líka dæmi um það. Þá má sérstaklega nefna Citizen Erased, sem er geðveikt á þessum tónleikum, og Dark Shines er einnig frábært. Ég ætla samt ekki að gagnrýna tónleikana í þessari grein, bara B-Hliðarnar.

1. Forced In
Enn og aftur velja Muse frábæra byrjun. Þetta lag er með þeim betri á plötunni. Matt syngur í falsettu (eins og oft áður), og nær einstaklega flottum hljómi. Gítarriffið sem hljómar í laginu er einnig mjög flott.
9/10

2. Shrinking Universe
Einstaklega flott viðlag í þessu lagi, annað er ágætt. Ég er ekki að fíla millikaflann í þessu lagi, breytist einhvernvegin of snöggt. Fínasta lag, en ef ég er ekki í góðu skapi skipti ég yfir það.
7/10

3. Recess
Virkilega leiðinlegt og dautt lag. Sólóið á annarri mínútu og tíundu sekúndu er mjög flott, en jafnvel eini flotti parturinn í laginu. Leiðinleg laglína, leiðinlegt teknó riff, næstum allt leiðinlegt við þetta lag.
2/10

4. Yes Please
Einstaklega skemmtilegt lag, eitt besta lag plötunnar. Frábært og hresst bassariff út allt lagið. Elska þegar lagið byrjar á hlátri frá Matt, síðan segir hann “Yes Please” og þá “springur” allt. Frábært lag!
10/10

5. Map of Your Head
Ekta Muse lag, hef ekki hugmynd um hvað það er að gera á B-Hliða plötu. Viðlagið er frábært, og textinn líka. Skemmtilegt kassagítarspil í þessu lagi. Hef ekkert mikið meira að segja um það annað en: Frábært lag.
9,5/10

6. Nature 1
Ég varð hálf hissa þegar ég heyrði þetta lag. Alls ekki Muse stíll. Byrjar á Flamingo stíl, og svo breytist það snögglega yfir í einhvernvegin Popp Rokk lag. Virkilega skrýtið. Nokkuð flott samt. Mér finnst samt að ég hafi heyrt svona Flamingo áður með öðrum böndum, í auglýsingum, eða í bíómyndum?
7,5/10

7. Shine Acoustic
Ég hef aldrei hlustað neitt mikið á þetta lag, annars er það mjög flott. Býsna rólegt lag, líklega mesta ballaðan á plötunni. Rosalega flott laglína í þessu lagi, “humma” hana stundum þegar ég er annars hugar. Rigningin í endanum er mjög flott. Mæli virkilega með þessu lagi.
9/10

8. Ashamed
Virkar dálítið eins og Yes Please. Virkilega hress bassalína frá Chris, Dom virkilega að finna sig í trommuslættinum, og Matt syngur í falsettu. Eini gallinn er að þetta lag er ekki næstum því eins gott og Yes Please. Fínasta lag þrátt fyrir það.
8,5/10

9. Gallery
Mjög flott lag. Píanóið er frábært í þessu lagi. Lagið er allt instrumental, og nokkuð myrkt. Það er voðalega skrýtin tilfinning að vera inní dimmu herbergi að nóttu til, með dregið fyrir alla glugga, lokaða hurð, og engin ljós kveikt, setja þennan disk í græjurnar, leggjast niður og hlusta á þetta lag.
9/10

10. Hyper Chondriac Music
Ég hef ekki hugmynd um hvernig það kom til að Muse gerðu þetta lag. Hvort að lagið hafi átt að vera svona upprunalega? Hvort að þetta sé bara Rippoff af upprunalega Hyper Music, sem að hefur orðið svo vinsælt að Muse ákváðu að reyna að gefa það út aftur í annarri útgáfu. Ófyrirgefanlegt í sumum tilvikum. Þetta er hins vegar algjörlega fyrirgefanlegt í þessu tilviki. Hyper Chondriac Music er eitt myrkasta, flottasta, og besta lag sem að Muse hafa sent frá sér! Ég get hlustað á það 50 sinnum í röð án þess að þreytast á því, og jafnvel þykir mér það bara betra og betra í hvert skipti sem ég hlusta á það. Alltaf þegar ég hlusta á það tengi ég það við rigningu og einhverskonar slys, þegar sírenurnar koma inní lagið. Ég fæ alltaf gæsahúð þegar ég hlusta á þetta lag, alltaf! Ég gæti haldið áfram að tala um hversu gott þetta lag er, endalaust! Langbesta lag Hullabaloo, eitt besta (ef ekki besta) lag Muse, og besti endir sem hægt er að hugsa sér á þessari plötu…!
10/10

Bestu lög: Hyper Chondriac Music, Yes Please.
Næstbest: Map of Your Head, Gallery, Shine Acoustic.


Þrátt fyrir að vera versta plata Muse, er þetta frábær plata, og algjörlega þess virði að eignast hana. Í heild fær hún 8/10!