The Strokes - First Impressions of Earth [2006] The Strokes
First Impressions of Earth
BMG Music
2006


4,0 af 5,0 - Mjög góð plata sem að enginn á að láta framhjá sér fara.

-

The Strokes, The Strokes, The Strokes!

Sumar hljómsveitir hafa einstakt grúv og sérstakt hljóð sem að aðskilur þær frá öllum öðrum, The Strokes er ein af þeim. Man þegar ég heyrði fyrst í þeim, fyrir örugglega tveim eða þrem árum síðan. Þá sá ég myndbandið við hið stórgóða Reptilia af plötunni Room On Fire. Þá var ég voða harður gaur með hár niður á axlir sem hlustaði bara á Metallica, Iron Maiden og Pantera. Já það var geðveikt gaman að vera 11-12 ára. En hvað um það, ég heillaðist undir eins af yndislega svölum hljómi þessarar hljómsveitar og skundaði strax sama dag í næstu plötuverslun og keypti mér Room On Fire. Skemmtilegasti diskur sem ég hafði heyrt, þangað til að ég splæsti í Is This It?, nokkrum vikum seinna. Ójá þetta var nú voða gaman. Hef hlustað nokkuð oft á þessa diska síðan og þeir eru bara eins og vín og ostar og nokkrar tegundir af gosdrykkjum, verða betri með tímanum.

Ég held að svo verði líka með First Impressions of Earth. Örugglega ekki margir sammála mér með það, þar sem að hérna bregða Julian Casablancas og félagar sér í netta u-beygju, útaf sínum einkennandi hljómi og inní eitthvað annað og nýtt.
Mér finnst það gott, ætli ég sé ekki einn af fáum með þá skoðun. Ég hefði allavega ekki orðið sáttur ef að þessi plata hefði verið tilraun til að reyna að toppa fyrri plötur þeirra með því að halda sama hljóminum áfram. Sú tilraun hefði líka líklegast orðið arfaslök, því að hjólið verður bara fundið upp einu sinni eins og einhver gáfaður maður sagði.

Hljómur þessarar plötu er harðari, gítarhljóðið allt annað en fólk á að venjast af The Strokes. Bassaleikur er líka sterkari í lögum eins og Juicebox og fleirum. Trommuslátturinn mætti stundum beinast meira að snerlinum frekar enn tom tom trommunum, sérstaklega er það áberandi í laginu Killing Lies, sem að er einmitt að mínu mati slakasta lag plötunnar. Öll hin sitja föst í hausnum á mér eins og harðar hægðir í endaþarminum á manni með hægðateppu, og viti menn; mér finnst það æðislegt!

Söngurinn Julian á þessari plötu er til fyrirmyndar á flestum stöðum, elska þessa drafandi rödd hans sem að er svo oft alveg á mörkunum að vera fölsk. Gaman að heyra í henni skýrar og betur enn á fyrri plötum Strokes kappa.

Platan byrjar á góðu tempói og fyrstu sex lögin eru hress og upplífgandi dansslagarar. Sérstaklega eru You Only Live Once, Heart In A Cage og Vision of Division hress og nett. Síðan kemur lagið Ask Me Anything sem að menn hafa greinilega mjög skiptar skoðanir um, hef séð menn segja að það sé meingallað og kolþroskaheft og ég hef líka séð fólk segja að það sé besta lag plötunnar. Mér finnst það snilld. Þarna er notað svokallað mellotron (íslenskað af mér; mellótrónn, eða hvað?) og rödd Julian fær að njóta sín vel.

Eftir það kemur lagið Electricityscape, sem að mér finnst skemmtilegt og þá sérstaklega gítarriffið voða hart og flott. Vá hvað ég er harður gaur að fíla svona hörð gítarriff. Bongótrommurnar eru hinsvegar ekki að gera sig.

Restin af plötunni er í ljúfari kantinum, ef að svo má segja. Keyrslan er minni og oft koma hljóðlátir kaflar þar sem að Julian reynir eitthvað nýtt með röddinni, þó að hann eigi stundum erfitt með háu tónana eins og í laginu 15 Minutes. Langar eiginlega ekkert að heyra það á tónleikum, efast um að hann ráði við það fyrir utan stúdíóið.

Lokaniðurstaða mín um þessa plötu er að hún er mjög góð til að skella á fóninn við öll tækifæri og ef að hún væri tveim lögum styttri og innihéldi aðeins meira klapp í staðinn fyrir bongótrommur þá væri þetta sannkölluð fimm stjörnu eðalplata.


-

Vona að þið hafið haft gaman að því að lesa þetta, ég hafði allavega gaman af því að skrifa þetta.

Áfram Höttur.