Að fara á tónleika með uppáhalds hljómsveitinni er eitthvað það himneskasta sem andandi mannvera getur upplifað. Að sjá þessa menn koma fram á sviðið er yndisleg tilfinning, að sjá menn með eigin augum sem áður hafa bara verið flatar glansmyndir uppá vegg eða aftan á plötualbúmum. Og að hafa tækifæri til að syngja með hetjunum sínum þar sem þeir spæna í gegnum hvern smellinn af öðrum, er eins og í draumi. Það er ekki hægt að vera meira lifandi en á þessu alltof stutta tímabili sem tónleikarnir standa yfir.

Fyrir vikið er það enn meira svekkjandi fyrir einhvern að komast ekki á tónleika með uppáhaldshljómsveitinni sinni, eins og er komið fyrir mörgum þessa dagana. Og ég veit hvernig tilfinning það er. Ég var gráti næst þegar ég var tólf ára og foreldrar mínir bönnuðu mér að fara með bróður mínum að sjá Iron Maiden í höllinni. Ég var svo reiður að heiftin gjörsamlega vall útúr eyrunum á mér. Ég var hins vegar ekkert svo svekktur þegar ég fór ekki á Rage against the machine þegar þeir komu nokkrum árum seinna þar sem þá hafði ég ekkert heyrt í þeim. Ég varð þeim mun svekktari nokkrum mánuðum seinna þegar ég sá af hverju ég missti þegar tónleikarnir voru sýndir í sjónvarpinu.

Í dag er mér reyndar nokkuð sama. Eftir þetta hef ég komist til vits og ára (allavega ára, hitt er umdeilanlegt) og uppgötvað aragrúa af nýjum rokkhetjum og hljómsveitum sem mér <b>hefur</b> tekist að sjá á tónleikum. Ég hef enn sem komið er ekki komist á Iron Maiden tónleika þrátt fyrir frekari tilraunir, en ég hef svosem engar áhyggjur af því, því ég veit að ég fæ fleiri tækifæri ttil þess þar sem þeir munu ekki hætta fyrr en þeir verða sextugir. En Rage against the machine tókst mér að sjá, en ég þurfti að bíða í sjö löng ár eftir því. Það var heldur ekki seinna vænna, því tónleikarnir sem ég sá voru þeir fjórðu síðustu áður en Zack hætti.

Og það sem ég vil segja við ykkur miðalausu unnendur þýsks iðnaðarrokks, er að miðaleysi ykkar markar ekki heimsendi. Ykkar tími mun koma*. Og þó að þýsku iðnaðarrokkararnir komi og fari án þess að ykkur takist að berja þá augum, þá eiga eftir að koma aðrar rokkhetjur inn í líf ykkar, og aðrir tónleikar. Sem þið <b>munuð</b> verða vitni að. Þolinmæði þrautir vinnur allar eins og eitthvert skáldið sagði. Það vitlausasta sem þið getið gert er að versla miða af einhverjum siðblindum svartamarkaðsbraskara fyrir fjárupphæð sem nægir til að koma ykkur á hvaða tónleika í heiminum sem er undir venjulegum kringumstæðum.*Koppírægt Jóhanna Sigurðardóttir.
——————————