Editors - The Back Room [2005] Editors
The Back Room
Kitchenware UK
2005


3,5 af 5,0 - Gott stöff, eitthvað sem maður þarf að eiga ef maður er líklegur til að setja Interpol eða annað svipað á fóninn.

-

Hljómsveitin Editors

Editors er hljómsveit frá Birmingham á Englandi sem að er að gera það gott í mínum græjum þessa dagana.
Meðlimirnir eru fjórir og hittust fyrst í Háskólanum í Stafford og stofnuðu hljómsveitina þar en fluttust svo til Birmingham og byrjuðu að reyna fyrir sér þar. Þeir var síðan boðinn plötusamningur í lok ársins 2004 af nokkrum útgáfum og ákváðu að semja við Kitchenwork, sjálfstætt lítið útgáfufyrirtæki í Birmingham, frekar en Sony Music til að geta ráðið fullkomlega hvernig útgáfan á efni þeirra færi fram. Í Janúar 2005 kom síðan út smáskífan “Bullets” og þá fóru hjólin að snúast fyrir þessa drengi. Fóru í túr eftir hana um allt Bretaveldi og eitthvað svona skemmtilegt. Síðan kom þessi plata, The Back Room út í Júlí og fékk víðast hvar góðar viðtökur almennings sem og gagnrýnenda. Reyndar hefur þessi hljómsveit ekki náð neinum mainstream vinsældum enn það er víst allt að gerast núna, nýjasta smáskífan “Munich” komst í topp 20 á breska smáskífulistanum og einnig á að gefa plötuna út í Bandaríkjunum í Febrúar.

The Back Room


Platan sjálf inniheldur 11 lög er 43 mínútur í spilun. Helstu einkenni hennar eru háir gítartónar og virðist gítarleikari hljómsveitarinnar vera undir miklum áhrifum gítarleikara U2, The Edge, eins og má heyra í byrjuninni á Bullets. Á móti þessum hátónaða gítarleik kemur síðan dáleiðandi djúp söngrödd sem að minnir um margt á Ian Curtis, fyrrum söngvara Joy Division. Tom Smith syngur eins og engill frá helvíti.

Mörg lög á þessari plötu eru allsvakalega grípandi og get ég trúað því að hún muni verða ansi lengi í spilun hjá mér. Ég er allavega ekki búinn að fá leið á laginu Munich þrátt fyrir 30 spilanir á tveim dögum enda er það lag engin smá sprengja og gítarhljómurinn alveg æðislegur.

Ég nota eiginlega allt of mikið af lýsingarorðum við að lýsa þessari plötu, enn ég get ekkert að því gert. Mér finnst hún bara svo frábær, æðisleg, mögnuð, hress, fersk, nett, geðveik og ýmislegt fleira rosalega jákvætt.

Mörg lögin eru í sama stíl og Munich, sama hátónaða riffið endurtekið aftur og aftur og tempóið vel hátt allt lagið. Þau lög eru klárlega öflugustu lög plötunnar og þá helst Bullets, All Sparks, Blood og áðurnefnt Munich.
Hljómur sveitarinnar er frekar dimmur og textarnir eitthvað á svipuðum nótum þó að ég hafi ekki gefið mér tíma til að spá í þeim. Ég heyri líka bara oftast nótur fram yfir texta og í þessu tilviki er það bara gott og blessað held ég enda textarnir örugglega ekki nein listaverk.

Á plötunni eru líka nokkur róleg lög, Fall, Camera, Open Your Arms og Distance eru allt ágætis lög enn þó liggur styrkur Editors drengja í hröðu lögunum þó að Fall sé reyndar mjög vel heppnað.

Trommuleikurinn á plötunni er svipað uppbyggður og maður hefur heyrt hjá Franz Ferdinand, sem er ekki slæmur hlutur enda er Paul Thomson maður sem að kann sitt fag. Bassaleikarinn er líka greinilega mjög hæfileikaríkur og þegar ég fer að hugsa sérstaklega út í það þá er bassaleikurinn stór partur af því sem að mér finnst flott við þessa plötu.

Þessi plata hljómar betur og betur með hverri hlustun og mæli ég með því að allir tékki á henni enda mjög ferskt efni hér á ferð.