Iron Maiden Ég ætla að skrifa um snillingana í Iron Maiden í tilnefni þess að þeir mæta hér á klakann og eru alveg svaðalega góðir:P


Iron Maiden er einhver frægasta en þó umfram allt áhrifamesta metal hljómsveit allra tíma. Þeir voru hluti af hinni svokölluðu New Wave of
British Heavy Metal (NWOBHM) eða nýju bylgju bresks Heavy Metal, sem átti sér stað snemma á 9. áratugnum.
Þrátt fyrir óumdeilanleg gæði tónlistar þeirra hefur hljómsveitin alla tíð verið pínulítið “underground” þrátt fyrir að vera fremur vel þekkt sem ég held að sé vegna þess að þeir eru Bretar en ekki Bandaríkjamenn og hafa því ekki verið með jafn mikinn pening á bak við sig til að kynna sig.
Það eru þó fáar hljómsveitir sem hafa haft jafn ótrúlega mikil áhrif á stefnu sína og enginn alvöru metaláhugamaður hefur ekki hlustað á þessa
hljómsveit, meira eða minna og það eru örugglega fáar, ef einhverjar, hljómsveitir sem hafa átt jafn mörg lög sem aðrar hljómsveitir hafa
spilað eða “coverað”.
Í tilefni af því að hljómsveitin er að fara að
spila hér á Íslandi er tilvalið að komast að því hvað er eiginlega svona frábært við Iron Maiden? Til þess að gera það verðum við að fara yfir
sögu þeirra og skoða helstu plötur þeirra.


Iron Maiden var stofnuð árið 1976 í London af bassaleikaranum Steve Harris.
Fljótlega bættust við Tony Parsons á gítar, Doug Sampson sem trommari og Paul Di’Anno sem söngvari.
Hljómsveitin spilaði næstu ár hér
og þar og fékk töluverða spilun í útvarpi í London. Árið 1980 gáfu þeir svo út sína fyrstu plötu, hina sjálftitluðu Iron Maiden en fyrir hana kom Dennis Stratton inn í hljómsveitina í stað Tony Parsons á gítar.
Fáar hljómsveitir hafa staðið sig jafn vel með fyrstu plötu sinni. Iron Maiden platan var ein af þeim fyrstu sem blönduðu saman krafti Heavy
Metals, riffum og viðhorfum pönks sem hafði áhrif á seinni stefnur sem sagt Thrash-, Speed- og Death Metal.
Þessi plata innihélt beinskeytt rokk lög
en líka framsæknari lög eins og t.d. “Phantom of The Opera”.
Sum laganna voru líka í rólegri kantinum sem sýndi fram á fjölbreytni hljómsveitarinnar.
Textar Steve Harris voru dýpri en textar flesta metal banda fram að þessu og þar að auki var hljóðfæraleikurinn sem og söngurinn mjög góður.
Með öðrum orðum þessi fyrsta plata Maiden varð strax klassísk.
Platan var vinsæl í Bretlandi og þá helst lagið “Running Free”.
Þess vegna fylgdi platan Killers eftir ári seinna.
Fyrir þá plötu tók Adrian Smith við gítarleikarahlutverkinu af Dennis Stratton.
Á Killers var hljómur Maiden þróaðari og þá kannski helst gítarhljómurinn sem var spilaður af tveimur gítarleikurum, Adrian Smith og Dave Murray.
Platan var líflegri en sú fyrsta og sá Steve Harris aftur um að semja næstum öll lögin. Platan var full af klassískum lögum og var ekki bara vinsæl í Bretlandi heldur líka hinum megin við Atlantshafið þökk sé fyrsta túr þeirra þar. Platan var sú síðasta sem Paul Di’Anno söng á en hann var að hætta í hljómsveitinni vegna
óstjórnlegrar áfengissýki sinnar.
Sá sem kom í stað Di’Anno var Bruce Dickinson árið 1982 fyrir plötuna The Number of The Beast sem að margra mati (greinahöfundur þar með
talinn) er besta plata Maiden og er án vafa ein af allra bestu rokkplötum sögunnar.
Aðdáendur höfðu áhyggjur af því að það að missa Di’Anno myndi bitna á hljómsveitinni en í raun þá gerði það hana bara enn betri.
Frábær söngur Dickinson varð eitt af aðaleinkennum Maiden.
Hljómur Maiden hélt áfram að verða þéttari og betri og nú voru engin áhrif pönks greinanleg, þetta var bara “Heavy Metal”.
Það er ekki neinn veikur punktur á allri plötunni, öll lögin eru klassísk en upp úr standa titillagið (The Number Of The Beast) og lagið “Run to the Hills” en þessi tvö lög eru einhver frægustu og áhrifamestu Metal lög allra tíma enda algjör snilld.
Maiden breyttu voða litlu fyrir næstu plötu sína, Piece of Mind, enda höfðu þeir orðið heimsfrægir fyrir Number of The Beast.
Nýr trommari tók þó við, Nicko McBrain en þessi skipan:
Bruce Dickinson
Steve Harris
Adrian Smith
Dave Murray
Nicko McBrain
er af mörgum talin besta meðlimaskipan Iron Maiden og hélst hún til 1990.
Piece of Mind var aðgengilegasta plata Maiden til þessa og um leið sú melódískasta.
Þetta var líka fyrsta platan þar sem fleiri en Steve Harris koma að textagerðinni og á plötunni eru bæði beinskeyttir slagarar eins og “The Trooper” og framsæknari lög eins og “To Tame a Land” sem var byggt á vísindaskáldsögunni “Dune”.
Í stuttu máli var Piece of Mind fjórða klassík Iron Maiden.
1983 gáfu Iron Maiden svo út Powerslave. Ótrúlegt en satt, þessi plata var enn ein klassíkin og stækkaði enn aðdáendahópinn sem hafði verið að stækka með hverri nýrri plötu. Þrátt fyrir að hljómsveitin sé ekki beint
að víkka sjóndeildarhringinn þá er það ekki slæmur hlutur, þeir halda áfram á sömu braut og fyrr og gera það með stæl.
Platan inniheldur klassísk lög eins og “Aces High” og “2 Minutes to Midnight” og líka hið
13 og hálfrar mínútu langa “Rime of The Ancient Mariner” sem er byggt á ljóði.
Þannig voru þeir ekki uppteknir af því að gera aðgengileg og útvarpsvæn lög eins og svo margar aðrar Metal hljómsveitir þess tíma.
Eftir þetta var Iron Maiden komin með trygga stöðu sem ein fremsta Metal hljómsveit allra tíma með einstakan hljóm og fóru því að reyna að víkka sjóndeildarhringinn á plötunni Somewhere in Time sem kom út árið 1986.
Vissulega var Somewhere in Time góð plata en miðið við fyrri útgáfur tókst hún ekkert alltof vel.
Hún nýtti sér hljómborð en það var mikið
gert á þessum tíma af Metal hljómsveitum til að reyna að höfða til fjöldans.
Iron Maiden fóru sem betur fer fínt í notkun græjunnar en útkoman var ein vinsælasta plata hljómsveitarinnar.
Samt sem áður voru lög á henni sem virka eins og þau séu þarna til að ná hæfilegri lengd
fyrir plötuna, ekki vegna þess að þau séu svo góð og það hafði ekki gerst hjá Maiden áður.
Seventh Son of a Seventh Son kom út árið 1988 og þar héldu Iron Maiden sínu striki og gott betur.
Á þessari plötu er sögð sagan af spámanni sem
reynir, án árangurs, að vara íbúa þorps eins við yfirvofandi hörmungum.
Þrátt fyrir það að platan sé svona ein heild er samt hægt að njóta allra laganna í sitt hvoru lagi sem kom í veg fyrir það að platan félli, eins og svona plötur gera oft.
Platan var mjög vinsæl og fékk frábæra dóma en
mörgum finnst hún marka endalok besta tímabils Iron Maiden.
Eftir þessa plötu hætti líka Adrian Smith í hljómsveitinni, þó að hann myndi að vísu koma aftur seinna.
Á No Prayer for The Dying, sem kom út árið 1990 er Janick Gers tekinn við hlutverki Adrian Smith á gítarnum.
Þessi plata var aldrei talin neitt sérstök og með henni fór frægðarsól Iron Maiden að síga í Bandaríkjunum þó að hún styrkti stöðu þeirra annars staðar í heiminum.
Platan reyndi að fara aftur að rótum Iron Maiden og spila tónlist sem minnti á fyrstu plötur sveitarinnar.
Þrátt fyrir heiðarlega tilraun þá er hún ekki hátt skrifuð.
Árið 1992 kom svo platan Fear of the Dark út en það varð síðasta plata Bruce Dickinson, a.m.k. í langan tíma, en hann sagði að honum hefði
fundist sveitin hafa runnið sitt skeið.
Fear of the Dark er ágætis plata og seldist betur en nokkur önnur plata þeirra til þessa.
Hún innihélt nokkur mjög fín lög en inn á milli önnur mun verri og því jafnaðist hún aldrei á við gamla efnið.
Nú verður farið hratt yfir sögu.
Árið 1995 tók Blaze Bayley við söngnum fyrir Iron Maiden og söng inn á tvær plötur.
Fyrst The X Factor, sem kom út árið 1995 og svo Virtual XI sem kom út 1998.
Hvorug platan seldist vel enda fengu þær báðar dræma dóma.
Flestir töldu á þessum tímapunkti
að sveitin væri búin, orðin þreytt og ætti bara að hætta því að hún var svo langt frá því að hljóma jafn vel og 10-15 árum fyrr.
Blaze Bayley var svo rekinn úr hljómsveitinni eftir Virtual XI vegna þess að hann var
ekki vinsæll (enda Bruce Dickinson mörgum sinnum betri söngvari).
Draumurinn var samt ekki alveg úti enn, árið 1999 gengu Bruce Dickinson og Adrian Smith báðir aftur til liðs við hljómsveitina fyrir túr og svo
gaf hljómsveitin aftur út plötu, Brave New World, árið 2000.
Brave New World þýddi endurreisn Iron Maiden þar sem platan var mjög góð og gömlu meðlimirnir voru betri en þeir höfðu verið í yfir 10 ár. Platan hljómar eins og hún haldi áfram þar sem Seventh Son of a Seventh Son hætti og er á köflum jafn góð og mikið af gamla efninu.
Þrátt fyrir þetta er hún ekki nein Number of The Beast en samt sem áður alveg jafn mikilvæg þar sem hún táknaði að Iron Maiden lifði og hafði tekist að endurvekja neistann fyrir 21. öldina.
Árið 2003 kom svo platan Dance of Death.
Hún eyðir öllum vafa um það að meðlimirnir geti staðið sig jafn vel í spilamennsku og áður þrátt fyrir aldurinn og þó að hún sé misgóð þá er hún á heildina litið frábært framhald fyrir sveitina og hún færir hörðum aðdáendunum allt sem þeir
óska eftir.
Iron Maiden hefur átt langan og skrautlegan feril og unnið sig frá botninum upp á toppinn, farið aftur niður og svo aftur upp.
Þeir státa af reynslu og hæfni sem er einstök og eru án vafa ein fremsta Metal sveit allra tíma. Þss vegna eru þessir menn guðir í augum sumra og allt sem tengist þessari hljómsveit eins og trúarbrögð fyrir þeim.
Ég hvet alla til að kynna sér þessa sveit, hvort sem þeir hafa áhuga á Metal eða ekki því hér er á ferðinni ein fremsta hljómsveit sögunnar, ekki bara í Metal.
Ef þú ert að byrja er líklega best að byrja á Best of the Beast, sem er einn af mörgum “best of” diskum sem sveitin hefur gefið út, eða þá á Number of the Beast.
Síðan eru tónleikadiskar líka oft góð byrjun en þeir hafa gefið út nokkra þannig líka, svo er bara um að gera að skella sér á tónleikana og smitast af Maiden-bakteríunni.:P

Kveðja
Pazzini