Ég rakst á svo rosalega góða grein á heimasíðu Hljómalindar að ég varð að senda hana inn, ég veit að þetta er copy/paste en ég hefði ekki getað orðað þetta betur sjálfur.

Hún fjallar um post-rokk eða síðrokk eins og það hefur verið íslenskað (post þýðir eftir, kemur ekki af lýsingarorðinu “sítt”) og þar sem umræða um Sigur Rós og fleiri góðar post-rokk sveitir hefur verið að magnast hér á rokk þá ætla ég að nota tækifærið til þess að útskýra fyrirbærið, bara ekki í eigin orðum.

- Pixie

Þessi grein er fengin að láni frá hljomalind.is:

Það hefur löngum þótt tíska að skapa nýjar listastefnur með því að skeyta orðinu “síð-” framanvið; síðmodernismi, síðimpressionismi, síðrokk og svo mætti lengi telja. Síðrokk, hvað er það annars? Hvarf rokkið einhvern tímann af sjónarsviðinu og á þessi tiltekna tónlistarstefna yfir höfuð ættir að rekja til gullöld rokksins? Útskýrir þetta hugtak þá tónlist sem svo margir hafa gaman af eitthvað nánar? Svarið er að öllum líkindum nei.

Undirritaður hefur löngum velt því fyrir sér hvað geri hljómsveit að síðrokksveit og hefur í raun gefist upp á öllu baslinu. Samt sem áður getur þetta klaufalega hugtak stundum virkað sem nokkurs konar öryggisnet, maður veit að minnsta kosti að hverju er gengið þegar tónlist er flokkuð undir síðrokk…eða hvað? Hvað eiga t.d. hljómsveitir eins og Slint, Tortoise, Godspeed You Black Emperor! og Labradford sameiginlegt, fyrir utan að semja afbragðsgóða tónlist í tilraunakenndari kantinum? Þegar öllu er á botninn hvolft eru bestu síðrokkhljómsveitirnar (takið eftir; þær bestu en ekki hinar fjölmörgu hermikrákur) jafn ólíkar og þær eru margar og því væri ef til vill ekki úr vegi að fara út í einhverja ítarlegri flokkun. Tala t.d. um jazz-skotið síðrokk og naumhyggju-síðrokk svo dæmi séu tekin eða einblína á hljóðfærin sem leika aðalhlutverkin, hvort sem það eru gítarar, strengja- eða áslátturshljóðfæri. Nei annars, það myndi vafalaust flækja málin enn frekar, sem er vitanlega algjör óþarfi þar sem litlu máli skiptir hvað tónlistin heitir, svo framarlega sem hún er góð.

Því hefur oft verið haldið fram að til að falla innan ramma síðrokks sé nóg að vera án söngvara. Samt eru líka til hljómsveitir innan þessa geira sem syngja, t.d. Slint, sem af mörgum er talin hafa “fundið upp” síðrokkið. Slíkar bollalengingar eru því til mikilla trafala; síðrokk er instumental en forsprakkar þess sungu hins vegar í flestum laga sinna… þið skiljið líklega af hverju fólk tapar áttum.

Annað atriði sem margir tónlistarskríbentar einblína á þegar þeir pára um blessað síðrokkið er hvort einhver tengsl séu á milli viðkomandi hljómsveitar og John McEntire. Ef svo er þá skella þeir hiklaust síðrokksmerkimiðanum á hljómsveitina og ekki orð um það meir. McEntire þennan þekkja margir úr hljómsveitunum Tortoise og Sea & Cake en staðreyndin er að hann hefur unnið með nánast öllum og það eru engar ýkjur! Hann er tíður gestaleikari hinna og þessa hljómsveita auk þess að þykja afar afkastamikill upptökustjóri og það er í raun erfitt að finna hljómsveit í tilraunageiranum sem tengist honum eða félögum hans í Tortoise ekki á einn eða annan hátt.

En svo aftur sé spurt hvað síðrokk sé þá hef ég satt best að segja ekki hugmynd um það. Ef þú last þessa grein til að fá einhvern botn í þetta hugtak þá verð ég því miður að hryggja þig; markmiðið var aldrei að kryfja síðrokkið til mergjar heldur að sannfæra fólk um að hætta öllum málalengingum og hlusta einfaldlega á tónlistina í stað þess að tala um hana. Hverjum er ekki sama hvað fræðingarnir kjósa að kalla það sem gælir við hlustirnar okkar? Ég er allavega búinn að fá nóg af þessu blaðri og kýs frekar að eyða tíma mínum í að gera það sem mér þykir skemmtilegast; að hlusta á góða tónlist.

- Árni Viða