Muse - Origin of Symmetry Þessi grein verður í stíl við Showbiz greinina mína sem ég sendi inn 4. júlí 2006. Fyrst skrifa ég um plötuna, síðan skrifa ég það sem mér finnst um hana, og að lokum skrifa ég um hvert lag fyrir sig!

Origin of Symmetry
Origin of Symmetry er önnur plata hljómsveitarinnar Muse. Hún kom út árið 2001 í Bretlandi, en var ekki gefin út fyrr en árið 2005 í Bandaríkjunum. Upptökustjóri var John Leckie, sá sami og stýrði upptökunum á fyrstu plötu þeirra, Showbiz. Á Origin of Symmetry byrjuðu Muse að þróa hljóm sinn, og gera mun þyngri og myrkari lög. Þeir gerðu einnig margar tilraunir með hljóðfæri, t.d. spilaði Matthew Bellamy, söngvari, gítarleikari og píanóleikari sveitarinnar, á pípuorgel í síðasta lagi plötunnar, Megalomania. Chris Wolstenholme lét einnig meira í sér heyra á þessari plötu, með mun þyngri og flottari bassaleik, og trommuleikarinn Domonic Howard bætti fullt af hlutum við trommusettið sitt. Smáskífur þessarar plötu eru: Bliss, Plug in Baby, Hyper Music, Feeling Good og New Born!


Þegar ég fékk þessa plötu fyrst fannst mér þetta langversta platan með Muse. Þá átti ég fyrir Showbiz, og Absolution. Ég held að þetta hafi verið svona, af því að ég gaf henni aldrei séns. Ég hlustaði alltaf á byrjunina á lögunum og skipti síðan á næsta lag. Ástæðan var líklega sú að hann er svo voðalega ólíkur öllu öðru sem ég hafði hlustað á. Origin of Symmetry var svo ótrúlega ólíkur öllu því sem mér fannst gott með Muse, og öllu sem ég þekkti, að ég gaf honum bara aldrei séns. En þegar ég hlustaði á hann allan í fyrsta skiptið, elskaði ég hann gjörsamlega, og síðan þá hefur hann verið einn uppáhaldsdiskurinn minn, og sá langbesti með Muse!

Ástæðurnar fyrir því að hann sé uppáhaldsdiskurinn minn með Muse eru nokkrar. Í fyrsta lagi er ekkert einasta lag á honum lélegt, og ekkert sem ég get gefið einkunn fyrir neðan 8/10. Það er það sem þarf til að gera góðan disk. Í öðru lagi láta Dom og Chris miklu meira í sér heyra heldur en á Showbiz, sem er auðvitað miklu skemmtilegra. Í þriðja lagi eru flestir textarnir ótrúlega góðir, sérstaklega í laginu Space Dementia. Helsta ástæðan er bara einfaldlega sú, að tónlistin er miklu betri á þessari plötu, heldur en á nokkurri annarri plötu með Muse. Laglínurnar, sólóin, hljóðfærin, effectarnir, allt! Ég elska, gjörsamlega elska þessa plötu!!!

1. New Born
Geðveikt lag, flott byrjun, og ég elska bassasólóið sem kemur eftir fyrsta erindið. Það er allt fullkomið við þetta lag. Hin eina og sanna byrjun á frábærri plötu!
10/10

2. Bliss
Frábært lag, ekki jafn gott og New Born samt. Viðlagið í þessu lagi er helsti gallinn, annars er þetta lag massíft! Þetta lag er samt mjög ólíkt öðrum lögum plötunnar, á það sameiginlegt með Hyper Music, að vera ekkert sérstaklega myrkt. Matthew Bellamy hefur meðal annars sagt að Bliss sé eitt uppáhaldslagið hans: “because it's got all these eighties arpeggios and keyboards on it which remind me of some music I heard on some children’s music programme when I was five. I think I ripped it off that. And that reminds me of when I was a bit simpler, a bit more of a pleasant state.” (tekið af Wikipedia)
9/10

3. Space Dementia
10, ef ekki 20 stjörnu lag! Eitt besta lagið á plötunni! Textinn í þessu lagi er snilld, og píanóglamrið hans Matt’s í byrjuninni er frábært! Endirinn á laginu er jafnframt ótrúlega flottur!
10/10

4. Hyper Music
Voðalega skrýtið og flott lag! Það byrjar á öskrum frá Matt, og mjög skemmtilegri bassalínu frá Chris, og síðan byrjar Matt að syngja. Jahá, hann byrjar að syngja. Ég fæ alltaf gæsahúð þegar hann byrjar að syngja í þessu lagi, ég veit ekki afhverju. Á b-hliða plötunni Hullabaloo er lag sem er byggt á þessu lagi og heitir “Hyper Chondriac Music.” Það lag er SNILLD, eitt langbesta og myrkasta lagið með Muse að mínu mati. En fyrst ég er að tala um þetta lag, þá er það einnig mjög flott!
8,5/10

5. Plug in Baby
Með slakari lögum á plötunni, en samt er þetta lag frábært. Viðlagið er geðveikt, en ég er ekki að fíla laglínuna í erindunum. Samt er þetta lag alveg frábært…
8/10

6. Citizen Erased
Þetta lag er eitt af mínum uppáhaldslögum með Muse almennt. Allt í þessu lagi er SNILLD! Viðlagið, erindin, textinn, sólóið, bassalínan, ALLT! Ég elska þegar þetta lag breytist úr myrku rokklagi yfir í rólegheitalag, aftur úr rólegheitalagi yfir í myrkt rokklag, og síðan aftur í rólegheitalag. Ég elska sérstaklega byrjunarlínuna í þessu lagi, og endirinn er frábær líka. Snilldar lag…
10/10

7. Micro Cuts
Micro Cuts er ekki beint besta lag plötunnar, en frábært er það þó. Matt syngur í einhvers konar falsettu (heyrist mér) eins og í mörgum lögum, og það kemur bara ágætlega út. Flott lag, en það tók mig samt þónokkuð margar hlustanir til að geta fílað það.
9/10

8. Screenager
Með bestu lögum plötunnar. Ótrúlega myrkt og flott lag, sérstaklega trommurnar með dósahljóðin. Viðlagið er ekkert sérstakt, en allt hitt er ótrúlega flott. Það kemst mjög nálægt því að fá 10 í einkunn, en viðlagið gerði útslagið.
9,7/10

9. Darkshines
Frábært lag! Ég var mjög vanur að skipta yfir þetta lag einu sinni, af því að byrjunin er svo leiðinleg, en svo hlustaði ég á það allt og fannst það snilld. Viðlagið er með flottustu viðlögum á plötunni, ótrúlega flott. Geðveikt lag, fyrir utan byrjunina.
9,5/10

10. Feeling Good
Þá er komið að því, langflottasta lagið á allri plötunni. Hvílík snilld! Lagið er cover af lagi eftir Anthony Newley og Leslie Brickusse, sem kom í söngleiknum “The Roar of the Greasepaint—the Smell of the Crowd”. Ég elska þetta lag, hlusta alltaf á það að minnsta kosti þrisvar þegar ég kem að því. Það er allt flott í þessu lagi. Matthew syngur í falsettu eins og svo oft áður, og það kemur ótrúlega vel út að þessu sinni. Þetta lag er mjög mikið “Crescendo” lag, byrjar rólega, en verður svo miklu þyngra. Besta lagið á allri plötunni!
10/10

11. Megalomania
Alltaf þegar ég heyri byrjunina á þessu lagi fer ég að hugsa um Egyptaland og Pýramída, ég hef ekki hugmynd um af hverju. Sú hugsun hverfur strax í viðlaginu, þegar Matt byrjar að spila á pípuorgel. Frábær endir á frábærri plötu!
9,5/10

Bestu lög: Feeling Good, Citizen Erased, Space Dementia, New Born.
Næstbest: Darkshines, Screenager, Megalomania


Í heild fær diskurinn auðvitað 10/10. Langbesti diskurinn með Muse, og skildueign fyrir alla aðdáendur hljómsveitarinnar!