Liars - Drum's Not Dead Þessi grein birtist líka á www.poppkorn.tk sem er ný tónlistarsíða sem að ég og fleiri stofnuðum fyrir viku, erum komin með 10-12 penna sem að munu vera duglegir að skrifa þarna inn plötudóma, umfjallanir um hljómsveitir/tónlistarmenn, tónleikaumfjallanir og fleira skemmtilegt.
Við erum öll 14-16 ára.

Mæli með því að þið kíkið reglulega við á www.poppkorn.tk




Liars
Drum's Not Dead
Mute
2006

50%/100% - „Tónlist Liars er greinilega ekki allra, allavega ekkert fyrir mig”

Hljómsveitin Liars er þriggja manna hljómsveit sem að starfar núna í Berlín og hefur verið þar síðan árið 2004. Þeir byrjuðu sem pönk-dansband í New York árið 2000, þá voru meðlimirnir fjórir og gáfu þeir út eina plötu í þeim stíl. Á næstu plötu tók annað við eftir að tveir meðlimir höfðu hætt í sveitinni til að sinna annarri vinnu, þeir gerðu draumkennda söguplötu í post-rokk stíl sem að var frekar umdeild og fékk meðal annars lægstu mögulegu einkunn í Rolling Stone Magazine. Geri aðrir betur. Platan var þar sögð leggja meiri áherslu á að segja ævintýrið, sem að þótti ekki spennandi, en að gera góða tónlist. Þriðja plata þeirra, sem að ég ætla að skrifa um núna heitir Drum's Not Dead og var gefin út þann 20. febrúar á þessu ári og hefur fengið prýðisgóða dóma á þeim tónlistarnetmiðlum sem að ég skoða mest, Pitchfork, Drowned In Sound og Stylus Magazine. Ég ákvað því að tékka á plötunni og heyra sjálfur hvað væri svona heillandi við hana.

Fyrsta hlustun var hræðileg. Ég hlustaði á helminginn og síðan þoldi ég ekki meira, var kominn með helvíti mikinn höfuðverk vegna hávaðans og allra framandi hljóðanna sem streymdu úr hátölurunum. Frumbyggjatrommur og ýmis hljóðfæri sem að eru notuð til að skemmta fólkinu í auðnum Ástralíu eru áberandi, þá sérstaklega í lögunum sem innihalda orðið ‘drum’ í titlinum. Platan virðist vera á einverskonar söguformi og snúast um tvo karaktera, Drum (sem á víst að tákna ákveðni og árásargirni á einhvern hátt) og Mt. Heart Attack (sem á að tákna óvissu um sjálfan sig og lítið sjálfstraust). Ég skil nú samt ekkert um hvað söngvarinn er að fjalla, varla að ég skilji hvað hann segi. Angus Andrews, söngvari Liars, nefnilega ‘hummar’ eins og Thom Yorke, söngvari Radiohead gerir stundum. Málið er bara að þetta ‘humm’ hans er ekkert virka eins og það gerir hjá Thom. Hann gæti allt eins verið að tala japönsku eða jafnvel vonlensku þeirra Sigur Rósar pilta í mín eyru og þau textabrot sem ég get greint eru óskiljanleg, eitthvað þvaður um stjörnur, tungl og álíka fyrirbæri.

Lögin sem að fjalla um Mt. Heart Attack “karakterinn” eru þau skástu á plötunni og að mestu laus við bongótrommurnar sem eru svo sannarlega ekki minn tebolli. Lagið „The Wrong Coat For You Mt. Heart Attack” er virkilega fallegt og á köflum dáleiðandi, klárlega besta lag plötunnar. Einnig er lagið “Drum Gets a Glimpse” ágætt sem og „I Fit When I Was a Kid”. Þessi lög eiga það sameiginlegt að vera að mestu laus við leiðinlega, hausverkjarvaldandi trommukafla þar sem að allt verður brjálað og maður fær skyndilega löngun til þess að stökkva út um gluggann. Í þessum lögum leynast þó líka gullin augnablik þar sem að gítarinn spilar fallegar, einfaldar nótur með þessu hráa frumskógarhljóði sem að einkennir gítarinn alla plötuna í gegn.

Lygararnir eru mikið fyrir að gera tilraunir eins og heyrist í laginu t.d. „It's All Blooming Now Mt. Heart Attack”. Þar er bassinn virkilega kraftmikill og er aðalhljóðfærið í laginu. Hann kemur nístandi eins og elding um líkama manns, hárin rísa og gæsahúð magnast aftan á hálsinum og þetta lag byggir skemmtilega upp fyrir „Drum and the Uncomfortable Can” sem nær síðan ekki að fylgja þessari skemmtilegu uppbyggingu eftir og er samansafn af hávaða sem er pakkað í fimm mínútna eyrnaverk.

Söngrödd Angus Andrews er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Þegar hann er að söngla/humma þá hljómar hann ágætlega en þá skilur maður heldur ekkert hvað hann er að segja. Hann hljómar eins og Thom Yorke í læknisskoðun að segja “aaa” með ísprik í kjaftinum. Þegar hann hinsvegar ákveður að rífa sig upp úr sönglinu þá kemur rám rödd sem að höfðar hreint ekki til mín. Ástralskur hreimurinn (ó, já ég gleymdi að minnast á það, Angus er Ástrali) er áberandi og röddin hans er bara ekki alveg nógu góð. Myndi gefa henni svona þrjá og hálfan af tíu.

Liars líkjast Radiohead töluvert, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað. Það er ekki bara sönglið í Angusi sem að minnir mig svona á Radiohead, heldur líka gítarleikurinn og trommuleikurinn (ekki frumbyggjatrommurnar!) á þessari plötu sem að minna mig mikið á þá, sérstaklega á plöturnar Kid A og Amnesiac sem að ég er mjög hrifinn af. Þó eru lagasmíðar Liars hvergi nærri jafn spennandi og hjá Thom Yorke og félögum.

Tónlist Liars er greinilega ekki allra, allavega ekkert fyrir mig. Þessa plötu á ég ekki eftir að hlusta mikið á, en kannski lagið „The Wrong Coat For You Mt. Heart Attack” fari inn á einhverja iTunes playlista, hver veit?