Staind - Chapter V Jæja þá hafa félagarnir úr Staind loksins gefið út sína fimmtu breiðskífu og ber hún nafnið Chapter V. Ég veit að ég er búinn að bíða mjög lengi eftir þessari plötu en ég hef ekki fundið neinn annan sem hefur beðið af jafn mikilli eftirvæntingu og ég. Þessi hljómsveit virðist ekki vera mjög vinsæl hér á landi. En hvað sem því líður þá ætla ég að kynna þennan snilldar disk hérna.

Staind
Aaron Lewis – Söngur + gítar
Mike Mushok – Gítar
Jon Wysocki – Trommur
Johnny April – Bassi + bakraddir

Þessi diskur er algjör blanda af fyrri diskum þeirra, bæði þung, létt og róleg lög sem er alveg helvíti góð blanda. Það gæti verið að það komi mörgum á óvart en Staind voru með mjög þung rokk lög á fyrstu tveimur diskum þeirra og nokkur á þriðja. Fólk virðist dæma þá bara út frá útvarpsspilun, sem er alveg skiljanlegt.


Chapter V

1. Run away – Fyrsta lagið á diskinum og alveg frábær byrjun á því sem eftir kemur. Lagið byrjar á frekar þungum gítar riffum og fer svo í mjög grípandi og flott viðlag. Söngurinn frábær eins og vanalega, gítarinn mjög töff og flottur, bassinn ekkert áberandi ( var áberandi áður fyrr ) en er þarna í grunninum bara og trommurnar bara í rólegri kantinum en helvíti flottar í síðari hluta lagsins.

Einkunn: ****1/2 af *****

2. Right here – Þetta var fyrsta smáskífan þeirra af plötunni og alls ekki af verri kantinum. Lagið greip mig strax þegar ég heyrði það fyrst og hef ég ekki fengið leið á því síðan. Rosalega flott og létt lag með frábærum söng og flottum gítar.

Einkunn: ****1/2 af *****

3. Paper Jesus – Ég var alltaf að vonast eftir því að þeir mundu setja einhver frekar þung lög á þessa plötu og rættist sú ósk eftir að ég heyrði þetta lag. Það er ekkert verið að undirbúa mann undir lætin heldur byrjar lagið á fullu í þungu gítarriffi og svo byrjar söngurinn með einhverjum flottum effect. Þegar viðlagið kemur þá fæ ég alltaf hroll því það er alveg þrusuflott. Frábært lag með snilldar söng og hljóðfæraleik.

Einkunn: ***** af *****

4. Schizophrenic Conversations – Þegar ég las þennan titil fyrst áður en ég heyrði lagið þá vissi ég ekki alveg við hverju átti að búast. Bjóst allavegana ekki við að það væri eitthvað rólegt lag en svoleiðis er það nú og alveg ótrúlega flott. Það merkilega í þessu lagi er að það er gítarsóló í því. Það hafa ekki verið sóló í lögunum þeirra síðan þeir gerðu diskinn Tormented árið 1996. Hann Mike Mushok leysir það bara mjög vel af hendi og passar sólóið mjög vel inn í lagið.

Einkunn: ****1/2 af *****

5. Falling – Þetta lag er ótrúlega flott með grípandi viðlagi, flottum gítar og bara öllum pakkanum. Eitt af þeim fyrstu lögum sem ég heyrði af diskinum áður en hann kom út og gerði það biðina aðeins þolanlegri.

Einkunn: **** af *****

6. Cross to bear – Þetta er alveg ótrúlega flott lag, þó að söngurinn sé síðstur í því af lögunum á diskinum (samt flottur), með grípandi viðlagi þar sem trommurnar og gítarinn eru algjörlega að gera sig.

Einkunn: **** af *****

7. Devil – Eitt af rólegri lögunum en eitt af þeim mögnuðustu lögum á diskinum. Hreint út sagt magnað lag með frábærum söng og hljóðfæraleik. Greip mig strax við fyrstu hlustun.

Einkunn: ****1/2 af *****

8. Please – Ef þetta væri eina lagið á diskinum þá væri þessi diskur samt fullkominn. Algjörlega ótrúlegt lag með svo magnaðri melódíu að ég fæ hroll og gæsahúð. Eitt af því sem heillar mig mest við lögin hjá Staind eru viðlögin og í þessu lagi finnur maður eitt af þeirra bestu.

Einkunn: ***** af *****

9. Everything Changes – Þetta lag svipar rosalega til “So far away” af diskinum 14 Shades of grey fyrir þá sem muna eftir því. Fínasta lag með flottri melódíu.

Einkunn: **** af *****

10. Take this – Annað mjög rólegt og flott lag hér á ferð. Það er ótrúlegt hversu miklar framfarir hafa orðið á söngnum hjá Aaron Lewis allt frá tímum “Tormented”( 1996 ). Frábær gítarleikur eins og alltaf og auðvitað fylgja trommurnar og bassinn fast á eftir.

Einkunn: ****1/2 af *****

11. King of all excuses – Þetta lag hreint út sagt kýlir mann í smettið. Alveg ótrúlega flottur gítar í þessu lagi með sjúklega flottum söng, sérstaklega í bridge´inu þar sem Aaron Lewis notar geggjaða effecta. Eitt af þyngri lögunum á diskinum og eitt af þeirra bestu lögum allra tíma.

Einkunn: ***** af *****

12. Reply – Frábært lag í alla staði, rólegt og gott með flottri melódíu ásamt geðveikum gítarsóló hjá Mike Mushok.

Einkunn: ****1/2 af *****


Ég hef beðið eftir þessum disk mjög lengi og þar af leiðandi urðu væntingarnar alltaf meiri og meiri. Ég get sagt fyrir mína hálfu að staðist var undir allar mínar væntingar. Í heildina litið þá er þetta enn eitt snilldarverkið hjá meðlimum Staind og passar Chapter V fullkomlega í geisladiskasafnið mitt. Ég gef diskinum ***** af *****.

Takk fyrir!
gusti@esports.is