Benjamin Gibbard - Andrew Kenny - Home, Vol 5. [EP]

Þessi litla og skemmtilega EP plata er hluti af Home plötu-seríunni. Home diskarnir eru þannig að það koma saman tveir tónlistarmenn og taka upp nokkura laga disk saman. Þema diskanna er eins og nafnið gefur til kynna: home (heimili fyrir þá sem ekki skilja…ha…ha). Sem dæmi get ég nefnt að Conor Oberst úr Bright Eyes gerði einn diskinn ásamt Britt Daniel úr Spoon. Oftast koma flytjendurnir úr mismunandi hljómsveitum og í þetta skiptið eru það:

1) Benjamin Gibbard, betur þekktur undir nafninu Ben Gibbard. Hann hefur gert það gott sem forsprakki indie-pop sveitarinnar Death Cab For Cutie. Hann er einnig meðlimur í The Postal Service.

2) Andrew Kenny en hann er í hljómsveitinni The American Analog Set.

Platan er 8-laga og kom út á bæði Vínyl og cd. Ég keypti mér geisladiskinn og hefði væntanlega keypt mér vínyl líka (fann hana, ótrúlegt en satt, í íslenskri plötubúð) ef ég ætti plötuspilara. Þeir félagar skipta með sér plötunni en Benjamin á fyrstu fjögur lögin og Andrew þau seinni fjögur. Umbúðirnir eru mjög skemmtilegar, hvítt umslag og letrið er búið til úr laufum og ávöxtum. Hulstrið er líka ekki úr gleri heldur pappír og það þykir mér alltaf bæði flottara og þægilegra. Þessu fylgir svo með nokkurs konar bæklingur - miklu frekar bara lítið blað, þar sem textar Benjamins eru á einni hliðinni og textar Andrew's á hinni hliðinni.

Gibbard opnar diskinn með You Remind Me of Home. Einstaklega ljúft og fallegt lag. Textinn hittir beint í mark og hvert orð dregur upp mynd í huganum. Ég læt textann tala sínu máli:

but the foundation is crumbling
and becoming one with the
ground while you lay
there in slumber
you're wasting your life.

Lagasmíðar Gibbard's eru mjög í takt við sumt af því sem hann er að gera með hljómsveit sinni, Death Cab. Eini munurinn er sá að hér er hann öllu afslappaðari og svo er hann ekki heldur með þrjá menn hér með sér til að byggja í kringum lagasmíðarnar. Þessi frumsömdu þrjú lög hans eru mjög mikið í átt við það sem a lack of color er: Ljúfar og fallegar kassagítars-drifnar ballöður þar sem textinn fær vel að njóta sín og sefandi rödd hans líka. Lögin eru öll frekar stutt, í kringum tvær mínútur.

Carolina fylgir í kjölfarið á You Remind me of Home og stendur því síðarnefnda ekki að baki. Farmer Chords er síðan fínt lag með einfaldum trommuleik og bakröddum sem gefa laginu mikið. Engu að síður nær lagið ekki sömu hæðum og hin tvö sem voru á undan. Næsta lag er síðan það lag sem hreif mig hvað einna mest á plötunni. Þar coverar Benjamin lag eftir Andrew Kenny og hljómsveit hans: Choir Vandals, og gerir það frábærlega. Tvímælalaust hápunktur plötunnar.

Þá er komið að hluta Andrew Kenny en ég var minna spenntari fyrir þeim hluta. Þemað er ennþá eins: léttur fílingur og tilgangur plötunnar gengur algjörlega upp, þar að segja, að vekja upp tilfinningar til þess staðar sem við eigum heima á og líðum best að vera. Kenny fer samt vissulega sínar leiðir en hans hluti er ekkert síðri. Chillað kassagítars raul.

Hometown Fantasy og Secrets of the Heart eru skemmtileg lög. Stutt lög þar sem röddin hans minnir mann helst á drauma eða svefn. Church Mouse in the Church House er alveg ótrúlega gott lag. Það er tæpar fimm mínútur að lengd og er, já, ásamt choir vandols besta lag disksins. Andrew á þar með heiðurinn af því að hafa samið tvö bestu lög plötunnar. Diskurinn endar síðan á Line of best fit en þar gerir Andrew slíkt hið sama og Ben gerði með Choir vandols og setur gamalt Death Cab lag í nýjan búning. Útgáfan er fín og Kenny gerir lagið að sínu - lokar disknum vel.

Skyldueign fyrir aðdáendur Death Cab For Cutie og American Analog Set. Ef við setjum það til hliðar þá er þetta mjög góður diskur og ætti að virka vel í afslöppuðu andrúmslofti. Fer vel við lestur eða almennt chill. Í mínu tilviki þá líður mér eins og þeir félagar sitji inní stofu hjá mér og spili tónlist fyrir mig á meðan ég les bók og segi brandara…svo hlæ ég upphátt með sjálfum mér því lífið er gott. Kannski er ég bara svona chillaður gaur…ha…chillaður maður….helvíti næs…ha…já maður.

8/10 - Mjög gott.