Svona áður en ég held áfram vill ég taka fram að ég er að skrifa af mikilli fáfræði. Ég þekki ekki vel til umfjöllunarefnisins. Please bear with me…

Eftir að lesa mikinn lofsöng um snilli Weezer hér á Rokk-áhugamálinu og heyra Radíó-X menn fara fögrum orðum um þessa pilta smellti ég mér út í búð og fjárfesti í nýju (grænu) plötunni þeirra.

Ég var mjög spenntur að hlusta á gripinn, kunni vel við nýja singulinn “Hash Pipe” og einnig rifjaðist upp fyrir mér skrítið lag um peysu. Á spilarann fór diskurinn, snerist eina umferð og þá var slökkt. Hvað var ég nú að henda pening í? Ekki var hlustað aftur á diskinn í bráð.

Nokkru seinna gef ég Weezer-nördunum annan séns og er ekkert yfir mig hrifinn. En nú er eitthvað að toga í mig… Ég set diskinn á aftur. Og svo aftur og nú held ég að ég sé háður. Eiginlega grípur mig löngun til að smella honum á NÚNA!

En afhverju hef ég svona gaman að þessu? Hvað er að halda manni við efnið? Melódíurnar! Ekki eru útsetningarnar “fancy” heldur bara frekar basic en koma þessum fínu melódíum til skila. Hvert lagið á fætur öðru er fínasti popp-rokk smellur sem kemur manni í gott skap. Rivers Cuomo virðist geta samið gæðamelódiur eins og að drekka vatn. Ég leyfi mér að segja að þetta minni mig pínulítið á Bítlana snemma á þeirra ferli.

Þetta er kannski fyrirbrigði sem er alltof sjaldgæft í tónlistinni í dag. Band sem virðist fyrst og fremst búa til melódíur og halda sig frá því að skreyta þær eins og rjómatertur. Þeir virðast einnig taka sig mátulega alvarlega eins og góðum tónlistarmönnnum sæmir eða þá ályktun dreg ég a.m.k. af tónlistinni þeirra.

Ég á oftast mjög erfitt með að láta mér detta í hug einkunn fyrir geisladiska en sá græni með Weezer held ég að eigi hiklaust skilið 4 af 5 mögulegum. Ég er enda verulega hooked á þessum disk sem hefur komið Weezer hátt inn á listann hjá mér. Verst að hann er bara hálftími…