Blood Sugar Sex Magik - hið fullkomna tónverk Þó að Blood Sugar Sex Magik sé talin af langflestum vera allra besta plata hljómsveitarinnar Red Hot Chili Peppers er hún langt frá því að vera sú þekktasta. Ég mun fara yfir plötuna vel og það í smáatriðum. Ég mun líka fara aðeins yfir hljómsveitina og einnig fara yfir hvert lag fyrir sig en ég vara ykkur við, greinin er mjög löng.

Þessi plata kom út í septemper 1991 og var gefin út af Warner Brothers.
Pródúser var hinn skeggjaði Rick Rubin.

Stuttlega farið yfir sögu hljómsveitarinnar áður en Blood Sugar Sex Magik var gefin út:

Árið 1984 gáfu þeir út sína fyrstu plötu sem var samnefnd bandinu. Funkið var þeirra aðal ástríða en þeir blönduðu punki og rappi ofan á þetta, og sköpuðu sinn eigin stíl þannig og voru vel þekktir í underground senu LA. Þeir voru meðal annars hluti af hinni frægu LA punk stefnu sem skilaði af sér böndum eins og Thelonious Monster og fleirum.

Þeir fylgdu eftir frumburðinum með hinni stórmögnuðu Freaky Styley þar sem þeir voru búnir að ná að fullkomna stíl sinn. Funkpabbinn George Clinton sem prodúsaði verkið átti stóran þátt í því. Vinsældir þeirra voru farnar að aukast, og fleira fólk var farið að taka eftir þeim, sérstaklega útaf villtri sviðsframkomu þeirra þar sem spiluðu aðeins með sokk yfir því allra heilagasta. Rock with socks on your cocks og allir föttuðu. Einnig var frumleg og villt spilamennska Flea á bassanum eitthvað sem vakti mikla athygli.

Uplift Mofo Party Plan kom síðan út 2 árum seinna eða 1987. Platan var í sama stíl og Freaky Styley og var stórgóð. Platan vakti enn meiri athygli á þeim en sjálfir voru þeir í tómu tjóni, 2 af meðlimum hljómsveitarinnar djúpt sokknir í eiturlyfjaneyslu sem varð til þess að annar þeirra dó árið 1988. Við þetta komu inn nýjir menn, táningurinn John Frusciante leysti af dauðann Hillel Slovak og rugludallurinn Chad Smith leysti af Jack Irons sem ákvað að hætta í bandinu vegna allra látanna.

Bandið hélt áfram og kreisti útúr sér Mother’s Milk árið 1989. Platan sameinaði allt það besta úr fyrri verkum plötunnar, pönk slagara, seiðandi texta, funk og síðast en ekki síst cover af lögum eins og Higher Ground og Fire í nýjum búningi, red hot style. Þó er platan ekki gallalaus, t.d var John ennþá að skapa stíl sinn og prodúser plötunnar var ekki að hjálpa mikið þegar hann vildi stanslaust stjórna gítarspili John’s.

Platan kom þeim allverulega á framfæri og þeir seldu í gull, í fyrsta skipti. Þeir lönduðu rosa plötu samning og byrjuðu að semja fyrir næstu plötu að loknum villtum túr. Útkoman var meistarverkið Blood Sugar Sex Magik.

——————————————

01. The Power Of Equality
Diskurinn byrjar á þessu kröftugu lagi með góðum versum og góðum bassa+trommuleik. Bridge kaflinn er seiðandi og John kemur með smá gítarsull og anthony kickar af stað endakaflanum með ‘madder than a motherfucker’ og maður dansar með. Textinn er frábær hjá Anthony og hann fer á kostum í söngnum. Hérna eru þeir í sínu allra besta stuði. Eitt af bestu lögum plötunnar og frábær byrjun á frábærum disk.
——————————————

02. If You Have To Ask
Maður fær þetta lag á heilann, sérstaklega chorusinn sem er æðislegur. Funky gítarriff og skýr textinn nýtur sín sem besti texti plötunnar. Gítarsólóið er flott og lagið er stórgott. Klöppin og köllin sem koma í lok lagsins er líka sniðugt. Funky shit!
——————————————

03. Breaking The Girl
Þetta er gríðarlega gott lag og kassagítarinn er hreint út sagt magnaður. Skemmtilegar trommur og einnig öll þessi járn hljóð, en þeir náðu sér í fullt af svona járn og “metal” hlutum og spiluðu allir fjórir á það með spítum, sést best í heimildamyndinni Funky Monks. Fannst þetta lag fyrst vera eitt af hápunktum plötunnar en seinna meir hefur það breyst og hefur smá svona tapað töfrunum en hinsvegar fullkomið lag á hvaða degi sem er, hvort sem það er partý-föstudagur eða leti-sunnudagur.

Sagan á bakvið lagið:
Ég hef oft heyrt þá sögu að þetta lag fjalli um þegar Anthony missti sveindóm sinn 12 ára með kærustu pabba síns en það er ekki rétt. Textinn fjallar um sambandslit hans við eina kærustuna sína og einnig smá um að hann sé farinn að taka upp siði pabba síns (hoppa frá einni stelpu til þeirrar næstu) eins og segir í línunni – ‘raised by my dad, girl of the day’

Skemmtilegar staðreyndir:
Það var gert myndband við þetta lag og í því var Arik Marshall, gítarleikarinn sem var í hljómsveitinni í nokkra mánuði eftir að John hætti. Hann var einnig í simpsons þættinum sem hljómsveitin birtist í. Arik var ekki hress gaur og er einhverstaðar bara á röltinu núna, staying cool.
——————————————

04. Funky Monks
Bassinn og trommurnar eru ruddalega flott í þessu lagi en lagið var byggt upp á því, john fyllir síðan upp í eyðurnar með flottum riffum eins og í byrjun lagsins. Chorus og verse eru góð og bridge kaflinn er stórskemmtilegur. ‘Confusion is my middle name’ segir allt sem segja þarf og þó, bakraddirnir eru eins og bergmál í fullkomnum heimi.

Skemmtilegar staðreyndir:
Heimildamyndin sem var búin til um gerð plötunnar heitir sama nafni og lagið. Einnig hafa þeir sjálfir fengið viðurnefnin Funky Monks og hafa ósjaldan verið kallaðir þetta.
——————————————

05. Suck My Kiss
Þetta lag var singull og er mjög vinsælt lag. Anthony er með sexý texta, harður og í egó-boost fíling (‘Hit me you can't hurt me suck my kiss’). Lagið er ótrúlega skemmtilegt, fjörugt og með frábært viðlag. Flea í stuði. Chad orkumikill og John með rudda svalt sóló. Topplag og samspil Flea og John’s er eitthvað yfirnáttúrlegt, fæddir til að spila saman.
——————————————

06. I Could Have Lied
Þetta er stórkostleg lag. Rólegt og melódískt og viðlagið er guðdómlegt. Textinn er eitthvað gríðarlega magnað og gítarsólóið er ólýsanlega ótrúlegt. ‘I could have lied I'm such a fool, my eyes could never never never keep their cool’ er bara ein af mörgum línunum sem segja meira en bækur. Satt að segja meika textar hans miklu meira sens heldur en sjálf bíblían.

Sagan á bakvið lagið:
Stutt samband Anthony’s við söngkonuna Sinéad O’Connor var umfjöllunarefni lagsins. Þau voru saman í 6-7 vikur en síðan ákvað Sinéad O’Connor að flytja burt frá L.A þar sem hún bjó á þessum tíma og skildi bara eftir lítið bréf fyrir Anthony og lét sig hverfa. Anthony skrifaði þá niður þetta lag eftir að John Frusciante hafði ráðlagt honum að skrifa eitthvað niður um þetta. Búmm.
——————————————

07. Mellowship Slinky In B-major
Shiiit hvað ég elska þetta lag. Þetta er ofurtöff og frumlegt lag og viðlagið er eitthvað sem maður syngur á hverjum degi, algjörlega frábært lag, grúví shit.
——————————————

08. The Righteous & The Wicked
Þetta er ásamt fyrsta lagi plötunnar og Sir Psycho mitt uppáhaldslag á plötunni. Alvöru punk-rokk slagari þar sem Flea fer á kostum. Bakraddir John’s eru æðislegar enda meistari bakraddana. Hinir spilltu og réttlátu, stríð og friður. Textinn er æði sæði:

’Holy mother earth
Crying into space
Tears on her pretty face
For she has been raped

Killing your future blood
Fill her with disease
Global abortion please
That is what she needs’
——————————————

09. Give It Away
Þessi singúll var eitt sinn uppáhaldslagið mitt á plötunni, svona fyrst eftir að ég fór að hlusta á plötuna fyrir löngu síðan en það hefur svolítið breyst þó lagið tróni enn ofarlega. Lagið er fjörugt með mögnuðum rappversum og ótrúlega góðu samspili þeirra þriggja. Þetta er lag sem maður setur á föstudagskvöldi áður en maður fer í bæinn, tekur nokkur dansspor og klárar vodkapelann, gerist það nokkuð betra? Nei herra.

Skemmtileg atvik:
River Phoenix leikari(bróðir Joaquin Phoenix) var góður vinur hljómsveitarinnar og hann var einn af þeim sem hékk mikið í húsinu þar sem þeir tóku upp plötuna. Hann var sérstaklega góður vinur Flea’s og John’s. Hann drakk mikið og notaði mikið kókaín sem er orðið vel þekkt, og villti lífsstíll hans varð til að hann dó árið 1993, fyrir utan skemmtistað Johnny Depp, Viper Room. Flea og Joaquin voru á staðnum og fóru með honum í sjúkrabílinn meðal annars. Johnny Frusciante var á þessum tíma hættur í bandinu og var á sinni eigin leið til helvítis, með heróin nálina í höndinni og það var hann sam lét hann fá skammtinn sem drap River. Allavega, þá samdi Anthony heilt verse um hann í laginu Give It Away:

’There's a River born to be a giver
Keep you warm won't let you shiver
His heart is never gonna wither
Come on everybody time to deliver’
——————————————

10. Blood Sugar Sex Magik
Þetta er titillag plötunnar og er helvíti ferskt. Lagið byrjar á grúví trommum hjá Chad, svo koma John og Flea inní þetta og Ant svo með spooky drungalega rödd. Frábært. ‘Blood sugar baby she's magik sex magik’
——————————————

11. Under The Bridge
Þetta lag gerði þá fræga, þetta er eitt af frægustu lögum þeirra (ásamt scar tissue) og er algjörlega ofspilað. Það hefur örruglega verið á hverjum einustu tónleikum þeirra síðan 1991 og er oftast “encore” eða undir lok giggsins. Lagið er þrusugott en það er rólegt og melódískt og er hinn fullkomni sumarsmellur.

Sagan á bakvið lagið:
Frægt er orðið hvað lagið fjallar um, kannski eins og flestir vita fjallar það um dópfíkn Anthony’s og um þegar hann var að taka inn eiturlyf undir brú einni í L.A en það er aðeins meira en bara það. Anthony samdi lagið þegar hann var að keyra heim af æfingu (æfingar milli mother’s milk & bloodsugar) er hann fann fyrir einmannaleika. John og Flea voru á þessum tíma mikið fyrir það að reykja gras og Anthony sem var búinn að vera sober í nokkurn tíma fannst hann vera að fjarlægast þá tvo, John og Flea, sem voru hans bestu vinir og honum fannst eins og þeir væru farnir að virða hann sem bandmeðlim en ekki vin lengur, sérstaklega fannst honum John líta svoleiðis á sig.

Hann fór að finna fyrir einmannaleika og honum fannst eins og hann væri einn í heiminum og fór að hugsa til baka þegar hann eyddi öllum sínum tíma á götum L.A að dópa og meðan allir hans nánustu sátu heima var hann undir brú með fullt af mexíkönum að taka kókain í nösina. Þaðan er lagið komið frá og á móti fannst hann eins og borgin, hollywood hills, miðbær L.A væri hans eini vinur, að borgin verndaði hann (I walk through her hills ‘cause she knows who I am – the city she loves me, lonely as I am, together we cry)

Nokkru seinna eða þegar Rick Rubin var á spjalli við Anthony heima hjá þeim síðarnefnda kom þetta lag upp í samtal, Rick var að renna í gegnum textabækur Ant’s og fann þennan bút, hann varð strax áhugasamur um þetta en Ant vildi ekki nota þetta þar sem honum fannst þetta ekki passa í chili peppers en Rick tókst að sannfæra hann um að koma og syngja lagið fyrir restina af bandinu og sjá viðbrögðin. Well, the rest is history.

Skemmtilegar staðreyndir:
Í febrúar 1992 spilaði hljómsveitin í SNL eða Saturday Night Live. Þeir tóku 2 lög, þar á meðal under the bridge. Á meðal hörðustu aðdáanda hljómsveitarinnar eru þessar upptökur frá þessum “tónleikum” stórmerkilegar. Hljómsveitin var að slitna í sundur og það er auðveldlega hægt að sjá gríðarleg hatursmerki milli John’s og Ant’s. John spilaði under the bridge allt öðruvísi, hann sagði seinna að hann hefði verið að tilraunast með riffið en Anthony fannst nú frekar furðulegt að gera það í beinni útsendingu. Hann spilaði lagið “out of tune” en þessi útgáfa af laginu varð ekkert verri fyrir vikið. Svo þegar kom að John að syngja bakraddirnir í endann öskraði hann bara í stað þess að syngja. Ég elska að horfa á þann kafla, þegar hann öskrar, þetta er “once in a lifetime – funny crazy shit útgáfa af laginu”. Anthony var ekki sáttur og í næsta lagi tók hann dans og sveiflaði sér í jörðina, svo þegar hann stóð upp sparkaði hann í John, ekki áberandi, hann virðist bara detta á hann en þegar þetta er skoðað nánar sparkar hann í John.
——————————————

12. Naked In The Rain
Flottar trommur hjá Chad og bassinn í takt. Mjög skemmtilegt rokklag og með ofurskemmtilegu viðlagi en er ekkert í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér.
——————————————

13. Apache Rose Peacock
Þetta er ótrúlegt lag. Dú-rú-dú raul kaflinn sem þeir syngja allir er svalt. Ég veit um mann sem var með þetta raul á heilanum í 5 ár, án djóks. Flea spilar á trompet í þessu lagi sem er nett. Textinn er líka svo sprenghlægilegur, ógurlega góður og heimspekilegur að mig langar helst að skalla ísskáp.
‘A little boy came along
Name of Louis Armstrong
Said that girl who left me silly
She liked the looks of me and my willy’
——————————————

14. The Greeting Song
Þetta er fjörugt lag í anda Led Zeppelin, án þess að hverfa úr rótum funksins og punksins. Textinn er um bíla og stelpur og er ágætur, þó hann sé kannski frekar tilfinningalaus á köflum. Lagið er af mínu mati hinsvegar alveg stórfínt með hressandi trommum og skemmtilegum chorus, en þetta er hinsvegar kannski með slökustu lögum plötunnar, ef slökustu er rétt lýsing. Allavega í minnsta uppáhaldi hjá mér.

Sagan á bakvið lagið:
Rick Rubin (próduser plötunnar) vildi endilega að Anthony myndi semja texta um bíla og stelpur þar sem Rick var mikið fyrir þannig lög og Anthony gerði það. Anthony var ekkert hrifin af þeirri hugmynd þar sem hann hafði meiri áhuga að skrifa um eitthvað spennandi og skrýtið og eitthvað frumlegt sem enginn hefur skrifað um áður en ákvað að semja þetta fyrir Rick. Anthony hefur hinsvegar hatað lagið alveg síðan það kom út, hatað sönginn og mest af öllu hatað textann.

Skemmtilegar staðreyndir:
General Motors vildu nota lagið í auglýsingu til að auglýsa bíla en það þarf ekki að koma á óvart að þeir neituðu því. Ástæðurnar voru væntanlega að Anthony þoldi ekki lagið og einnig að þeir eru ekki mikið fyrir svona dæmi.
——————————————

15. My Lovely Man
Þetta er eitt af rólegu lögum plötunnar…(ásamt I could…& Breaking…) og fjallar um fyrrverandi meðlim hljómsveitarinnar. Melódían er falleg og þetta er eitt af þrem lögum sem hafa kallað fram tárin, ótrúlegt en satt. Hvernig er annað hægt? Textinn er svona eins og rómantísk gamanmynd með Hugh Grant fyrir einhleypar konur, hittir beint í mark, og þær gráta og ég græt. Þetta er samt ekkert væl, það er rokkað seinni hlutann og þá stígur maður dans.

Sagan á bakvið lagið:
Þetta lag er samið um Hillel Slovak. Hillel stofnaði hljómsveitina ásamt Flea, Anthony og Jack Irons (gamli drummerinn þeirra) og átti stóran þátt í að skapa þeirra hljóm, sem var blanda af funk-rappi og punk. Hann spilaði á bæði Freaky Styley og Uplift MoFo Party Plan en var “upptekinn” þegar fyrsta platan var tekin upp. Hann dó 25.júni 1988 þegar hann overdósaði af heróini. Hann var besti vinur Flea og Ant’s og þeir elskuðu hann af öllu hjarta. Það eru mörg lög sem fjalla um hann og þar á meðal þetta. ‘just in case you never knew I miss you slim, I love you too’ Slim var gælunafn Hillel’s.
——————————————

16. Sir Psycho Sexy
Þá erum við komnir að þessu lagi. Þetta er besta lag diskins og hugsanlega mitt allra uppáhalds lag með hljómsveitinni. Textinn fjallar um Sir Psycho Sexy sem er Anthony og hann kemur með nokkrar blautar sögur um meðal annars kveynkynslöggu, jeebeibí! Rödd Anthony’s er seiðandi í laginu og bakraddirnir eru svalar. Bakröddin hjá John í bridge kaflanum (þegar hann raular la-la-la endalaust) er bara snilld. Lagið er heilar 8 mínútur og er stanslaust fjör. Foreldrar ættu að halda fyrir eyru barna sinna ef þetta lag er spilað enda er þetta dónalegur fjandi…

En þá víkjum við að hinu stórkostlega, hinu ólýsanlega, 3 mínútna gítarsólói John Frusciante. Sólóið sýnir alla hæfileika hans, þetta er John í sínu allra besta formi og sólóið er að mínu mati besta sóló í heimi og ef ég myndi fá það tækifæri að heyra það á tónleikum myndi ég örruglega brotna niður eins og lítil stelpa. Sólóið ætti í raun að loka disknum fullkomnlega ef væri ekki fyrir litla lokalagið. PERFECTION.
——————————————

17. They’re Red Hot
Þetta er seinasta lag diskins en þetta er eina cover-lag plötunnar. Robert Johnson gerði þetta lag en RHCP setja þetta í nýjan og skemmtilegan búning. Lagið er hratt og er aðeins rúm 1 mínúta og Anthony rappar textann. Það má svo benda á til gamans að lagið var tekið upp utandyra.
——————————————

Þetta er mín allra uppáhalds hljómplata og ég tel hana vera mesta meistaraverk rokksögunnar.

Takk fyrir mig.