U2 við Slane Kastala Írlandi Ég var ein af þeim heppnu 80.000 sem náðu sér í miða á U2 tónleikana við Slane kastala rétt fyrir utan Dublin laugardaginn 25.ágúst 2001.
Þetta er dagur sem ég er búin að bíða eftir síðan ég var 10 ára gömul og sat dáleidd fyrir framan sjónvarpið og horfði á videoið frá Under a blood red sky tónleikunum þeirra.
Og þetta var dagur sem ég mun aldrei gleyma.

Þetta var heitur og sólríkur dagur, hátíðin byrjaði um hádegi og hver hljómsveitin á fætur annarri steig á stokk : Relish, JJ72, Kelis, Coldplay, og Red Hot Chili Peppers.

Hópurinn minn náði sæti á besta stað, rétt undir VIP sætunum,
í lítilli grashlíð ca 100-200 m hægra megin við sviðið.
Þar gátum við chillað allan daginn í sólinni í rólegheitunum
og séð allt sem fram fór á sviðinu án þess að þurfa að kíkja á stóru skjáina frekar en við vildum.

Andrúmsloftið var rafmagnað síðustu mínúturnar áður en U2 komu á sviðið og í hátölurunum var verið að spila Thin Lizzy's The Boys Are Back In Town and Bítlalagið Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band.
Fólk í hlíðinni í kringum okkur vissi ekki hvort þeir ættu að horfa á sviðið eða á VIP svæðið því rúmorar voru komnir upp að Bono hefði sést á VIP svæðinu meðan Red Hot Chilli Peppers voru að spila.
Og nóg var af öðrum stjörnum þar til að reyna að sjá því formúlukapparnir Eddie Irvine and David Coulthard, súpermódelið Naomi Campbell og söngkonan Natalie Imbruglia voru meðal heiðursgesta.

Upp úr Kl 20:00 fóru svo kunnulegir tónar Elevation að heyrast og meðlimir U2 gengu fram á sviðið og hópurinn trylltist.
Ég var mjög hissa á sjálfri mér að halda ró minni -
eftir öll þessi ár af eftirvæntingu hefði ég alveg eins búist við að það hefði liðið yfir mig.
En þa gerðist ekki og ég bara hoppaði og skoppaði syngjandi með eins og allir hinir 79.999 aðdáendurnir.

Það var ákveðin sorg yfir þessum tónleikum, því faðir Bono hafði dáið úr krabbameini í vikunni og var jarðaður daginn fyrir tónleikana.
Bono tileinkaði tónleikana honum og þakkaði guði fyrir að hafa tekið hann í burtu frá veikindum sínum.
Hann talaði um að hann hefði haldið að hann hefði verið að semja lagið Kite frá sér til barnanna sinna
en hann sæi nú að hann hefði verið að semja það frá föður sínum til sín og bróður síns.
Svo söng hann þetta fallega lag með brostinni röddu og allur hópurinn var gráti nær.

Lögin sem spiluð voru voru þessi - í þessari röð :
Elevation, Beautiful Day, Until the End of the World, New Year's Day, Kite, A Sort of Homecoming,
I Will Follow, Sunday Bloody Sunday, Wake Up Dead Man, Stuck in a Moment, In A Little While,
Dancing in the Moonlight, Desire, Staring at the Sun, Bad / Yellow / 40, Where the Streets Have No Name,
Mysterious Ways, Pride, Bullet the Blue Sky, With or Without You, One, Walk On / Hallelujah.

Meðan One var spilað birtust myndir af föður Bono á skjánum
og Bono talaði um hve góður gæi faðir hans hefði verið og að “Drop the depts” hefði verið hans hugsjón sem yrði haldið áfram í minningu hans.

Tónleikunum lauk um 22:30 með virkilega glæsilegri flugeldasýningu
og þessum tugum þúsunda manns var stýrt í rólegheitum út af svæðinum.
Ég hefði aldrei trúað því hvað það gekk vel og það var stórkostleg sjón að sjá þessar endalausu raðir af fólki renna áfram á ágætis hraða eins og ekkert væri eðlilegara.
Það var enginn troðningur og ekkert vesen.

Nú var komið að erfiða hluta dagsins. Það var að ganga aftur að rútunni okkar.
Vegna þess að þetta voru svona stórir tónleikar og upp í sveit þá var aðstaða fyrir rútur engin, en hinsvegar komu ALLIR í rútum. Svo það voru fleiri fleiri kílómetrar af rútum parkeðarar upp við þjóðveginn og við þurftum að gera svo vel að ganga eftir honum þar til við fyndum okkar rútu.
Í mínu tilviki var það 2 klst ganga og lappirnar mínar (sem eru hálfgerðir aumingjar) eru enn að jafna sig.

En þetta var vel þess virði - allt í kringum þetta var hreinasta snilld og mér skilst að U2 hafi ALDREI verið betri !

Þetta var “Beautiful Day” og ÉG VAR ÞAR !!!!